13.7.2012 | 11:10
Dæmi um harðstjórn í þriðja heiminum.
Á yfirborðinu er allt slétt og fellt í Eþíópíu. Lýðræðissinar ráku kommúniska harðstjórann Mengistu af höndum sér á sínum tíma og Vesturlönd létu sér vel líka.
En því fór fjarri að lýðræði og frelsi héldu þar innreið sína. Í Eþíópíu ríkir harðstjórn valdaklíku sem er útsmogin við að viðhalda velþóknun vestrænna lýðræðisríkja.
Stjórnvöld hafa notfært sér hernaðarástand, sem kom þeim vel vegna ágreinings við Eritreu og ígildi herlaga ríkir í landinu. Ekki hefur þeim gengið síður að benda á ógnina frá Sómalíu þar sem sjóræningjar og útsendarar múslimskra hryðjverkasamtaka eru við líði.
Ekkert kemur valdhöfunum betur en að skáka í skjóli erlendrar ógnar og finna þar sameiginlegan óvin.
Í tveimur ferðum mínum víða um landið á árunum 2003 og 2006 gafst fágætt tækifæri til að líta inn í þann heim sárrar fátæktar og neyðar sem er hlutskipti milljarða jarðarbúa.
Harðstjórnin í Eþíópíu fékk ástæðu fyrir hertri einræðisstjórn sinni á silfurfati 11. september 2001 og hefur komið sér í mjúkinn hjá Bandaríkjamönnum eftir föngum. Þegar sómalískir óróaseggir gerðust uppivöðslusamir fengu þeir bandaríska flugherinn til að gera árás á þá.
Í samstarfi við Bandaríkjamenn er þjóðarstoltið, Ehtiopian Airlines rekið, sem er eina fyrirtækið í landinu sem stenst samanburð við það sem best gerist í öðrum löndum.
En í raun er nær allt flug bannað í landinu og innan við tíu innlendar einkaflugvélar fá að fljúga þar, með takmörkunum þó.
Í Arba Minch stendur flugvöllur með flugstöð, reistri úr marmara, en flugumferðina vantar. Átakanlegt var að koma þangað og sjá þetta tákn landshátta og örfárra misheppnaðra framkvæmda.
Það segir sína sögu að síðasta slíka stórvirkið var gert á vegum kúgarans Mussolínis meðan hann réð ríkjum, en það er beinn og breiður vegur þvert í gegnum suðurhluta landsins. Nú er hann svo illa farinn af hirðuleysi að á stórum köflum verða meira að segja jeppar að aka utan hans.
Þessar vegarleifar eru ömurlegt tákn um sögu þessarar merku þjóðar sem ól af sér merka kristna menningu 700 árum áður en Íslendingar tóku kristni.
Kóka Kóla nýtur forréttinda í landinu með stóra verksmiðju í Addis Ababa, og ekkert strákofaþorp í landinu er svo aumt að ekki sé þar kók á boðstólum þótt fólk og dýr hrynji niður úr þorsta og hafi ekki efni á að kaupa sér flösku af þessari guðaveig landsins.
Hagkerfi Eþíópíu er minna en það íslenska og þó eru íbúarnir 200 sinnum fleiri en Íslendingar. Þegar þjóðartekjur eru skoðaðar hefur hver Íslendingur úr jafnmiklu að spila á hverjum degi og Eþíípiumaður á heilu ári.
Landið býr yfir gnægð vatns- og jarðvarmaorku sem ekki er nýtt, meðal annars af því að Íslendingar bjóða hagstæðari kjör fyrir stóriðjufyrirtækin og "öruggara stjórnarfar."
Allt tal Íslendinga um að þeir hugsi á heimsvísu varðandi þessi mál er argasta hræsni á meðan við stöndum að því í raun að skemma möguleika fátækra þjóða tl að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir sínar fyrir mannsæmandi verð.
Hungursneyö geysar með reglulegu millibili í þessu landi örbirgðar og harðstjórnar sem vestrænar lýðræðisþjóðir skipta sér ekki af af því að hin ósvífnu stjórnvöld makka rétt og "taka þátt í baráttunni gegn hryðjuverkum".
Blaðamaður dæmdur í 18 ára fangelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.