"Sveitin milli sanda."

Öræfasveitin, Skaftafell og þjóðgarðurinn hafa löngum heillað fólk frá öllum heimshornum og hrifið það, enda um fágætt náttúruverðmæti að ræða. Er gott að verðskulduð frægð þjóðgarðsins rati nú inn á síður virtra erlendra blaða.

Ég er einn af þeim sem hef hrifist af þessari sveit og 1957, þegar ég var 16 ára, önglaði ég mér saman í ferð með yngri bróður mínum, Edvardi, til þess að fljúga þangað og heimsækja yngsta bróðurinn, Jón, sem var á sumrin á bænum Hofsnesi í tíu sumur. Þá var sveitin einangruð og árnar óbrúaðar og þess vegna enn meira heillandi og gaf meira af sér en nú.  

42 árum síðar, 1998, datt mér í hug að gera texta við lagið "Sveitin milli sanda" eftir Magnús Blöndal Jóhannsson vegna sjónvarpsmyndarinnar "Öræfin upp á nýtt".

Þátturinn er þannig upp byggður, að í byrjun eru sýndar svart-hvítar myndir frá fyrri tímum og myndir frá sjöunda áratugnum og undir myndasyrpu frá þessum tíma leikið fyrrnefnt lag með engilssöng Ellýjar Vilhjálms.

Í lok þáttarins var svo kominn okkar tíð og lagið spilað aftur, en nú með nýjstu myndum og texta við lagið.  

 Ég notaði eina nóttina, sem við Steinþór Birgisson vorum að vinna við samsetningu þáttarins, til þess að gera texstann, en hann er byggður í kringum andstæðurnar í litum og landslagi þessa einstaka svæðis. 

Daginn bar ég svo textann undir höfund lagsins og hann samþykkti hann.

Björgin Halldórsson söng síðan lagið af alkunnri snilld við frábæranundirleik og útsetningu Þóris Baldurssonar og þátturinn endað með því myndskreyttu.

Ef ég á að lýsa þessu umhverfi í svipuðum dúr og gert er í International Business lítur lýsing svona út í orðum:  

SVEITIN MILLI SANDA.

                        Heiðblá er himinhvelfing víð,

                        fannhvít er frerans höll,

                        iðgræna bratta birkihlíð

                        ber við sandsins svarta völl.

Hæst hæð og mannsins mikla smæð,

marflöt og lóðrétt jörð.

Andstæður, alveg beint í æð,

já, undralistasmíð af Drottni gjörð.  

                       Hvergi er að finna í heimi hér

                       hliðstæðu, segja menn.

                       Sveitin á milli sanda er

                       seiðandi og ógnvekjandi í senn.

Eldrauð er undir jökli glóð, -

umturnar köldum ís,

dökkbrúnt um sandinn fossar flóð,

sú feiknarbylgja sem hið efra rís.

                        Sköpun og eyðing öllu hér

                        umturna lægst og hæst.

                        Eldfjallið þó af öllu ber,

                        ó, hve þessi höll er stór og glæst!

Hátt upp af jörðu höll sú rís.

Hér skín mítt óskaland.

Blátt hvel og birta af hvítum ís

slær bjarma á græna hlíð og svartan sand.


mbl.is Skaftafell einn besti þjóðgarður heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Fallega gert, Ómar.

Magnús Óskar Ingvarsson, 18.9.2012 kl. 02:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband