23.8.2012 | 21:13
Magnað að sjá makrílinn í Strandaferð um daginn.
Ég var að verða átta ára þegar síld fór að vaða í Hvalfirðinum og skipin mokveiddu þar. Ég átti þá heima á Rauðárárholtinu og man eftir því þegar malargryfjurnar norðan við Sjómannaskólann varð að stóru geymslusvæði fyrir síldina.
Ég heyrði hins vegar aðeins lýsingarnar af vaðandi síldinni í Hvalfirðinni og sá aldrei síldarvöður, hvorki þá né þegar mest var af henni á fyrri hluta sjöunda áratugarins.
En á leiðinni í og úr sveitinni fyrir norðan skildist betur örnefnið Síldarmannagötur innst í Hvalfirði.
Síldin var kölluð "silfur hafsins" á sínum tíma, enda glitraði á hana í sólskini og mikla peninga færði hún í þjóðarbúið.
Í ferð norður Strandir á dögunum var það því alveg ný upplifun að sjá hinn nýja "góðmálm hafsins" vaða um allan Steingrímsfjörð og einnig norðar á Ströndum.
Nú eru veiðiskip sum að klára makrílkvótann og lítið eftir óveitt, en geta þá snúið sér að mun meiri óveiddum síldarkvóta.
Makrílkvótinn að klárast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.