Að toppa á réttum tíma og eldast vel.

Tvennt af því sem ræður miklu um afrek íþróttamanna er annars vegar að "toppa" á réttum tíma og að eldast vel.

Fyrra atriðið hefur lengi vafist fyrir íþróttamönnum og margir hafa farið flatt á því. Gott dæmi er þátttaka Torfa Bryngeirssonar á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952.

Torfi kom þangað sem annar af tveimur bestu stangarstökkvurum Evrópu og Evrópumeistari í langstökki, en hann toppaði einmitt í Brussel á réttum tíma í langstökkinu og náði aldrei sama formi í þeirri grein, enda var stangarstökkið aðalgrein hans.

Vonbrigðin urðu því mikil þegar Torfa brást alveg bogalistin í stangarstökkinu á OL 1952 og komst ekki einu sinni í úrslit.

Eftir Ólmpíuleikana var Torfi meðal þátttakenda í keppnisferðalagi um Svíþjóð og bætti þar Íslandsmet sitt um hvorki meira né minna en 5 sentimetra. og stökk 35 sentimetrum hærra en í undankeppni Ólympíuleikanna.

 Ragnar Lundberg, helsti keppinautur Torfa, sagði við það tækifæri að það hefði verið heppni að Torfi toppaði þar en ekki á Ólympíuleikunum, því að erfitt hefði verið að sigra Torfa í þeim ham, sem hann var kominn hálfum mánuði eftir leikana. 

Á síðustu árum hefur safnast upp gríðarmikil reynsla varðandi þetta atriði sem veldur því að góðir þjálfarar eiga auðveldara með að skipuleggja keppni og æfingar þannig að afreksmenn nái hámarksárangri þegar mest á ríður.

Þá er mjög mikilvægt að viðkomandi afreksmaður sætti sig við það að tapa einhverjum viðureignum á því tímabili sem hann hefur ekki enn komist upp í hámarksformið, sem fyrirfram hefur verið stefnt að að ná þegar mest þarf á því að halda.

Þetta var líklega það sem gerðist þegar Usain Bolt tók upp á því að tapa í 100 metrunum fyrr í sumar.

Hættan á að toppa á röngum tíma gildir í báðar áttir. Ef menn ná toppforminu of snemma, liggur leiðin niður á við.

Hitt atriðið, að eldast vel, er erfiðara við að eiga. Það hefur lengi verið álitið að maðurinn nái hámarks afkastagetu líkamlega og andlega um  25 ára aldur.

Eftir það liggi leiðin niður á við.

Þetta er ekki einhlítt því að ártalan getur verið misjöfn um nokkur á milli manna og skapast af erfðum, rétt eins og langlífi. Þau ár sem skakkar um hámarksgetuna geta þó aldrei orðið nema örfá hvað viðbragðsflýti, snerpu og hraða snertir, og því bitnar aldurinn mest á spretthlaupurum en minna á kösturum.

Ofurmannlegur hraði Muhammads Ali byrjaði að dala fyrir þrítugt og eftir það varð hann að bæta þann missi upp með útsjónarsemi, kjarki, fórnarlund og þolgæði.

Lengi vel var hann þó hraðasti þungavigtarhnefaleikarinn, en ofurhraðinn minnkaði niður í mikinn hraða.

Hjá hnefaleikurum bitnar slaknandi geta mest á viðbragðsflýtinum og snerpunni. Joe Louis var jafn höggþungur 37 ára og áður en viðbragðsflýtirinn brást honum þá illilega. "Ég sá opnanir í vörn andstæðingsins sem ég hefði getað nýtt mér þegar ég var yngri, en var bara ekki nógu fljótur að bregðast við og nýta mér þær" sagði hann eftir að Rocky Marciano sló hann út úr hringnum í bókstaflegri merkingu.

"Opnanirnar" sem Louis talaði um, voru kannski örfáa hundraðshluti úr sekúndu. Þegar Ali var upp á sitt besta gat hann bæði vikið sér undan höggum og gefið gagnhögg á slíkum ofurhraða að annað eins hefur aldrei sést.

George Foreman varð heimsmeistari 46 ára gamall vegna þess að það síðasta, sem hnefaleikari af hans gerð missir, er höggþunginn. Ein opnun og eitt högg í elleftu lotu við miklu yngri andstæðing nægði þótt hraðinn og snerpan væru löngu fyrir bí.

Linford Christie hélt toppformi sínu í 100 metra hlaupi fram til 35 ára aldurs, sem er algert einsdæmi, en skeiðklukkan lýgur ekki, jafnvel þótt bætt tækni hafi eitthvað haft að segja um þessa einstæðu getu.

Hann var 35 ára ennþá svo fljótur í startinu að hann var ranglega dæmdur úr leik vegna þjófstarts.

Menn eiga erfiðara með að sætta sig við þá nýju uppgötvun að geta heilans sé mest við 25 ára aldur, en þá vill það gleymast að reynsla og þroski geta bætt getumissinn upp langt fram eftir aldri.

Kannski var það eins gott að hæfni snillingsheila Mozarts var í hæstu hæðum á þeim aldri.


mbl.is Bolt: Skrefi nær því að verða goðsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Menn eiga erfiðara með að sætta sig við þá nýju uppgötvun að geta heilans sé mest við 25 ára aldur, en þá vill það gleymast að reynsla og þroski geta bætt getumissinn upp langt fram eftir aldri."

Með fullri virðingu, þá held ég að þú ættir frekar að skrifa þarna: Sumir menn eiga erfitt að sætta sig við að eldast. Síðan hafa verið gerðar svo margar rannóknir í "nútíma" vísindum, og hver önnur niðurstaðan og stóryrðin stangast þvers og kruss á við hitt, og kjaftæðið og öfugmælin sem þar er að finna eru óendanleg. Þannig er það nú bara, en það verður þó líklega aldrei vísindalega sannað...;-)

Magnús J. (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband