Vegaaxlirnar eru vanræktar.

Á stórum köflum þess hluta vegakerfisins þar sem umferðin er mest myndi það auka öryggi og afköst veganna mikið ef Vegagerðin lagfærði og héldi við vegöxlunum. Það er nú einu sinni staðreynd að til eru bílar í bílaflotanum sem ekki geta alls staðar haldið yfir 90 kílómetra hraða eða jafnvel enn meiri hraða sem ökumenn virðast oft á tíðum telja, að þeir verða að halda sig á.

Þessi óþolimmóðu ökumenn reyna oft ævintýralegustu hluti til að komast fram úr öðrum, jafnvel á blindhæðum og þar sem eru tvöfaldar heilar línur.  

Ef til dæmis væri gert myndarlegt átak til þess að gera axlirnar nokkurn veginn jafnbreiðar og sléttar á sem lengstum köflum, gætu ökumenn nýtt sér þær betur til þess að hleypa fram úr sér umferð og auka þannig öryggi og afköst.

Því miður virðist það alger undantekning að íslenskir ökumenn sýni þeim sem á eftir þeim fara neina tillitssemi í þessu efni og er þetta oft sérlega bagalegt á þeim köflum þar sem axlirnar eru breiðar og sléttar svo sem á veginum um Kamba.

Á þeim hluta virðist hluti ökumanna álíta að það þjóna öryggi best að fara alveg niður í 50 km hraða og halda á eftir sér langri bílaröð þar sem aðstæður gefa enga ástæðu til þess að hægja svo mikið á sér.

Þetta skapar mikið öryggisleysi af því að það hvetur til þess að reyna hættulegan framúrakstur.  

Sjálfur ek ég oft á gömlum bílum, sem ekki fer vel með að þeyta á 100 kílómetra hraða eða meira sem margir ökumenn telja sig þurfa og þessi gömlu bílar komast ekki alltaf upp brekkurnar á 90 kílómetra hraða.

Ég reyni því að fylgjast vel með umferðinni fyrir framan og aftan mig og fara út á axlirnar þar sem það er hægt til að hleypa framhjá, ek jafnvel lengi úti á öxlunum til þess að liðka fyrir hröðu umferðinni.

Ef axlirnar eru sléttar og góðar er þetta ekkert mál á mjóstu bílum sem til eru í landinu. En gallinn er oft sá að þegar minnst varir mjókka axlirnar víða niður í nánast ekki neitt, skorningar koma í ljós sem liggja þvert yfir þær eða þá að alls konar drasl og möl eru á þeim af því að þær eru ekki hreinsaðar.

Ég hef aldrei séð neina vegastarfsmenn dytta að þessum öxlum, hreinsa þær eða reyna að lagfæra þær.

Þetta getur valdið stórhættu, því að í sumum tilfellum er það hættuspil að reyna að halda áfram á öxlinni þegar hún verður skyndilega ófær.

Annað vandamál er það að sumir bílstjórar eru svo gersamlega ófærir um að meta hvað bílar þeirra eru breiðir að þeir þora ekki einu sinni að fara fram úr manni þótt maður sé fyrir utan hvítu markalínu vegarins og akreinin þeirra meira en tvöfalt breiðari en bílar þeirra.

Fyrir nokkrum dögum hélt slíkur bílstjóri langri bílalest fyrir aftan sig í langan tíma af því að tveir hjólreiðamenn voru úti á vegaröxlinni utan við hvítu markalínuna.

Greinilegt var að þessi bílstjóri var einn af mörgum umferðinni sem er engan veginn fær um að stjórna  bíl sínum, enda var það eins og við manninn mælt að þegar hann kom skömmu síðar inn á bílastæði á Hellu gat hann ekki lagt bíl sínum í eitt bílastæði, heldur þurfti tvö stæði fyrir einn bíl, en slík hegðun er stundum eins og regla hjá Íslendingum.


mbl.is Vegakerfið við þolmörkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þín hugmynd er í sama dúr og kom upp hér fyrir nokkrum árum um eina og hálfa breidd á vegum eins og algengt er í svíþjóð. Sú hugmynd hlaut ekki hljómgrunn hjá yfirvöldum. En hugsaðu þér muninn ef þú gætir keyrt á þannig vegi milli akureyrar og reykjavíkur, að þú gætir vandræðalaust og án nokkurar áhættu hleypt fram úr þér hraðskreiðari bílum. Hugsaðu þér lækkunina á slysatíðni ef vegirnir yrðu breikkaðir um 1,5 metra og þar með sparnaðinn fyrir þjóð og land til lengri tíma þó svo að kostnaðurinn í núinu yrði talsverður.

sigurbjörn (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 11:16

2 identicon

Mér finnst alltaf jafn furðulegt að þjóðvegurinn/hringvegurinn sé einungis ein akrein í hvora átt. Ef hringvegurinn væri tvær akreinar í hvora átt ætti að vera að hækka hámarkshraða og umferðin yrði mun öruggari fyrir flesta ef ekki alla, sér í lagi þegar flutningabílar og hjólhýsi/húsbílar leggja í ferðalög, oft á tíðum öðrum ferðalöngum til armæðu. Ég geri mér grein fyrir því að kostnaðurinn yrði hár, en er ekki réttlætanlegt að hafa möguleika á að lækka slysatíðni og bæta samgöngur fyrir landsbyggðina og ferðamenn?

Ingimar (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 14:12

3 identicon

Þarf ekki bara að nudda axlirnar aðeins? Það er líklegra til árangurs en að kenna Íslendingum að keyra eins og fólk.

Bárður (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 15:22

4 identicon

Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að keyra þjóðveg 1 út af stökkpöllum. Þungaflutningar aflaga vegina með tímanum og á endanum líta þeir út eins og bylgjujárn. Ef vegagerðin gerði almennilegt undirlag eða sinnti betra viðhaldi þá væri kannski hægt að njóta þess að keyra þessa vegi.

Svo eru þessi óbundnu slitlög alveg óþolandi. Bílafloti landsmanna er notaður til að þjappa þetta á kostnað rúðna og lakks. Nýlega keyrði ég yfir einn slíkan veg sem var svo grófur að þetta var eins og að keyra yfir gaddabelti og keyrsla yfir 30km/klst hefði endað á sprungnu dekki.

Til að ljúka þessu verð ég að drulla yfir ostaskera Vegagerðarinnar. Þá á ég við þessi vegrið á Suðurlandsvegi sem eru einfaldlega staurar með vírum strengda á milli sín. Þetta er töluvert hættulegra fyrir bifhólamenn (þrátt fyrir að venjuleg vegrið eru það líka) og einnig hættulegt í vissum tilvikum fyrir bíla. Ég veit persónulega um dæmi þar sem tveggja bíla árekstur varð vegna þess að fyrri bíll stoppaði samstundis af völdum slíks staurs. Bílar renna nefnilega ekki eftir þessu þar sem vírarnir bogna og stakir staurar taka á stig allt höggið í einu

Helgi Heiðar Steinarsson (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband