17.7.2012 | 13:58
Bílatákn Frakklands en seldist þó ekki mest.
Lönd eiga sér sum hver tákn í formi bíla, sem hafa náð mikilli útbreiðslu í viðkomandi landi og þá auðvitað vegna þess hve þeir voru einfaldir og ódýrir.
Trabant var tákn Austur-Þýskalands enda lang mest seldi bíll landsins meðan það var við lýði.
Mini er tákn Bretlands enda enginn bíll framleiddur í fleiri eintökum þar í landi, alls 5,5 milljónir.
Volkswagen Bjalla er þýska táknið eða tákn Vestur-Þýskalands og efnahagsundurs þess,enda hefur enginn bíll verið framleiddur í fleiri eintökum í heiminum, um það bil 20 milljón eintök.
Fiat 500 er tákn Ítalíu enda voru hann og Fiat 126, sem var í raun sami bíllinn með ólíku útliti, framleiddur í hátt í 8 milljónum eintaka.
Fiat 126 "Maluch" er pólska táknið, mest seldi bíll landsins allt til ársins 2000.
En síðan kemur franska táknið, Citroen 2CV, sem alls ekki var mest seldi bíll Frakklands á neinu skeiði framleiðslu sinnar frá 1948 til 1990.
1946 kom Renault 4CV fram og varð fyrsti bíll landsins til að seljast í fleiri en einni milljón eintökum, þótt Bragginn, sem kom fram 1948, væri líka á boðstólum á þessum tíma. 4CV var afturdrifinn og með vatnskælda vél afturí og að vissu leyti svar Frakka við Bjöllunni.
1961 setti Renault fram Renault 4, þar sem vél og drifbúnaður voru sett fram í og bíllinn að miklu leyti tæknileg stæling á Bragganum en þó með venjulegri vatnskældri fjögurra strokka vél og með stórri afturhurð sem tryggði fljöbreyttari not en Bragginn.
Að því leyti var Renault 4 fyrirrennari nútíma smábíla þótt lagið á honum líktist meira "station"bíl.
Hann var seldur í hvorki meira né minna en 8 milljónum eintaka, tvöfalt fleiri en Bragginn.
Af hverju er þá Bragginn franska þjóðartáknið en ekki Fjarkinn?
Ástæðan er einföld: Þegar Bragginn leit dagsins ljós 1948 var hann alger bylting í hönnun og hugsun.
Þótt hann væri framhjóladrifinn og það kostaði aðeins flóknari drifbúnað, var vélin einstaklega einföld, endingargóð og sparneytin. Tveggja strokka loftkæld "boxara"vél. Einfaldara og ódýrari gat hún ekki verið og sú vél og vélin í Panhard Dyna voru frönsk snilldarverk.
Sagt var um Panhard vélina að hún væri svo einföld og ódýr og auðvelt að skipta um hana, að það borgaði sig frekar að kaupa nýja en fara út í viðgerð, ef vélin bilaði.
Citroen 2CV var næstum helmingi léttari en smábílar af svipaðri stærð, innan við 500 kíló, sem er aldeilis ótrúlega lág tala. Enginn bíll gaf meira rými miðað við þyngd.
Í bílnum fólst löng upptalning af hugvitssamlegum og íðilsnjöllum naumhyggjulausnum, svo sem fjöðrunarbúnaðurinn, lagður lárétt undir báðum hliðum bílsins, alveg einstakur, - rúllugardínuþakið, hreyfanlegu framljósin, einfaldir felligluggar í framhurðum, "garðstólarnir", - nefndu það.
Afburða mjúk fjöðrun og veghæð miðuðust við það að hægt væri að aka bílnum fullum af eggjakörfum yfir ósléttan franskan akur án þess að nokkurt egg brotnaði.
Sagt var um Citroen Braggann og Renault Fjarkann og Fimmuna, að þegar ekið væri hratt í beygjum væri þessum bílum ekið á hurðahúnunum, svo mikið hölluðust þeir.
Það gat valdið ökumönnum skelfingu og vandræðum og Vilhjálmur Vilhjálmsson var svo óheppinn að aðeins einn bíll var til leigu á bílaleigunni þegar hann fór sína hinstu för á Citroen Bragga.
Vélin í Bragganum var að vísu skelfilega lítil í upphafi, aðeins 375 og síðar 425 cc, en síðustu áratugina var rúmtakið komið upp í 603 cc og hún gat hún þá skilað bílnum upp á 115 kílómetra hraða með eyðslu innan við 6 lítra á hundraðið.
Citroen 2CV er kallaður Öndin (Enten) á þýsku og hefur víðast fengið svipuð viðurnefni. Ekki veit ég um neina þjóð nema okkur Íslendinga sem nýtti sér hliðarsvip bílsins til að gefa honum viðurnefni, en hermannabragginn var jú líka tákn um naumhyggju og einfaldleika.
Ég átti Renault "Fjarka" á tímabili og það var heillandi gegnumfranskur og heillandi bíll.
En draumur manns, sem sér fyrir sér "Naumhyggjubílasafn Íslands" er að þar verði að sjálfsögðu að minnsta kosti einn Braggi. Annað væri móðgun við skynsemi og raunhyggju komandi aldar.
Goðsagnakenndur Citroën á götum Manhattan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar ég sé það á skrifum þínum að þú veist harla lítið um tæknina sem
2CV er gædur t.d. fjöðrunin sem er all sérstæð, gormar í hylkjum undir
miðjum bíl sem voru "samtengdir" milli fram og aftur hjóla þanniig að bíllinn
stingur ekki nefinu niiður þegar ekið er yfir dauða löggu. Vélin er kapítuli
fyrir sig bæði loft og olíukæld (með sérstakan olíu kæli), bæði Lycoming og
Continental hafa stælt þessa gerð hreyfla. Svona mætti lengi telja því fátt
var venjulegt við tæknina sem 2CV var bygður á.
Leifur Þorsteinsson, 17.7.2012 kl. 15:11
Takk Ómar, frakkarnir kunna að búa til bíla með góða fjöðrun. Ég átti einu sinni Peugeot 106 Rallye og það er skemmtilegasti bíll sem ég hef ekið. Ástæðan er sú hvað bíllinn er léttur og meðfærilegur og lætur vel að stjórn. Á ensku er sagt að hann hafi "good handling". Ef einhver efast, kíkið þá á þetta ágæta video þar sem bróður hans 106GTI er att saman við ýmsa góða, þar á meðal Ferrari, Porsche og Lotus. Atvinnubílstjórarnir sem prófuðu bílana vor sammála um að Peugeot bíllinn hefði besta aksturseiginleika en Jeremy Clarkson (sem hefur ekkert vit á bílum) tókst einhvern veginn að hífa Ferrari upp í fyrsta sæta, eitthvað sem atvinnubílstjórarnir féllust aðeins á með semingi...
http://www.youtube.com/watch?v=OD9uq8WMtME&feature=related
Hörður Þórðarson, 17.7.2012 kl. 21:57
Ég hefði alveg getað lýst fjöðruninni í smáatriðum í pistlinum, Leifur, en vildi ekki vera of langorður og vera að moka út upplýsingum í löngum bunum.
Úr því að þú efast um að ég viti eitthvað um Braggann verð ég að upplýsa svo að rétt sé rétt, að ég kann utan að öll mál og tæknilegar tölur Braggans, sem eru alls rúmlega 40 og efast um að nokkur annar Íslendingur kunni allar þessar tölur sem og allar tölur helstu keppinautanna (specifications)
Ómar Ragnarsson, 18.7.2012 kl. 00:37
Loftkældar boxaravélar voru komnar í flugvélar meira en áratug áður en Bragginn kom til sögunnar og sérstakir olíukælar voru einnig á sumum orrustuflugvélunum eins og til dæmis Yak 3, sem er af flestum sérfræðingum talin hafa verið liprasta orrustuvél síns tíma.
Gefin var út viðvörun til þýskra orrustuflugmanna á austurvígstöðvunum þess efnis að ef þeir sæu Yak 3 með sérstakri bólgu á vélarhlífinni þar sem olíukælirinn var, skyldu þeir forðast að fara í návígi við hana í lægri hæðum.
Ómar Ragnarsson, 18.7.2012 kl. 00:46
Ekki má gleyma Wartburg,en hann er einn mýksti bíll sem ég hef ekið,lá mjög vel á vegi jafnt á malar sem og malbiki.
Númi (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.