31.8.2012 | 10:09
Slysavörn.
Ég hef ekki á móti því að Kínverjar setji á fót atvinnustarfsemi á Íslandi á svipaðan hátt og undir sömu reglum og tíðkast hefur um aðra útlendinga. Þó verður að hafa í huga að Huang Nubo hreyfir ekki litla fingur varðandi umsvif hér á landi nema sem handbendi alræðisstjórnarinnar í Kína eins og bresk blaðakona benti á nýlega í blaðagrein og Elín Hirst reifaði vel í Morgunblaðsgrein.
Í stuttu mál má lýsa sambandi hans við kínversk stjórnvöld þannig, að þau veiti Nubo og öðrum milljarðamæringum í kommúnistaríkinu heimild til að vera kapítalistar og græða og nota auð sinn bæði heima og erlendis, ef það þjónar hagsmunum kínverska ríkisins. En þá verður hann líka að þjóna þeim fara í einu og öllu eftir því sem kínverkskir ráðamenn vilja.
Fyrsta hugmyndin þess efnis að selja Nubo jörðina var galin að mínu mati strax í upphafi og með ólíkindum að nokkrum skyldi detta það í hug. Ef um sölu hefði verið að ræða hefði það verið frumskilyrði að Íslendingar ættu að minnsta kosti góðan meirihluta jarðarinnar og hefðu úrslitaráð um nýtingu hennar.
Ekki var hægt að sjá að Nubo þyrfti heila 300 ferkílómetra til þess að reisa hótel og ferðamannamannvirki á jörðinni.
Um Nobo gilti það sama og um Noregskonunginn, sem gerð var tillaga um á Alþingi að fengi Grímsey að gjöf, að enda þótt hann væri hinn mætasti maður vissi enginn hverja menn afkomendur hans myndu hafa að geyma.
Raunar sló talsvert á ljómann í kringum Nubo þegar hann varð margsaga um það hvernig hann ætlaði að standa að málum og gaf rangar upplýsingar um samninga sína við aðra, eins og Sigrún Davíðsdóttir komst að.
Svipað er að segja um þá hugmynd að leigja Nubo jðrðina til svo langs tíma að jafngildi eignarhaldi.
Nú þarf að stíga varlega til jarðar og búa svo um hnúta að ekki verði slys varðandi eignarhald á stórjörðum eins og Grímsstöðum á Fjöllum.
Við eigum að líta til nágrannaþjóða okkar eins og Dana, sem fengu það inn í aðildarsamninga sína við ESB að eignarhald Dana væri tryggt á dönskum jörðum og sumarlendum.
Það eru ekki haldbær rök sem haldið er fram að jafnræði ríki á milli okkar og Evrópuþjóðanna í EES-samningnum, - að við getum keypt upp lönd og eignir í Evrópuríkjunum á sama hátt og þau geti gert hið sama á Íslandi.
Því veldur margaldur stærðarmunur þjóðanna, þar sem ESB-þjóðirnar eru samanlagt meira en þúsund sinnum mannfleiri en við.
Í áskorun sem ég ritaði undir um Grímsstaðamálið er rætt almennt um jarðir sem liggja að hálendinu eða ná inn á það. Ég lít svo á að áskorunin þurfi ekki að þýða það að allar slíkar jarðir verði teknar eignarnámi nú þegar, enda fara margir eigendur slíkra jarða þannig með eignarhald sitt að ríkið myndi varla gera það betur.
Hins vegar verður að búa svo um hnúta að slys, eins og felst í því að færa erlendu alræðisvaldi stórjörð á silfurfati, geti ekki átt sér stað.
Að því leyti til er ákallið um að Grímsstaðir verði þjóðareign ákall um slysavörn, sem dugi til að bægja frá hættunni á því að misfarið verði með dýrmætar lendur, náttúruverðmæti og auðlindir sem land okkar býr yfir.
Vilja að Grímsstaðir verði þjóðareign | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar
Allur almenningur þarf að fá tækifæri til þess að fá að skrifa nafn sitt undir þessa áskorun. Getur þú hjálpað til þess að ég og allir aðrir sem sammála eru efni áskoruninnar geti skrifað undir.
Kveðja,
Bjarni Hafsteinsson
Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 12:46
Takk fyrir þetta Ómar.
Ég bý í Noregi en vil gjarnan skrifa undir áskorun þessa.
Gætir þú sent mér slóðina ?
Þúsund þakkir.
Kveðja,
Hafdís Hilmarsdóttir
Hafdis Hilmarsdottir (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 13:28
Tek undir með hinum tveimur vil gjarnan skrifa undir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.8.2012 kl. 13:41
Ómar ér er hjartanlega sammála þér og einnig langar mig til að undirrita þetta skjal
ég er búsettur á Filippseyjum og hérna hafa Kínverjar og aðrir ríkir menn reynt að kaupa land hérna en það er bara þannig að útlendingum er bannað að kaupa land hérna
ég get ekki einu sinni keypt lóð til að byggja smá hús
og ég er sammála þessari stefnu
Ísland fyrir Íslendinga
Filippseyjar fyrir innfædda
Magnús Ágústsson, 31.8.2012 kl. 13:46
Magnús Ágústsson er sem sagt innfæddur Filippseyingur.
Þorsteinn Briem, 31.8.2012 kl. 14:58
Skýrsla Evrópunefndar lögð fram af Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í mars 2007, sjá bls. 77-79:
"VARANLEGAR UNDANÞÁGUR OG SÉRLAUSNIR."
"Komi upp vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í umsóknarríki er reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir.
Eitt þekktasta dæmið um slíka sérlausn er að finna í AÐILDARSAMNINGI Danmerkur árið 1973 en samkvæmt henni mega Danir viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í Danmörku.
Í þeirri löggjöf felst meðal annars að aðeins þeir sem búsettir hafa verið í Danmörku í að minnsta kosti fimm ár mega kaupa sumarhús í Danmörku en þó er hægt að sækja um undanþágu frá því skilyrði til dómsmálaráðherra Danmerkur."
"Ekki er hins vegar um að ræða undanþágu eða frávik frá banni við mismunum á grundvelli þjóðernis og íbúar annarra aðildarríkja sem uppfylla skilyrði um fimm ára búsetu geta því keypt sumarhús í Danmörku."
Í þessu tilviki "er í raun um að ræða FRÁVIK FRÁ 56. GR. STOFNSÁTTMÁLA ESB, sem bannar takmarkanir á frjálsu flæði fjármagns."
"Mikilvægt er að hafa í huga að AÐILDARSAMNINGAR að ESB hafa sömu stöðu og stofnsáttmálar ESB og því er ekki hægt að breyta ákvæðum þeirra, þar á meðal undanþágum eða sérákvæðum, sem þar er kveðið á um, nema með samþykki allra aðildarríkja [í þessu tilviki einnig Danmerkur]."
Þorsteinn Briem, 31.8.2012 kl. 15:23
Undarlegt hvað fólk heldur að útlendingar geti keypt hér jörð og gert svo eins og þeim sýnist á meðan ég fæ ekki að reisa hænsnakofa á mínum jarðarskika án allskonar leyfa, stimpla og samþykkta. Eru útlendingar undanþegnir Íslenskum lögum á Íslandi?
Nei, hér er sennilega heimsfræg útlendingahræðsla Íslendinga og heimóttarskapur að minna á vel alda tilveru sína. En útlendingahræðsla Íslendinga er alveg einstök. Hún jaðrar oft við ofsóknarbrjálæði og er sérstakt sambland af minnimáttarkennd, græðgi, óheiðarleika, fáfræði og fordómum. Og oft sannast hið fornkveðna; Þjófar eru manna þjófhræddastir.
sigkja (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.