Þúað og þérað á víxl.

Sumt af því sem sjálfvirkir símsvarar eru látnir segja er kannski ekki eins gróft og smsl-skeytið sem norsk stúlka fékk frá símafyrirtæki en er samt furðulegt.

Á fyrri hluta áttunda áratugs síðustu aldar lögðust þéringar af hér á landi á undraskömmum tíma, kannski fljótar en ella vegna þess að fjölmiðlar tóku strax þátt í þessu þegar séð var að hverju stefndi.

En nú er svo að sjá og heyra að þéringar séu aftur að vinna sér sess í sjálfvirkum samskiptum fyrirtækja við viðskiptavini.

Flestir símsvararnir heilsa manni einhvern veginn svona:

Þú ert kominn í samband við X-bankann. Gjörið svo vel og bíðið.

Hvað er nú? "Bíðið"? Eru viðskiptavirnir orðnir fleiri en tveir. Eða er allt í einu byrjað að þéra mann upp úr þurru eftir að maður er þúaður þegar heilsað er fyrst?

Eða er hér í gangi einhver feimni við að segja einfaldlega: "Gjörðu svo vel og bíddu"?  Eða: "Gjörðu svo vel og hinkraðu."  Er eitthvað dónalegur hreimur í því að segja "bíddu"?  Rímar við óþægilegt orð?

Hvaða tepruskapur er þetta?  

Afsakið að maður leitar allra hugsanlegra skýringa á þessari vitleysu sem er ekki aðeins í símsvörum hundraða stofanana og fyrirtækja heldur birtist líka á kortasjálfsölum og ótrúlegustu stöðum: "Gjörið svo vel og takið kortið út" eða eitthvað þannig.

Eftir að það hefur verið á hreinu í 30 ár að það sé þúað virkar það einkennilega að taka allt í einu upp á því að þúa og þéra á víxl og skapa sama ruglinginn og varð til þess á hippatímanum að þéringarnar voru alveg lagðar af.


mbl.is „Vona að þú brennir í helvíti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Mér fannst það klaufalegt þegar þéringar voru aflagðar með valdi og kurteis unglingur sem þéraði ókunnugt fólk var gerður að viðundri. 

Ég lét mig hafa það og hélt mínum hætti nokkuð lengi og naut fyrir vikið virðingar eldra fólks en var talin snobb af kjánum. 

Kostirnir við mismun á samskipta máta á milli fjölskyldu og nánustu vina og svo aftur ókunnugra er ótvíræður og talar nú sá sem reynt hefur og er annt um góða siði, eins og tildæmis að standa upp fyrir konum og gömlu fólki í strætó .

        

Hrólfur Þ Hraundal, 11.7.2012 kl. 11:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

'We have become a grandmother' was UK Prime Minister Margaret Thatcher's statement to the press in 1989, on the birth of her first grandchild, Mark Thatcher's son Michael.

The use of the 'royal we' (the 'pluralis majestatis' or 'majestic plural') had previously been restricted, as one might expect, to royalty; for example, Queen Victoria's celebrated 'we are not amused'.

Þorsteinn Briem, 11.7.2012 kl. 12:11

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veturinn 1964-65 var Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, í fimmta bekk í Menntaskólanum í Reykjavík:

"Ólafur Hansson kenndi okkur sögu og var góður kennari og Vigdís Finnbogadóttir kenndi okkur frönsku. Þá var Gunnar Norland enskukennari einstakur snillingur og sama má segja um Jón Guðmundsson íslenskukennara og Magnús Finnbogason.

Þetta voru sterkir persónuleikar og skildu eftir mjög sterk áhrif í okkur og fleiri mætti nefna. Kennarar stunduðu þéringar á þessum árum.

Á þessum árum voru umbrotatímar í þjóðfélaginu. Það bar mikið á Keflavíkursjónvarpinu og undirbúningi fyrir íslenskt sjónvarp. Ég man að þessi sjónvarpsmál höfðu töluverð áhrif á félagslífið í skólanum. Nemendur höfðu allt í einu að nýjum hlutum að hverfa á kvöldin til afþreyingar.

Við vorum rétt á undan '68-kynslóðinni. Við vorum mótaðir af öðrum viðhorfum og þegar rætt er um pólitík þá vorum við meira mótaðir af kalda stríðinu svokallaða, Kúbudeilunni og fyrstu og erfiðustu árum Viðreisnarstjórnarinnar."

Sverrir Páll Erlendsson, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, stúdent frá MA árið 1968 og BA í íslensku og sögu frá Háskóla Íslands árið 1974:

"Ég þykist heppinn að hafa að mestu sloppið við að þurfa að þéra. Þéringar voru á hröðu undanhaldi á skólaárum mínum og horfnar úr MA þegar ég kom þangað [árið 1964] og varla nokkur í Háskóla Íslands sem þéraði."

Þorsteinn Briem, 11.7.2012 kl. 12:24

4 identicon

Þéringar ætti að taka upp aftur. Góð aðferð til að halda fólki í vissri fjarlægð, án þess að þurfa að ýta við því. Þekki þetta mætavel frá þýskumælandi löndum. Mundi auka kurteisi og bæta siði innbyggjara.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 12:52

5 identicon

"Vinsamlegast bíðið", - kvuddnin væri ðaþ?

Á annars sögur til handa þér Hrólfur, sem margir hefðu gaman af. Tek styttri útgáfuna af þeim.

1:

Eitt sinn var ég (ca. 24 árum yngri) á þvælingi í Hamborg. Þar keypti ég í bríaríi svona dátahúfu, og kominn eitthvað í öl, fór ég að spranga um stræti með "bátinn" á hausnum.

Komu þá að mér, hvað eftir annað, gamlar konur og báðu mig hjálpa sér yfir á ljósum, - þ.e.a.s. yfir götuna.

Þær þéruðu mig allar með tölu. Reyndar er auðvelt að villast á þessu þar sem þérun í Þýsku er nánast það sama og málfræðin í fleirtölu, - og við vorum nú 4 saman með kaskeitin, - ég var "Bundeswehr" og hinir "Luftwaffe".

Sama var uppi á teningnum þegar maður var um borð í lestum, - án dátahúfu vel að merkja, - gamlar konur báðu mann um að hjálpa sér með farangur og svoleiðis, sem maður gerði ljúfmannlega, og þá var maður þéraður í bak og fyrir. Þetta var bara svona innbyggt kutreisisatriði hjá eldra fólki.

2:

Var eitt sinn staddur í S-Þýskalandi. Bad Reichenhall. Þar bjó maður nokkur úti í sveit, sem var sér á báti hvað söguna varðar, - gamall orrustuflugmaður, - fyrst fyrir Hitler, og síðan fyrir V-Þýska flugherinn (NATO), og endaði þar sem "General". Við vorum búnir að hittast og vorum nokk málkunnugir,  heyrðumst árlega hið minnsta í síma, þannig að ekki leit ég svo á að milli okkar væri nokkur virðingar-stiga-brú, enda þekktur af því að gera grín að slíku.

Ég var að safna heimildum í verkefni sem tengdist hans fagi, og mig langaði að taka spjall við kappann áður en hann tæki síðustu gistinóttina á hótel jörð.

Fer þá ekki kall fram á þaðað ég þéri hann í hvívetna, og það á Þýsku.

Skólaþýskan í þéringu var ekki alveg 100%, frekar en Þýskan mín almennt, svo að kall leiðrétti mig stöðugt. Svo glotti sá gamli, og sagði sem svo, - "eigum við ekki bara að nota Ensku, - þéringarlaust" ?

Var þá sá gamli bara að sprella í mér með þetta atriði.

Gott að hann hafði grín út úr þessu, þar sem hann lést 2 vikum síðar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 13:02

6 identicon

Hér áður fyrr settu stúdentar gjarnar upp stúdentshúfuna við hátíðleg tækifæri. Þótti flott, eftir var tekið, enda fóru þá fáir í Menntaskóla, of fáir. Nú fara hinsvegar of margir.

Íslendingar sem fóru til Þýskalands í nám áttu það til að skarta húfunni, stoltir mjög, en aðeins einu sinni. Á járnbrautarstöðvum fengu þeir engan frið fyrir fólki, sem vildi fá þá til að bera fyrir sig farangur. En þá var til stétt mann, sem stundaði þá iðju; Gepäckträger.”

Nú eru þeir horfnir, enda komin hjól undir töskur “und alles.”

Sorry, Ómar. Ég setti þetta fyrst í ranga færslu. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband