5.8.2012 | 20:51
Landið er ekki beitarhæft.
Ég er nýbúinn að fljúga fram og til baka yfir Almenninga og hef flogið yfir þetta svæði áratugum saman.
Þegar horft er á árangurinn af friðun og uppgræðslu í Þórsmörk og það borið saman við ástand Almenninga er það broslegt þegar sagt er að búið sé að gera Almenninga beitarhæfa.
Flögin og jarðvegseyðingin á Almenningum eru á sama stigi og samsvarandi svæði voru í Þórsmörk fyrir tuttugu árum.
Þegar fé fór inn á þau svæði eftir upprekstur raðaði það sér í flögin þar sem mesta konfektið var, nýgræðingurinn, og sá til þess að hann væri algerlega eyddur áður en farið var á önnur beitarsvæði.
Nú munu um 9% Almenninga vera gróið land og 91% er berangur. Auðséð er hvað muni gerast ef fé verður að nýju hleypt inn á þetta svæði, sem nú er galopið.
Það mun raða sér inn á viðkvæmustu svæðin, éta nýgræðinginn, konfekti og klippa brum af greinum.
Á þetta hef ég margsinnis horft og til eru kvikmyndir af því.
Engu skiptir hvort þetta eru 20 kindur eða 200. Ef 200 kindur kláruðu nýgræðinginn úr flögunum fyrir 20 árum á 3-4 dögum, munu 20 kindur klára hann nú á 30 dögum.
Hlálegt er að sjá að það eigi að vera afsökun fyrir landníðslu að slíkt viðgangist á öðrum afréttum.
Í raun er enginn afréttur á hinum eldvirku svæðum beitarhæfur.
Ég var í sveit sem barn og unglingur og þekki vel hina menningarlegu og þjóðfélagslegu hlið þess að reka fé á afrétt og sækja hann þangað.
Mér er í minni tilhlökkunin þegar komið var fram í ágúst og beðið eftir fjallskila/gangnaseðlinum og man vel eftir öllum þeim töfrum, sem göngur og réttir bjuggu yfir. Síðan þá hef ég farið í margar réttir og einnig nokkrar ferðir með gangnamönnum til að skila söngnum, gleðinni og ánægjunni til sjónvarpsáhorfenda.
Flestar þessarar ferða voru farnar á beitarhæfa afrétti en ekki á óbeitarhæfa.
Kannski mætti leysa þetta mál með því að féð yrði rekið mjög skamma hríð að hausti inn á afréttinn og því svo smalað aftur til þess að hægt sé að viðhalda gangna- og réttastemningunni.
Mér skilst að Skógræktarstjóri hafi orðað þessa hugmynd á fundi með bændum og að þeir hefðu orðið reiðir.
Bændur krefjast þess að Skógræktin afgirði Þórsmörk. Hér er hlutverkum snúið við, því að þetta ætti að vera skylda bændanna ef þeir á annað borð komast upp með það að reka fé inn á afréttinn og hafa lagaumhverfið sín megin, sem enn hallast allt að rétti sauðkindarinnar.
Ef svo er ættu þeir ættu þeir að halda fé sínu inni á því landi sem þeir telja sig eiga nýtingarrétt á og bera ábyrgð á því að það fari ekki inn á annarra lönd.
Bændur harðorðir vegna Almenninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta síðasta er einfaldlega rangt hjá þér Ómar. Það er ekki bænda að girða afréttarlönd heldur landeigenda sem vilja hlífa jörðum sínum við beit. Það er og verður alltaf reglan ef við viljum fá heilbrigt fé af fjalli á haustin - og á diskinn okkar.
Annars væri fróðlegt að sjá myndir af þessu landi svo hægr sé að sannreyna það hvort 90% þess sé berangur (þ.e. auðn).
Torfi Kristján Stefánsson, 5.8.2012 kl. 21:22
Ómar. Ég hélt að Þórsmörk væri friðað og afgirt svæði. En það er víst ekki þannig, samkvæmt þessum nýjustu fréttum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.8.2012 kl. 21:25
Það væri kannski heppilegt, að Ómar sendi Náttúru- og gróðurverndarnefnd Rangárvallasýslu myndirnar sínar, ef þær sýna eitthvað, sem nefndarmönnum tókst ekki að sjá með berum augum. Vingjarnleg kveðja.
Sigurður Ragnarsson (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 22:27
Ef við lítum til baka þá hefur ástandið batnað mikið.
Sem dæmi má nefna að þegar sáð var í flagið meðfram Keflarvíkurveginum þá lágu þar þúsundir af rollum því ekki var neitt annað að hafa á Reykjanesskaganum.
Við höfum fækkað rollunum og getum gert enn betur með því að lækka enn frekar beingreiðslur til bænda.
Grímur (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 22:29
Bændur eiga að passa uppá sitt fé, það er ekki annarra bænda (t.d. skógarbænda) eða almennings að gera það. Bændur sem ekki passa upp á fé sitt eru einfaldlega búskussar. Best væri að lamdakjöt væri merkt þannig að hægt væri að sjá frá hvaða bónda kjötið væri og hvort það væri kjöt af dilkum sem beitt væri á land sem þeir eru (ó)velkomnir á. Þá gæti almenningur valið hvaða kjöt þeir keyptu og ég get fullvissað alla bændur um það að kjöt þeirra sem t.d. beita á Almenninga yrði ekki mikið keypt né hledur kjöt þeirra bænda sem beittu fé sínu á lönd í eigu annarra í þeirra óþökk. Sauðfjárbændur verða að átta sig á því að það eru breyttir tímar og nýta sér þau tækifæri sem þeir bjóða upp á í stað þess að stinga höfðinu í sandinn.
Jón Pétur Zimsen (IP-tala skráð) 5.8.2012 kl. 23:40
29.2.2012:
"... lausaganga sauðfjár á Íslandi útheimti um 400 milljónir króna af opinberu fé á ári í girðingakostnað.
"Vegagerðin, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan standa einkum að girðingunum.
Er þá ótalinn allur sá kostnaður við girðingar sem einstaklingar verða að leggja út í til að verjast ágangi sauðfjár.""
Landgræðslufélag Skógarstrandar mótmælir ákvörðun Dalabyggðar
Þorsteinn Briem, 6.8.2012 kl. 00:31
Greiðslur íslenska ríkisins vegna sauðfjárræktar á þessu ári, 2012, eru um 4,5 milljarðar króna og þar af eru beinar greiðslur til sauðfjárbænda um 2,3 milljarðar króna, samkvæmt fjárlögum.
Þar að auki er árlegur girðingakostnaður Vegagerðarinnar, Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar vegna sauðfjár um 400 milljónir króna.
Samtals er því kostnaður ríkisins vegna sauðfjárræktarinnar um fimm milljarðar króna á þessu ári.
Árið 2008 höfðu 1.955 sauðfjárbú rétt til fjárhagslegs stuðnings ríkisins og dæmigerður sauðfjárbóndi er með 300-600 kindur.
Kostnaður ríkisins vegna hvers sauðfjárbús er því að meðaltali um 2,5 milljónir króna á þessu ári.
Landbúnaður og þróun dreifbýlis
Fjárlög fyrir árið 2012, sjá bls. 66
Þorsteinn Briem, 6.8.2012 kl. 02:03
25.7.2012:
"Niðurstöður úttektar sem sérfræðingar Landbúnaðarháskóla Íslands gerðu sumarið 2011 leiddu í ljós að ef litið er til Almenninga í heild er um 9% gróinn en 91% ógróinn og gróðurlendin eru ekki samfelld.
Auðnir og fjöll spanna 75% af afréttinum og talsvert mikið jarðvegsrof er á 87% af landinu."
Landgræðslan: Ástand gróðurs á afréttinum Almenningum
Þorsteinn Briem, 6.8.2012 kl. 02:15
Almenningar eru eitt, mörkin annað, og Emstrur enn annað.
Þetta er flókið mál og snýst kannski frekar um valdatafl heldur en skort á beit. Enda miklu færra fé en áður fyrr.
Það er verið að friða sum svæði án þess að gera neitt í að græða. Gott dæmi eru Emstrurnar, og þar hefur framvindan á fjárlausu landi til 20 ára nánast engin verið, enda ekkert verið að gera, og "fjárleysið" aldrei algert út af flökkukindum annars staðar að. Því vilja bændur gjarnan nýta þær, og græða þá sjálfir upp í leiðinni. Það er ekkert stórmál.
Síðustu ár hafa bændur í BGL verkefninu grætt upp um 30.000 ha af erfiðu landi, en það ratar lítt í fjölmiðla. Landgræðslan hefur þó látið það frá sér að þetta hefði hún ekki getað gert upp á sínar eigin spýtur.
Annars finnst mér að fjáreigendur ættu að halda svolítið betur utan um sínar ullarpöddur. Sjálfur er ég fjárlaus, en þarf stöðugt að vera að hornast í kindum sem eru ekki þar sem þær ættu að vera.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 6.8.2012 kl. 11:35
Ég kann ekki tæknina utan heimilis míns við að setja inn myndir en mun gera það strax og ég kem til Reykjavíkur.
Tölurnar 9% á móti 91% eru opinberar tölur um ástand Almenninga. Þess ber að gæta að norðausturhluti Almenninganna liggur hærra en suðvesturhlutinn og Þórsmörkin þannig að seint verður hægt að gera Almenningana jafn gróðursæla og Þórsmörkina.
En munurinn á þessum tveimur svæðum við mörkin á milli þeirra er sláandi, einkum eftir að flögin í Þórsmörkinni eru að vefjast nýjum gróðri á sama tíma og flögin og jarðvegseyðingin Almenningamegin eru á svipuðu róli og var áður í Þórsmörk.
Ómar Ragnarsson, 6.8.2012 kl. 11:52
Er ekki líka, í þessu tilfelli, hlutverk Sveitarstjórnar Rangárþings? Hún veitti leyfið.
,,Sveitarstjórn Rangárþings eystra ákvað á fundi sínum þann 20. júlí síðastliðinn að láta gera ítölumat fyrir afréttinn og meta hvað hann myndi þola, beitarlega séð. Jafnframt var ákveðið að heimila upprekstur á Almenninga, enda var slíkt í samræmi við álit Gróðurverndarnefndar Rangárvallasýslu."
Hugsa að þetta séu framsóknarmenn.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.8.2012 kl. 14:28
Og ps. má sjá hér:
http://www.hvolsvollur.is/stjornsysla/sveitarstjorn/
Allt framsóknar og sjálfstæðimenn langt aftur í ættir, að mér sýnist.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.8.2012 kl. 14:32
Snúum þessum á hvolf og vonum að hreindýr geri sig einhvern tímann heimakomin þarna. Það yrði athyglisvert að fylgjast með þá. Tveir öfgahópar með hnefann út í loftið.
Ingi St. (IP-tala skráð) 6.8.2012 kl. 19:37
Eru sérfræðingar Landbúnaðarháskóla Íslands öfgamenn?!
"Jafnframt var það álit þessara sérfræðinga [sumarið 2011] að mikilvægt væri að afrétturinn nyti friðunar fyrir sauðfjárbeit næstu áratugi."
Landgræðslan: Ástand gróðurs á afréttinum Almenningum
Þorsteinn Briem, 6.8.2012 kl. 20:28
Athyglisvert er að ekki þarf annað en að einhver hafi áhuga á verndun náttúru og umhverfis, þá er hann strax stimplaður "öfgamaður".
Þeir sem beittu sauðfé ótæpilega á Hólsfjöllum voru "hófsemdarmenn" en þeir, sem bentu á, hvert stefndi, voru kallaðir öfgamenn.
Þeir sem bentu á hvert íslenska bankakerfið stefndi voru líka kallaðir kverúlantar, öfgamenn, úrtölumenn o. s. frv.
Það eru hófsemdarmenn með "skynsamlega nýtingu" að leiðarljósi sem vilja nú láta virkja í Eldvörpum til þess að klára sameiginlegt jarðvarmahólf undir þeim og Svartsentgi á 30 árum í stað 50 og fórna þessari sérstæðu gígaröð í leiðinni.
Hinir sem vilja fara hægar í sakir eru kallaðir öfgamenn.
Í bloggi Kristins Péturssonar fullyrðir hann að enginn bóndi sé til sem vilji ofnýta land sitt.
Hvernig var þá hægt að fara eins með gróðurlendið á Hólsfjöllum og gert var? Voru það hófsemdarmenn?
Voru það hófsemdarmenn sem útrýmdu nær alveg vísundahjörðunum í villta vestrinu en öfgamenn sem vildu snúa við á þeirri braut?
Voru það hófsemdarmenn sem tókst á fyrstu öldum Íslandsbyggðar að eyða meirihlutanum af skóg- og kjarrlendi landsins og Ari fróði þá væntanlega öfgamaður að benda á þessa staðreynd?
Voru það hófsemdarmenn í röðum Norðmanna og Íslendinga sem stútuðu norsk-íslenska síldarstofninum fyrir rúmum 40 árum og öfgamenn sem vildu fara hægar í sakir?
Afneitunin er sterk. Þegar ég kom til Raufarhafndar að gera þar sjónvarpsþátt 1973 afneituðu heimamenn því að síldin hefði verið drepin heldur sögðu: "Síldin hefur lagst frá".
Engu máli skipti í þeirra huga þótt hún fyndist ekki, heldur trúðu þeir því að hún hefði farið eitthvað annað í felur.
Það voru væntanlega öfgamenn sem fengu því ráðið að uppblásturinn í Þórsmörk var stöðvaður með friðun með þeim árangri sem nú blasir við, en þeir voru hins vegar hófsemdarmenn sem vildu beita þar áfram og sögðu að ástand svæðisins væri í góðu lagi.
Bændurnir sem eyddu geirfuglinum vildu ekki ofnýta stofninn samkvæmt kenningu Kristins en drápu þó að lokum hvern einasta fugl.
Ómar Ragnarsson, 6.8.2012 kl. 23:45
Ómar Bjarki, - þú gleymir fulltrúa VG þarna ;)
Annars er stundum öfgaskapur á lofti. Einn armur vill bara friða allt og hafa það eins og það er, annar vill rækta lúpínu, en það vill þriðji armurinn ekki sjá, o.s.frv.
En það gleymist, að stundum er friðunin ekki nóg ein og sér, og að beit samhliða uppgræðslu er möguleg. Það má meta það ár frá ári.
Verkefnið "bændur græða landið" hefur skilað 30.000 hekturum í gróðri. Þar er verið að tala um erfitt land, og feiknar vinnu. Það gleymist líka.
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 06:25
Ef bændur hleypa fé á Almenning fer ég þangað með sveðjuna mína og geri allt fé sem ég sé þar að hlutafé.
Theódór Norðkvist, 7.8.2012 kl. 21:41
Legðu þá í hann, þar sem þú gætir fundið eitthvað.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.8.2012 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.