31.7.2012 | 09:32
Stærstir og mestir, sí og æ?
Góður árangur íþróttamanna í frjálsum íþróttum var eitt af því, sem reyndist nauðsynlegt og kom sér fvel fyrir okkur Íslendinga þegar við stofnuðum lýðveldi, gengum í Sameinuðu þjóðirnar og urðum að sanna okkur fyrir alþjóðasamfélaginu.
Á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brussel 1950 náðum við betri árangri en Svíar, sem þá voru taldir í hópi fremstu þjóða í frjálstum íþróttum. Þetta vakti athygli og styrkti okkur sem sjálfstæða þjóð með metnað og framsækni.
"Það stekkur enginn lengra en hann hugsar" sagði gömul förukona við mig forðum daga í sveitinni og þrautseigja og áræðni eru nauðsynlegir þættir í lífi einstaklinga og þjóða.
En þegar sífellt er verið að setja á stall einhverja yfirburði okkar yfir aðrar þjóðir getur það virkað hjákátlega sem barnalegt grobb og stærilæti, byggt á minnimáttarkennd.
Nærvera og góð framganga forseta Íslands er mikilvæg þar sem við komum fram sem þjóð meðal þjóða eins og á Ólympíuleikunum. Því hlutverki hafa forsetahjónin sinnt af alúð og það er þakkarvert og mikilsvert.
En mér líkar ekki endalaust tal um að við séum mestir og bestir í hinu og þessu og hélt að nóg hefði verið gert af slíku í tengslum við bankabólunnar miklu fyrir Hrun.
Í viðtali, teknu á Kirkjubæjarklaustri, við Al-jazzera sjónvarpsstöðina í fyrra þegar þar var gímt við öskufall úr Grímsvatnagosinu, sagði forsetinn að Íslendingar hefðu bestu björgunarsveitir og björgunarkerfi í heiminum.
Hvernig vissi hann það? Hafði hann kynnt sér þetta meðal annarra þjóða?
Eða var skýringin sú að þetta gort var orðið að kæk og að hann var að segja svipað við útlendinga og hann gerði fyrir Hrunið, þar sem umræðuefnið var annað íslenskt fyrirbæri, orð sem byrjar líka á stafnum b í íslensku, þ. e. bankakerfið, sem átti að vera það besta í heimi og sönnun á andlegum yfirburðum okkar Íslendinga allar götur frá því í landafundum okkar fyrir þúsund árum.
Í frægu og þörfu viðtali forsetans við þáttastjórnanda á BBC vegna Icesave málsins, þar sem hann hélt vel og skörulega á málstað okkar þegar við þurftum mest á því að halda, sagði hann að Íslendingar væru fyrirmynd Evrópuþjóða varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur.
Ég svitnaði þegar ég heyrði þetta, því að aðeins ein spurning þáttarstjórnandans hefði skotið þessa glæfralegu fullyrðingu í kaf: "Hve margar þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið á Íslandi?
Rétt svar hefði verið: Engin fyrstu 66 árin eftir stofnun lýðveldisins, við erum fyrst að byrja á þessu núna.
Sem betur fer sluppum við í þetta skipti en er ástæða til þess að vera sífellt með þetta barnalega mont- og yfirlætistal sem getur hljómað eins og gort og ýkjur sem byggjast á minnimáttarkennd?
,
Mikilvægasta liðið á ólympíuleikunum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
The Economist: Íslendingar meðal lélegustu Ólympíuþjóða
Þorsteinn Briem, 31.7.2012 kl. 13:08
Ísland best í heimi! - Myndband
Þorsteinn Briem, 31.7.2012 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.