11.7.2012 | 23:26
Vissum ekki að við yrðum næstum því næstir.
Síðastliðið laugardagskvöld lágu leiðir tveggja atvinnuflugmanna saman á Skeiðavegamótum Suðurlandsvegar. Annar kom á einum minnsta bíl landsins niður frá Skeiðunum en hinn á vélhjóli að austan á leið til Selfoss.
Frammi í gluggakistunni undir framrúðunni á bílnum stendur lítil og létt perudós opin, hálffull. Þess vegna ákveður bílstjórinn að hægja svo mikið á sér þegar hann kemur að biðskyldumerkinu framundan, að dósin haggist ekki eða renni til í beygjunni, sem framundan er.
Þarna þarf að líta fram og til baka til hægri og vinstri til þess að fylgjast með hinni hröðu umferð sem er eftir Suðurlandsveginum. Það er beygja á Skeiðaveginum þar sem hann kemur að gatnamótunum og sömuleiðis beygja á Suðurlandsvegi þar sem hann kemur að gatnamótunum.
Þegar bíllinn er kominn að biðskyldumerkinu er litið til vinstri í annað eða þriðja sinn og ekkert athugavert sést koma úr austurátt. Bíllinn sígur inn fyrir biðskyldumerkið en þá birtist skyndilega dökkt vélhjól á mikilli ferð, sem kemur úr austurátt.
Vélhjólamaðurinn snarhemlar, líklega vegna þess að litli bílinn hefur ekki stöðvast að fullu, en er nú stöðvaður á sama þessu sama augnabliki og fer því ekki inn á veginn þótt kominn sé framfyrir biðskyldumerkið, sem stendur nú um 10 metrum fyrir aftan bílinn þegar hann hefur stöðvast.
Um leið og vélhjólamaðurinn neglir niður, þeytist hjólið upp að aftan og maður og hjól fljúga í hátt í loft upp og þeytast áfram í loftköstum alls 55 metra. Malbikið nýtt og þurrt, dekkinn sléttir slikkarar.
Véljólamaðurinn liggur eftir loftköstin án þess að sjáist með honumn nokkurt lífsmark, þar sem hann stöðvast.
Bíll kemur í þessum svifum úr hinni áttinni og stansar. Bílstjóranum varð hverft við að sjá vélhjólið og manninn koma fljúgandi á móti sér, en sá aldrei litla bílinn sem hafði komið að gatnamótunum ofan af Skeiðum.
Í svipuðum slysum hafa vélhjólamenn látist ef hjólin hafa kollsteypst á mikilli ferð. Þetta er ægilegt að sjá; eftir þessi hroðalegu loftköst liggur hugsanlega liðið lík á götunni. Ekki þarf annað en að hann hafi komið illa niður til þess að um hálsbrot eða hryggbrot sé að ræða.
Augnablikin, þegar stumrað er yfir manninum eru eins og heil eilífð angistar þeirra sem þarna eru yfir honum.
Smám saman fer maðurinn þó að anda og til að gera langa sögu stutta, sleppur hann með brotið handarbein við litla fingur á vinstri hendi. Hvílík Guðs mildi!
Vegna langrar umferðartafar á slysstað gefst tækifæri til að skoða gatnamótin. Þá kemur í ljós að umferðarskilti sem á stendur "Flúðir" byrgði algerlega sýn á milli bílstjórna og vélhjólamannsins á því kritiska augnabliki, sem bíllinn kom að biðskyldumerkinu.
Þegar litið er tið vinstri og hægri á víxl eins og gera verður við svona gatnamót, ráða ökumenn því ekki á hvaða sekúndu þeir gera það, það er tilviljunum háð.
Líkleg niðurstaða er því þessi, byggð á rannsóknum á mörgum slysum, banaslysum og örkumlaslysum, sem hafa orðið við svona aðstæður þar sem umferðarskilti eru sett á versta stað:
Bílstjórinn sá ekki vélhjólamanninn einmitt á því augnabliki sem hann hefði þurft þess mest með.
Bíllinn var svo lítill að séð frá vélhjólamanninum hvarf hann alveg á bak við skiltið á þessu sama augnabliki.
Viðbót, - atriðið í þessu máli: Stöðvunarskylda er á hliðstæðum vegamótum fyrir vestan og austan Skeiðavegamót.
Þar sem Grafningsvegur mætir Suðurlandsvegi er stöðvunarskylda.
Þar sem Landvegur mætir Suðurlandsvegi er líka stöðvunarskylda, en fékkst þó ekki fram fyrr en eftir banaslys.
Af hverju er ekki líka stöðvunarskylda við Skeiðavegamót?
Ólafur Kr. Guðmundsson, sem er sérfræðingur á þessu sviði, sendi Vegagerðinni tilmæli fyrir tveimur árum, byggð á erlendri reynslu og þekkingu Ólafs, þess efnis að breyta þyrfti staðsetningu tuga umferðarskilta við hliðstæð vegamót.
Ekkert hefur verið gert í því efni.
Það fer hrollur um bílstjóra litla bílsins við tilhugsunina um það að hefði hann ekið aðeins hraðar inn á vegamótin hefði hugsanlega orðið tvöfalt banaslys þarna ef vélhjólið og vélhjólamaðurinn hefðu þeyst inn í bílstjórasætið á 90 kílómetra hraða.
Þá hefði þessi pistill ekki verið skrifaður. Bílstjórinn á mjósta bílnum sem er í umferð á landinu og var þarna á ferð, var ég.
Vissi ekki að ég yrði næstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
ji minn einasti.. þetta hafa verið hræðilegar aðstæður og skelfilegt að lenda í.. Gott að þú er heill á húfi og til frásagnar um atvikið en hvernig líður vélhjólamanninum?
Sigríður B Svavarsdóttir, 11.7.2012 kl. 23:35
ÓMAR, þú veist svo margt og hefur reynt svo margt og hlustað vel, veistu hvort Bretar settu radar-attavita a Álftanesið um seinni heimstirjöld? Um það ganga sögur hér á nesinu, en ég finn ekkert skrifað niður. Hann átti að bíba í Norður og Austur, eða öfugt en það er nog. Norður er á moti suðri og vestur á móti Austri. Veistu um einhvern sem man eða getu bent á heimildir?
kær kv
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.7.2012 kl. 01:56
Gott að þetta fór ekki verr. Ég sakna mynda sem sýna staðsettningar.
Ég minnist þess að hafa vakið athygli á þessu í bílaþáttum á Stöð 2 fyrir 22 árum. Þar var sérstaklega tekið á skiltum í Garðabæ. Með því að sýna hvað leyndist á bak við skiltin tókst að fá menn til lagfæringa, en þó aðeins í Garðabænum. Lengra náði sú barátta ekki, þrátt fyrir að hafa sýnt mörg dæmi um skilti sem hindruðu útsýni.
Birgir Þór Bragason, 12.7.2012 kl. 03:37
Er þetta með staðsetningu skiltanna ekki dæmigerður skortur á fagmennsku í ríkisapparatinu, stjórnendur upp til hópa ráðnir á pólitískum forsendum en ekki faglegum?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 07:34
Ég vil meina að það sé mikið um þetta. Ég hef lent í því á nokkrum stöðum að sjá ekki nógu vel fyrir skiltum sem mér þykja undarlega staðsett nú er mál að taka upp myndavélasímana og mynda þessa staði.
Egill Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 10:30
Getur Ómar ekki viðurkennt mistök sín að hafa keyrt í veg fyrir móturhjól?
Hilmar Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 10:33
Það virðist vera stefna að taka ekki mark á leikmönnum hvað þetta varðar. Hugsanlega gætu fjölmiðlar haft áhrif með markvissu aðhaldi. En það er svo sem líka hægt að þagga niður í þeim, með fálæti um það sem fjölmiðlar fjalla.
Sem dæmi þá skrifaði ég um slysagildru á mótum Hringbrautar og Miklubrautar strax og sá vegur var tekin í notkun. Það vakti athygli þegar fyrsta slysið varð þar en það er ekki fyrr en nú 6 til 8 árum síðar að vegrið hefur verið sett upp.
http://biggibraga.blog.is/blog/biggibraga/entry/125490/
Birgir Þór Bragason, 12.7.2012 kl. 10:43
Hilmar skrifar:
"Getur Ómar ekki viðurkennt mistök sín að hafa keyrt í veg fyrir móturhjól?"
Hilmar...mótorhjól fara oft hratt yfir of sjást illa. Einsog kemur fram hjá Ómar, byrði skilið honum sýn.
Þú horfir, sérð ekkert og keyrir útá veginn.
Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 11:09
"Frammi í gluggakistunni undir framrúðunni á bílnum stendur lítil og létt perudós opin, hálffull."(!?)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 11:19
Lítið minningabrot - Akraborg liggur við Grófarbryggju og er að taka um borð bíla og farþega. Ríkisskip er þá með afgreiðslu þarna og svæðið er fullt af varningi, verið að afgreiða tvö skip, lyftarar á ferð til og frá. Lítill bíll beygir úr Tryggvagötu á mikilli ferð, skýst í gegnum kösina og um borð í Akraborg, lyftari nauðhemlar og missir búnt af timbri. Ökumaður Ómar Ragnarsson, sem þá hafði skömmu áður flutt þátt í sjónvarpi um hvernig aka skyldi eftir aðstæðum á hverjum tíma. Taktu ofan geislabauginn Ómar.
Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 11:36
Það er oft svona sem slysin gerast, en hlutirnir ekki settir í samhengi. Ökumanninum er ævinlega kennt um en ekki tekið tillit til aðstæðna, sem stundum eru af mannavöldum. Ég vakti fyrst máls á þessu 2004 og fékk frekar bágt fyrir, t.d. hjá Reykjavíkurborg.
Það er alltof algengt að umferðarmerki, vegvísar og önnur merki eru sett í sjónlínu ökumanna á gatnamótum. Ég hef tekið myndir af tugum svona staða í gegnum árin. Því miður standa nánast öll ennþá, þrátt fyrir ábendingar til veghaldara. Þetta á bæði við í þéttbýli og úti á landi. Ég veit um nokkur alvarleg slys, þar með talið banaslys sem hafa hlotist af þessu.
Þetta er algjör óþarfi og eitt af því sem ég hef beint til manna að laga sem fyrst. Hér er um að ræða kjörið verkefni til að fara í um allt land og slá þar með aðeins á atvinnuleysið.
Þetta mætti laga á einu sumri. Því miður hafa menn ekki tekið sér tak hvað þetta varðar og enn er verið að setja niður skilti sem hindra útsýni ökumanna.
Það að Ómar hafi ekið með opna perudós í bílnum sýnir bara að hann var meðvitaður um það sem hann var að gera og ók miðað við það. Vel má vera að perudósin hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr.
Ólafur Kr. Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 17:29
Það er mikið talað um að ökumenn sýni vélhjólamönnum tillitssemi, aldrei talað um að vélhjólamenn fari eftir lögum t.d. ekki zik-zakka á milli bíla og aka ekki á margföldum hármarkshraða
Guru (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 18:23
Annað þessu tengt er þegar hringtorg er upphækkuð mjög alskonar hrúgatildri, grjóti eða gróðri komið fyrir á þeim miðjum. Þetta hindrar útsýni og dregur þannig mjög úr öryggi.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 23:06
Þá hefði þessi tilkynning kannski komið í blöðunum eftir allt.
Gamli Ómar gaf upp önd
í gær - það vottorð sanna.
Hann andaðist fyrir okkar hönd
og annarra vandamanna.
Reynir (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 00:06
Ég ælta mér nú að halda því fram að mótorhjólið hafi ekki verið á of mikilli ferð, en það er reyndar alveg týpískt að heyra fólk fullyrða það í hvert skipti sem mótorhjól lenntir í óhappi að það sé ofsaakstri að kenna. En ályktun mín fyrir því að hjólið hafi ekki verið á miklum hraða er dregin útfrá þeirri lýsingu á hjólið hafi farið fram fyrir sig þegar ökumaðurinn bremsaði snögglega, þannig að hann hendist í loft upp af hjólinu, það gerist varla ef hjólið er á 100km hraða eða yfir.
Ég hef margoft prófað þetta láta hjól rísa uppá framdekkið og renna á því (front wheelie) og eftir því sem þú ferð hraðar því hægar rís hjólið og auðveldara að hafa stjórn á því, í þau skipti sem maður hefur endað á hausnum með því að fara framfyrir sig á hjóli er þegar svona gerist á frekar litlum hraða.
Og annað það breytir litlu eða engu nýtt eða gamalt malbik, hjól hefur mjög gott grip á þurru malbiki og mjög hæpið að læsa framdekki við svoleiðis aðstæður.
ég gæti best trúað að þetta hjól hafi verið meira en 70-90km/h en þetta sé gamla sagan hjólin hafa svo lítinn prófíl að sjást illa.
Sástu hjól? líttu aftur. góð regla
Reynir (IP-tala skráð) 13.7.2012 kl. 00:29
Hilmar og Þorvaldur: Með því að skrifa þennan pistil viðurkenni ég opinberlega þau mistök mín að hafa stöðvað of seint við gatnamótin. Ég gat líka látið það vera skrifa pistilinn svo sem allra fæstir og helst engir fréttu af þessu.
Skrýtið, Hilmar, að vera sakaður um að gera ekki það sem ég er þó að gera, að greina frá mistökum tveggja manna sem mættust á gatnamótum. Og það er ekki rétt hjá þér að ég hafi ekið í veg fyrir vélhjólið. Vélhjólið kollsteyptist fyrir austan mig og maður og hjól flugu fram hjá mér til vesturs í um fimm metra fjarlægð frá mér þegar þau voru beint fyrir framan mig.
Þorvaldur, ég hef aldrei haldið því fram og ekki heldur í þessum pistli að ég sé óaðfinnanlegur ökumaður sem geri aldrei mistök og hafi einhvern geislabaug.
En ef þið, Hilmar og Þorvaldur, teljið mig vera eina orsakavald þessa atviks og að þess vegna beri að víta mig fyrir að hafa tekið þetta mál upp og láta þessa slysagildrur vera áfram eins og þær eru af því að þeir sem lenda í slysum þeirra vegna geti kennt sjálfum sér um, lifandi eða dauðir, þá skulið þið snúa ykkur til Vegagerðarinnar og biðja hana um að hafa þetta helst svona sem á sem allra flestum stöðum.
Ómar Ragnarsson, 13.7.2012 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.