8.10.2012 | 13:05
Ekki einsdæmi.
Dæmið um jeppann, sem notaður var eins og vopnn á Gullinbrú í gærkvöldi er ekki einsdæmi i umferðinni. Líklegast kannast flestir við hliðstæður.
Stundum er ómögulegt að finna hvaða ástæður liggja að baki. Ég reyni yfirleitt eftir bestu getu að beygja út á vegaröxl til að hleypa hraðari umferð framhjá en samt er eins og einstaka ökumaður sé svo æstur að hann geti ekki látið vera að sveigja harkalega að mér og fyrir mig þegar ekið er framhjá.
Því miður hafa vegaxlir víða verið vanræktar af Vegagerðinni og því getur stundum verið varasamt, erfitt eða jafnvel ómögulegt að víkja út á þær. Á einstaka stað eða vegarkafla þar sem bratt er, er ekki fyrir hendi vélarafl til að halda uppi hámarkshraða á litla bílnum mínum.
En þetta virðist samt ekki vera aðalatriðið hjá sumum framúrakstursmanna, því að það gerist að beygt er harkalega fyrir mig um leið og farið er fram úr, jafnvel þótt ég sé á 90 kílómetra hraða og að sá sem fer fram úr sé vel yfir hámarkshraða.
Það er eins og hugsun framúrakstursmannsins sé sú að refsa hverjum þeim sem sé í vegi fyrir honum á hraðferð hans.
Nú myndi einhver segja að þeim, sem ekur á hámarkshraða, beri engin skylda til að hjálpa þeim, sem aka hraðar og vilja taka fram úr, til þess að halda uppi ólöglegum hraða.
En löng reynsla mín er sú, að skást sé að gefa hinum æstu ekki tækifæri til þess að verða enn æstari og aka enn hraðar og glannalegar.
Mátti engu muna að það yrði stórslys | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er rétt hjá þér, ökumenn sem haga sér svona eru fífl. Hins vegar mætti alveg árétta fyrir ökumönnum að vinstri akreinin er ekki til að dóla sér á, þú átt að nota hana til að fara fram úr og svo yfir á hægri aftur. Íslendingur sem æki svona í t.d. Þýskalandi þyrfti ekki að kemba hærurnar lengi.
Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 20:20
Hið gagnstæða getur einnig átt sér stað. Ég varð einu sinni fyrir því að náungi sem ég hafði nýtekið fram úr varð svo pirraður að hann þrykkti aftan á bílinn hjá mér en í honum sat ég með konu og tveimur börnum okkar. Ekki nóg með það heldur hélt aftaníossinn áfram akstri eftir áreksturinn í stað þess að stöðva ökutækið, og virtist ætla að hreinlega keyra okkur út af veginum. Ég lagði á flótta og ökuníðingurinn veitti eftirför sem endaði með því að hann þvingaði mig út í vegkant svo ég varð að stöðva. Hann stökk út úr bílnum og þegar hann kom aðvífandi að okkar bíl skrúfaði ég niður rúðu eins og ég ætlaði að tala við hann, en um leið og hann var kominn að hlið bílsins fór ég af stað aftur og lagði á flótta til að koma konunni og börnunum í skjól. Því næst hringdi ég á lögreglu sem kom og tók skýrslu um málið.
Ökuníðingurinn hefur líklega ekki áttað sig á því að ég var með kerrukrók aftan á bílnum og það eina sem skemmdist var rafmagnstengið, en á framenda bíls ökuníðingsins urðu víst skemmdir fyrir mörg hundruð þúsund krónur (sem á þeim tíma þóttu alvöru peningar). Á einhvern óskiljanlegan hátt taldi tryggingafélag níðingsins mig í órétti og mitt tryggingafélag (Íslandstrygging) gerði ekki rassgat til að gæta minna hagsmuna. Er það í eina skipti sem ég veit til þess að ökumaður hafi verið látinn bera sakir af aftanákeyrslu annars ökumanns. Það er þó ekki í eina skiptið sem ég hef fengið furðulegar trygginganiðurstöður, í eitt sinn var ég talinn í órétti gagnvart strætó þegar ég var á innri hring í hringtorgi! Í báðum þessum tilvikum var þó heimskulegum ákvörðunum tryggingafélaganna hnekkt eftir tilætluðum leiðum.
P.S. Aldrei versla við Íslandstryggingu (heitir núna Vörður) nema þér finnist gaman að vera settur í órétt þegar þú ert í rétti og fá nákvæmlega enga tryggingavernd.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.10.2012 kl. 20:29
Ómar, ef þú ekur á 90 og gefur bíl á eftir þér merki um að fara framúr ertu að hvetja til lögbrota og það er saknæmt athæfi.
Öðru mái gegnir ef þú ert á 80 og það er ekki flutningabíll eða bíll með aftanívagn sem er fyrir aftan.
Svo er það ekki fremsti bíllinn í röðinni sem býr til lestina helur bíll númer 2 og 3 sem fara ekki sjálfir fram úr en gera öðrum nær ómögulegt að gera það.
Landfari, 8.10.2012 kl. 23:28
Lögreglan sjálf hefur gefið það út að það eigi ekki að nota bíla sem hraðahindranir. Það skapar meira hættuástand.
Að keyra á hámarkshraðanum gefur manni ekki leyfi til þess að hanga á vinstri.
Hallgeir Ellýjarson, 9.10.2012 kl. 04:06
Ef fremsti bíllinn í röðinni heldur sig fast inni við miðju og víkur ekki út á öxl er hann óumdeilanlega lestarstjórinn í því tilfelli.
Ég, eins og Hallgeir, hef farið að tilmælum lögreglunnar um að gerast ekki hraðahindrun og egna með því óbilgjarna ökumenn. Þeir hegða sér oftast þannig, að ekkert getur haldið aftur af þeim nema lögreglan.
Ómar Ragnarsson, 9.10.2012 kl. 12:10
Margir skynsamir menn hafa sagt: hegðið ykkur eins og þið mynduð vilja að aðrir hegðuðu sér. Ég gæti nefnt mörg nöfn. Allt ágætis menn. Og þetta er góð regla að lifa eftir.
Guðmundur Ásgeirsson: TM, eða Elísabet. Aldrei lent í neinu veseni með þá. Og mínir bílar draga að sér vandræði.
Ásgrímur Hartmannsson, 9.10.2012 kl. 16:49
Nú er það svo að hver sá sem víkur út á vegöxl er þar með farinn út af veginum í skilningi laga. Hann er þar með farinn að stunda utanvegaakstur og þurfi hann að komast aftur inn á veginn á hann engan rétt. Komi eitthvað uppá liggur vitaskuld fyrir að hann fór viljandi útaf og þar með er bíllinn ekki lengur kaskótryggður. Það að hvetja menn til að fara útaf til að víkja fyrir lögbrjótum er afar vafasamt. Það að nota svo vegaxlir til framúraksturs er enn vafasamara en svoleiðis hefi ég jafnvel séð atvinnubílstjóra með farþega gera.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 17:28
Svo er náttúrulega málið líka að kumenn meta ekki allir aðstæður eins. Það er engu líklegra en sumir telji 90 vera lágmarkshraða sem gildi alltaf, óháð aðstæðum. Gildi einu hvort það er rigning og blautar götur, þoka og lélegt skygni eða snjókoma og fljúgandi hálka. 90 skal það vera og ekkert minna.
Það er hinsvegar hámarkshraðinn sem er 90 og það miðað við bestu aðstæður.
Gallinn er að ökumenn verða seint samstilltir í þessu mati á ytri aðstæðum og eigin færni.
Landfari, 10.10.2012 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.