Jörðin er flöt af því að færustu vísindamenn héldu það einu sinni.

Æ ofan í æ er umræðunni um virkjanaframkvæmdir snúið á þann veg að einblína á álit manna fyrr á tíð og það gert að aðalatriði.

Þannig var það og er gert að aðalatriði varðandi Hjalladal, sem sökkt var undir Hálslón, að Hjörleifur Guttormsson hefði fyrir áratugum ekki markverð atriði í Brúardölum, sem eru svæðið þar vestur af.

Hjörleifur vann mikið þrekvirki við ritun margra stórkmerkra bóka um hin miklu víðerni á austanverðu landinu en hann einn gat ekki gengið um það allt út í hörgul.

Þegar leið að drekkingu dalsins fóru fleiri að skoða hann og rannsaka, og sem dæmi um það, hve seint sumar upplýsingar komu fram, má nefna, að þrátt fyrir mikil ferðalög mín um hann árum saman, var það ekki fyrr en tíu dögum fyrir drekkingu hans sem maður frá Aðalbóli sagði mér að Jökla hefði grafið hið fagra gljúfur fyrir neðan Rauðuflúð og mótað hina litfögru Stapa á innan við öld.

Það þýddi einfaldlega að hér var um einstæða náttúrusköpun að ræða á heimsvísu auk annarra einstæðra náttúruverðmæta dalsins. 

En samkvæmt röksemdafærslu virkjanasinna voru allar uppgötvanir síðustu ára marklausar, af því að þær höfðu ekki komið fram fyrr. 

Og þannig er söngurinn nú.

Síðan mat var gert á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar fyrir tæpum áratug hefur það verið upplýst að rangar reyndust þær fullyrðingarnar varðandi Hellisheiðarvirkjun að treysta mætti því að þar yrði ekki um vandamál að ræða vegna affalls, brennisteinsmengunar, jarðskjálfta eða gróðurdreps.

Fullyrðingar um að hægt væri að dæla niður við Svartsengi hafa líka reynst rangar og staðan varðandi jarðvarmavirkjanirnar og áhrif þeirra því stórum verri en menn héldu eða reyndu að halda fram. 

Staðan er þannig núna við Hellisheiðarvirkjun, að OR hefur beðið um átta ára frest til að athuga hvort hægt sé ráða við vandamálin og viðurkennt hefur loksins verið, að grafa þurfi langan skurð alla leið til sjávar til þess að veita affallsvatni Svartsengisvirkjunar burtu.

Tíu kílómetra frá Kröfluvirkjun er stækkandi lón affalls frá virkjuninni, en samt er staðhæft þar að niðurdæling gangi vel !

En allt þetta skal dæmt ómerkt vegna þess að fyrir einhverjum árum var annað fullyrt.

Við getum heimfært þetta upp á önnur vísindi og komist að þeirri niðurstöðu að vegna þess að færustu vísindamenn heims vissu ekki fyrir öld um rek meginlandanna, sé rétt að halda sig við það, sem og að jörðin sé flöt, vegna þess að færustu vísindamenn á sínum tima töldu hana vera það.  

En


mbl.is Landvernd sendu umsögn um umhverfismat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja hérna hér. Þannig að rök eru bara viðurkenndar staðreyndir hverju sinni. Hver hefði trúað því?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 12:42

2 identicon

Hver einasti fermetri á yfirborði Jarðar er einstæð náttúrusköpun á heimsvísu. Í tugþúsundir ára hefur maðurinn valdið óafturkræfum umhverfisspjöllum á henni með því einu að heyja lífsbaráttu. Flatarmál höfuðborgarsvæðisins er tæpir 800 ferkílómetrar, sem að stórum hluta hefur verið eyðilagt óafturkræft með byggingum, skólplögnum og tilheyrandi mengun.

Jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir eru styrkur okkar Íslendinga. Við höfum mikla reynslu á þessu sviði. Ef við hættum að byggja þær verður mikið af sérfræðimenntuðu fólki atvinnulaust og sérfræðifyrirtæki fara á hausinn. Jörðin sem við búum á er nefnilega ekki bara náttúran heldur er fólkið sem býr hér hluti af náttúrunni líka með sinni óafturkræfu lífsbaráttuhegðun. Mannfólkið er líka lífríki á sama hátt og lífríki Mývatns.

Við verðum því að halda áfram að gera það sem við erum góð í en halda áfram þeirri vinnu eftir fremsta megni að draga eins mikið úr umhverfisáhrifum og mögulegt er. Það hefur þegar mikil vinna verið unnin varðandi þetta og henni ber að halda áfram. Það verður þó aldrei hægt að draga alveg úr umhverfisáhrifum, ekki frekar en þegar við setjumst upp í bíl eða byggjum okkur hús. Það eina sem við getum gert er að lágmarka skaðann.

Ragnar Þórisson (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 13:12

3 identicon

Ég held að Ragnar tæpi á vandanum án þess þó að komast að kjarnanum þegar hann segir: "Ef við hættum að byggja þær(virkjanirnar) verður mikið af sérfræðimenntuðu fólki atvinnulaust og sérfræðifyrirtæki fara á hausinn".

Þetta er það sem í skemmtanabransanum er kallað; "The show must go on".

Vandamálið felst að stóru leyti í því að einu kaupendurnir af umræddi sérfræðiþjónustu eru orkufyrirtækin. Tekjur sérfræðinganna felast í því að halda "showinu" gangandi. Þeir sem gagnrýna eða vilja fara hægar í sakirnar fá ekki vinnu hjá fyrirtækjum sem rekin eru á annarlegum forsendum en stóru raforkufyrirtækin þrjú (LV OR HS) eru með arðsemi langt undir evrópskum systurfyrirtækjum sem þó þurfa að kaupa dýrt eldsneyti til framleiðsunnar.

Það vantar hagsmunadrifna eigendastefnu í orkugeirann sem miðar af því að færa eigendum auðlindarinnar arð af nýtingunni.

Ekki bara okkar kynslóð heldur líka þeim sem á eftir koma.

Umræðan festist þó jafnan í því hjólfari að það þurfi að drífa í þessari eða hinni virkjuninni strax "til þess að skapa störf".

Virkjun í Bjarnarflagi án getu til tryggrar niðurdælingar skiljuvatns og án þess að gera þessi árlegu 8.300.000 tonn af eiturgasinu H2S óskaðlegt er ekkert annað en aðför að náttúru og samfélagi.

Vel útfærð Bjarnarflagsvirkjun hefur alla burði til þess að verða rós í hnappagat Landsvirkjunnar. En þá verða menn að hafa þann metnað að sjá fyrir sér rósabeð en ekki ólögulega skítahrúgu eins og stefnt er að.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 14:47

4 identicon

Kjarninn í þessu er að umræðan er að miklu leiti drifin áfram af öfgum. Öðrum megin er talað um að stöðva allar virkjanaframkvæmdir og hinum megin er talað um að virkja allt sem hægt er að virkja. Bæði sjónarmiðin eru stórkostlega gölluð en eru engu að síður þau sem eru mest áberandi.

Það er smá galli á Skemmtanabransasamlíkingunni þinni. Virkjanaframkvæmdir eru ekki show heldur frekar æfingar fyrir show sem taka aldrei enda. Það er ekki til nein fastmótuð virkjanaframkvæmd. Næsta virkjun er aldrei afritun af þeirri á undan. Þetta er æfing þar sem ber að taka hvert smáatriði fyrir og bæta það og aðlaga að nýjum aðstæðum. Ef við ætlum að líta á þetta sem eitthvað show þá erum við á villigötum.

Ég er ekkert á móti því að fara hægar í sakirnar. Það átti aldrei að fara eins hratt í Hellisheiðarvirkjun eins og varð raunin. Þetta vita orkufyrirtækin og sérfræðiþjónustaðilarnir. Næsta virkjun verður aldrei byggð á sama hraða, það er staðreynd. Gallinn er að þessi staðreynd virðist fara framhjá öfgahópunum tveimur, hvort sem það er með vilja eða ekki, og þeir halda áfram að ráðast á sína strámenn úti í sínu horni. Á meðan er skynsemi varpað fyrir róða sem er til vansa fyrir okkur öll.

Ragnar Þórisson (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 15:33

5 identicon

Mér hefur nú sýnst að Landvernd hafi verið þokkalega jarðtengd í virkjanumræðunni.

Krafa Landverndar nú, er að LV sýni fram á getu sýna til mengunarvarna áður en af stað er farið. Sú krafa kom að hluta fram 2004 en krafan um að gera H2S skaðleg er byggð á reynslu af Hellisheiðarvirkjun og því að mengunarspá gerir ráð fyrir 4X til 10X meiri styrk H2S í Reykjahlíð en mælst hefur í Hveragerði.

Landvernd hefur t.a.m. lengi talað fyrir hófsemi í virkjun jarðhitans og bent á það sem LV er fyrir löngu búin að viðurkenna, -að hvorki er til raforka til að knýja álver í Helguvík eða á Bakka!

Það var absúrd að heyra forstjóra LV lýsa því að LV hefði dregið til baka viljayfirlýsingu um afhendingu raforku til álvers á Bakka, -ÁÐUR en úrskurðað var um sk. sameiginlegt máu verksmiðju,lína og virkjana fyrir norðan.

Sú ákvörðu LV var auðskilin þar sem þetta sk "sameiginlega" máu innihélt einungis tæpan helming aflþarfar álversins. Samt héldu stóriðjumenn á þingi og í héraði áfram að kyrja þennan órafmagnaða álverssöng árum saman, allt þar til Hörður tók eftirminnilegt "stand-up" á Húsavík sl. vetur og sagði; 200MW!

Það er von um 200MW í viðót á löngum tíma af allt fer á besta veg en tæplega 600MW álver er útúr korti.

Það er virkileg þörf á því að jarðtengja þessa umræðu.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 16:42

6 identicon

Hér að ofan á að sjálfsögðu að standa "að gera H2S skaðLAUAST"

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 16:46

7 identicon

"LAUST" :)

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 16:48

8 identicon

Ómar, ég er þér fyllilega sammála og þetta sýnir að verið er að vinna að óathuguð máli, hlutirnir virka flott á pappír og ég tala nú ekki um Excel skjölin. En reyndi hefur sínt sig að annað er í raunveruleikanum og þá er ekki aftur snúið.  Úr þessu í annað. Ég sakna umræðu um það sem nær er, Gálgahraunið, hvar eru allir náttúruunnendur og Landvernd núna.

Kjartan (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 16:49

9 identicon

Já það þarf að jarðtengja umræðuna. Pólitíkusar skemma allt of oft þarna fyrir. Hvort sem það er með fullyrðingum um fjölda virkjanlegra megawatta eða með því að breyta faglegu umhverfismati í pólitiskt umhverfismat með hrossakaupum um virkjanakosti.

Mér fannst reyndar forstjóri Landverndar ganga svolítið langt með því að kalla jarðvegsvinnuna á fyrirhuguðu stöðvarhússvæði óafturkræfa.

Ragnar Þórisson (IP-tala skráð) 11.10.2012 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband