Hvílíkar gersemar, Rangárnar! Og Stórsveitin!

Rangæingar eiga góða auðlind þar sem eru Rangárnar tvær, Ytri- og Eystri-Rangá, ár sem ég hef kynnst nokkuð vel úr lofti í gegnum tíðina og sýndi Tungufoss í Eystri-Rangá í sjöunda Stikluþættinum í janúar 1982.

Nú blómstra þessar veiðiár enn eitt árið á sama tíma sem hrun hefur orðið í veiði flestra helstu veiðiáa landsins.

Í vikunni fór ég í ljósmyndaflug yfir Eystri-Rangá og sá skemmtilega veiðistaði sem stangveiðimenn nota í þessari yfirlætislausu en afar gjöfulu á. Það var greinilega djúp veiðistemning ríkjandi alla leiðina upp að Tungufossi í blíðviðrinu sem sveipaði ána töfraljóma og þótt ég sjálfur sé ekki veiðimaður, gat ég ekki annað en hrifist af þessari sjón. IMG_5257

Í fyrradag fór ég síðan einn enn meiri nautnarferð til ljósmynda- og kvikmyndatöku yfir mögnuðustu svæðin austur af Hvolsvelli, allt austur í Brytalæki. Á efstu myndinni sést yfir hluta þeirra þar sem Mýrdalsjökull og Mælifell eru í baksýn. IMG_5277

Þeir eru eitt þeirra svæða sem virkjanamenn renna hýru auga til að drekkja til þess að virkja Hólmsá og ég ætla að setja hér inn tvær myndir af hlutum þessa magnaða svæðis auk mynda frá Jökulgili fyrir sunnan Landmannalaugar.   IMG_5293IMG_5310

Og í kvöld var enn komið að því að hrífast enn einn daginn á tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur í Hörpu og ég beinlínis táraðist strax í fyrstu lögunum að fá svona beint í æð lögin, sem voru spiluð á æskuheimili mínu og kynntu undir rómantíkina hjá foreldrum mínum, þá kornungum.

Upplifunin var sterkari en ella vegna þess að það er svo langt um liðið síðan þetta var og ég var þá bara krakki.

Segja má að meira en 60 ára gamall draumur minn hafi ræst að upplifa lögin í beinum flutningi með stórsveitinni, Kristjönu Stefánsdóttur, Bjarna Arasyni, Þór Breiðfjörð, Borgardætrum og Nútímamönnum.

Á aldrinum átta til þrettán ára fékk ég það hlutverk hjá pabba og Baldri Ásgeirssyni, heimilisvini, að vera plötusnúður og spila djass fyrir þá á meðan þeir tefldu hverja skákina á fætur annarri.

Smám saman þróaðist starfið upp í það að ég yrði reiðubúinn til að að velja handa þeim lög og jafnvel vissa kafla í lögum Ellingtons, Lionel Hamptons, Benny Goodmans og Glen Millers.

Til þess þurfti að miða nálinni á réttan stað í lögunum. "Leyfðu okkur að heyra Jack Teagarden,- og þá var það mitt hlutverk að miða rétt á sóló hans inni í miðju lagi.

Foreldar mínir höfðu yndi af dansi, enda var pabbi karlinn líkast til besti dansherrann í bænum. Að minnsta kosti sagði mamma það.

Rómantískustu stundir þeirra voru vafalaust þegar þau svifu undir tónum laganna, sem stórhljómsveitirnar gerðu frægar.

Mér varð hugsað til þeirra þegar ég hlustaði af nautn á þessi lög í kvöld og sagði í huganum: "Ó, að þau hefðu nú fengið að upplifa þetta flutt svona beint af sviðinu og gert svona vel!"

Og jafnframt er gott að geta fengið að upplifa hvern daginn af öðrum þar sem hrífandi yndisleiki, tign, fegurð og rómantík fylla mann þakklæti fyrir að fá að vera til.  

  


mbl.is Veislan heldur áfram í Ytri Rangá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Satt er það Ómar, þetta er magnað. Er það þessvegna að við töpum svona stöðum? Eru til menn sem hata fegurð? Og það er ekki að verða rafmagnslaust í Hafnarfirði.

Eyjólfur Jónsson, 1.9.2012 kl. 21:26

2 identicon

Flottur pistill Ómar, þekki þessa staði vel sem þú lýsir og eru mér jafn kærir og þér. Myndin sem þú birtir úr Jökulgili, er eins og sýni tröllskessu liggjandi á bakinu, í gráum buxum og í ponsjó og með útréttar hendur. Sést aðeins glitta í aldraðan háls. Frábært og takk.

Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband