7.8.2012 | 19:02
Ásdís og snillingurinn, faðir hennar.
Ásdís Hjálmsdóttir á ekki langt að sækja íþróttahæfileikana. Faðir hennar, Hjálmur Sigurðsson, var að mínum dómi flinkasti glímumaður sem við Íslendingar höfum átt að öðrum ólöstuðum og hefur enginn íslenskur glímumaður glatt mig jafn mikið um dagana þótt ferill hans yrði ekki langur.
Hjálmur þurfti að glíma við mun stærri og þyngri menn en varnarhæfileikar hans voru svo einstæðir, að annað eins hef ég aldrei séð í þau 60 ár sem ég hef fylgst með íslenskri glímu.
Þeir fólust í því að þegar hinir stærri og sterkari andstæðingar reyndu hábrögð, sem þeir notuðu helst gegn léttari glímumönnum, gat Hjálmur gert sig á sekúndubroti eins slapandi og máttlausan og hann væri blautt handklæði þannig að ekkert varð úr bragðinu.
Þetta var oft beinlínis sprenghlægilegt á að horfa.
Þetta var svipuð aðferð og hnefaleikasnillingurinn Floyd Mayweather notar í sinni heimsfrægu vörn, þegar hann límir sig á augabragði slappan eins og slytti upp við sóknarmanninn og notar öxlina til að verja sig, svo að ekkert verður úr krafthöggum þeirra sem reyna að lemja á honum.
Enginn annar hnefaleikari hefur sýnt þessa náðargáfu og svipað var þetta hjá Hjálmi.
Hjálmur var þolinmóður og beið rólegur meðan andstæðingarnir hömuðust við að hefja hann hátt á loft og slengja honum til jarðar aftur og aftur, og kom nær alltaf niður eins og kötturinn, án þess að snerta gólfið með handleggjum, höndum eða skrokk.
Síðan átti hann það til á hundraðshluta úr sekúndu, þegar hann kom niður og kraftajötuninn stóð óviðbúinn þetta sekúndubrot, að taka á hann svo skæðan og snarpan hælkrók eða annað lágbragð að hann féll eins og kirkjuturn og steinlá.
Hjálmur átti við erfiðan sjúkdóm að glíma, sem hann kom ekki vörnum við til að komast hjá því að deyja langt um aldur fram.
En ég get vel ímyndað mér að dóttur hans verður hugsað til þess hvað snillingurinn faðir hennar hefði orðið glaður við að fylgjast með afrekum hennar.
Til hamingju, þú snjalla dóttir hins snjalla glímukappa.
Glæsilegt Íslandsmet Ásdísar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hjálmur var Sigurðsson.
Jón Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 19:38
Frábært hjá Hjálmdísi!
Þeir hafa ekki alltaf verið stórir og sterkir, handhafar Grettisbeltisins. Þorgeir Jónsson, bóndi og hestamaður í Gufunesi var fremur lágvaxinn og léttur en varð glímukongur Íslands árið 1927. Sama ár varð hann Íslandsmeistari í bæði kúluvarpi og kringlukasti. Meistarakastið í kúlunni var að mig minnir 10,76 m.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2012 kl. 20:13
Hún heitir Ásdís.... Einhver vandræði með nöfn í og í tengslum við þessa færslu
Soffía (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 21:04
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2012 kl. 21:15
Gaman að lesa hversu fallega Ómar skrifar um bróður minn. Lýsing hans er eins og ég man hann. Hann var sannur íþróttamaður. Ásdís er einnig frábær.
Steinunn Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.8.2012 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.