Athyglisverð og stefnumarkandi ummæli Ólafs Thors 1952.

Þegar Íslendingar færðu landhelgina úr 3 mílum i 4 1952 og lokuðu fjörðum og flóum fyrir Bretum var Ólafur Thors sjávarútvegsráðherra. Í ræðu, sem hann flutti af því tilefni sagði hann að engin ríkisstjórn á Íslandi kæmist upp með annað en að standa að slíkum aðgerðum og fylgja fast eftir svonefndum landgrunnslögum frá 1948.

Með þessum orðum sendi hann skýr skilaboð til umheimsins um einhug Íslendinga í þessum málum og lagði með því grunn að því að Bandaríkjamönnum, sem hér ættu mjög mikilla hernaðarhagsmuna að gæta, væri þetta fullljóst.

Þótt átök væru á bak við tjöldin sumarið 1958 um það hve einarðlega skyldi fylgja fram lögum um útfærslu landhelginnar í tólf mílur, myndaðist alger þjóðarsamstaða um það 1. september þegar útfærslan tók gildi, að standa fast gegn hernaðaríhlutun Breta sem kom landhelgisdeilunnni á nýtt stig.

Strax í fyrsta þorskastríðinu reyndi á það hvort Bretar myndu beita herskipum sínum af fullum krafti og hefðu þeir með beitingu fallbyssna og fulls afls breska flotans geta unnið fullan hernaðarsigur á einni dagstund.

Það sem hélt aftur af þeim hlaut að vera eitthvað meira en það að þeir óttuðust um orðstír sinn á alþjóðavettvangi. Það ætti því ekki að koma á óvart ef það sannast nú betur en fyrr að í þessu efni urðu þeir að hlíta þrýstingi frá Bandaríkjamönnum, sem sáu fram á stórfelldar og alvarlegar afleiðingar fullrar valdbeitingar Breta, ekki aðeins gagnvart Íslendingum, heldur einnig gagnvart Norðurlandaþjóðunum og öðrum þjóðum heims og hernaðarhagsmunum þeirra sjálfra á norðurslóðum.

Ósamkomulag var að vísu hér innanlands 1961 um samninginn við Breta til þess að binda enda á fyrsta þorskastríðið og aftur varð ósamkomulag fyrir og eftir kosningarnar 1971 þegar útfærsla í 50 mílur var á dagskrá og aftur urðu hernaðarátök á Íslandsmiðum.

Þá rættust þau orð Ólafs Thors að engir íslenskir stjórnmálamenn kæmust upp með annað en að fylgja fast fram aðgerðum í anda landgrunnslaganna 1948, því að Viðreisnarstjórn Sjálfstæðismanna og krata féll vegna landhelgismálsins. 

Af þessu lærðu báðir flokkarnir sína lexíu og það var mjög í anda orða Ólafs Thors 1952 að Sjálfstæðisflokkurinn söðlaði um og yfirbauð vinstri stjórnina með kröfu um 200 mílna landhelgi.

Tekist var á innan vinstri stjórnarinnar um samninga við Breta um 50 milurnar en þriðju hernaðarátökin tóku  við 1975 þegar landhelgin var færð út í 200 mílur.

Allan þennan tíma blasti við að með því að fylgja fram hæfilega ákveðinni stefnu í átökum við Breta gátu Íslendingar treyst því að Bandaríkjamenn kæmu í veg fyrir fulla beitingu breska herskipaflotans.

Landhelgismál Íslendinga var stórpólitískt mál á alþjóðavísu og eins og alltaf urðu fórnarlömb fyrir barðinu á pólitísku tafli um það.

Þessi fórnarlömb voru alþýðufólkið í útgerðarbæjum Bretlands sem mér fannst þá og hefur fundist æ síðan að við Íslendingar höfum ekki sýnt þann skilning og samúð sem það átti skilið þótt ég telji að rétt hafi verið haldið á málum við útfærslu landhelginnar í öll þau fjögur skipti sem það var gert.   


mbl.is Bandaríkin voru í stóru hlutverki í þorskastríðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband