Marilyn, James Dean og Elvis, - var hægt að biðja um meira?

Ég sé unglingsárin, eins snúin og erfið og þau geta verið fyrir ráðvillt ungmenni, í rósrauðum blæ, einkum vegna þess að hafa fengið að vera unglingur einmitt á þeim tíma.

Á sjötta áratugnum varð til fyrsta fjölmenna unglingakynslóðin í nokkru landi, sem hafði fjárráð til að njóta efnahagslegrar velmegunar á borð við fullorðna og öðlast þannig áhrif á markað, þjóðlíf og menningu.

Þetta voru bandarískir unglingar þess tíma og áhrifin frá þeim breiddust út til annarra landa þar sem 5-10 árum seinna komu til skjalanna unglingar sem líka höfðu slík fjárráð og þar með áhrif í þjóðfélaginu.

Þessi fjölmenna unglingakynslóð Vesturlanda ruddi fyrst rokkinu braut og síðar Bítlatónlistinni, hippatónlistinni, þungarokkinu og pönkinu.

Mest þessara byltinga var rokkbyltingin sem fæddi af sér Marilyn Monroe, James Dean og Elvis Presley ásamt fjölda annarra listamanna sem urðu dáðari og frægari en eldri stjörnurnar sem þeir ruddu í burtu af vinsældalistum og sölulistum.

Ég var svo heppinn að drekka eldri tónlistina með móðurmjólkinni og tileinka mér síðan einnig rythm and blues og rokk þegar ég var á mótunaraldrinum 11-20 ára. Stóran þátt í því átti Kanaútvarpið sem veitti RUV harða samkeppni í tónlistarsviðinu og hóf feril sinn einmitt á þessum árum.

Í Kananum heyrðist fyrst í brautryðjendum Rythm and blues. Þegar Elvis var spurður hvort hann væri orðinn kóngurinn sagði hann að svo væri ekki, það væri Fats Domino sem hefði rutt brautina.

Hann hefði líka getað nefnt Little Richard og Chuck Berry sem voru mínir menn og á kvikmyndasviðinu voru líka töff nýir leikarar eins og Marlon Brando.

Ævinlega mun ég þó verða gömlu Gufunni þakklátur fyrir það mikilvæga menningar- og uppeldishlutverk sem sú stofnun veitti þannig að ekki hallaðist um of á eina hlið. 

En mikið óskaplega átti sú unglingakynslóð gott sem hafði Marilyn, Presley og James Dean! Var hægt að biðja um meira?!

 

 


mbl.is Monroe heiðruð 50 árum eftir dauðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Rás 2 var mikið þarfaþing á sínum tíma. Nú er Rás 2 tímaskekkja og bara sorglegt dæmi um opinbera samkeppni sem á ekki að eiga sér stað.

Sigurður I B Guðmundsson, 6.8.2012 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband