"Atlagan að stjórnarskránni" - "Stjórnarskráin töluð niður."

Ofangreindar setningar eru tamar þeim sem hamast nú gegn nýrri stjórnarskrá og Jón Magnússon talar um "rökþrot" þeirra sem séu að gera "atlögu að stjórnarskránni" rétt eins og það, sem nú er að gerast, sé fyrsta "atlagan að stjórnarskránni."

Lítum á þrjóskar staðreyndir sögunnar um "atlögurnar að stjórnarskránni":  

Í aðdraganda kosninganna um lýðveldisstjórnarskrána 1944 sögðu talsmenn allra flokka á Alþingi, þ.á.m. Jakob Möller fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Eysteinn Jónsson fyrir Framsóknarflokkinn og Brynjólfur Bjarnason fyrir Sósíalistaflokkinn, að lýðveldisstjórnarskráin væri bráðabirgðastjórnarskrá, og strax að stríðinu loknu skyldi hafist handa við að semja nýja stjórnarskrá frá grunni.

Þetta var sem sé margmenn "atlaga að stjórnarskránni" og "stjórnarskráin töluð niður."  

Í nýjársávarpi 1949 brýndi forseti Íslands, Sveinn Björnsson, stjórnmálaleiðtoga landsins til að efna loforðin um nýja stjórnarskrá.

Þetta var ekkert smáræðis "atlaga að stjórnarskránni" og "stjórnarskráin töluð niður".  

Næstu sex áratugi voru stofnaðar nokkrar stjórnarskrárnefndir sem áttu að ljúka þessu heildarverki.

Sem sagt: Margar atlögur að stjórnarskránni og alltaf verið að "tala hana niður", síðast árið 2005.

En er það ekki merkilegt að fyrst nú, þegar tekst loksins að ljúka efnd loforðsins frá lýðveldisstofnun, skuli þetta orðalag vera notað en aldrei í öll fyrri skiptin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geir H. Haarde var dæmdur af Landsdómi, til að mynda hæstaréttardómurum, fyrir brot á stjórnarskránni.

Það er því eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ánægður með stjórnarskrána.

Sem hann skilur samt ekki.

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 21:21

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Núverandi forseti Íslands, sem aldrei hefur verið í Sjálfstæðisflokknum, synjaði að staðfesta frumvarp um fjölmiðla 2. júní 2004 og frumvarpið var dregið til baka.

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, 17. maí 2004 um að forseti Íslands synji að staðfesta frumvarp um fjölmiðla:


"Forseti [Íslands] blandar sér varla í löggjafarmál persónulega, þó að hann kunni að vera höfundi þessarar greinar ósammála um vald sitt skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar."

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 21:22

3 identicon

Skrif Jóns Magnússonar meika engan sens, nema manninum hafi verið greiddar mútur fyrir þjónustuna.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 21:31

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það var nú ekki eins og drög hinnar ólöglegu stjórnlagaráðssamkundu hefðu verið samþykkt með húrrahrópum. Þau voru samþykkt með semingi af mörgum,... einhverskonar málamiðlunarniðurstaða sem kom frá ykkur hrá og illa ígrunduð.

Þorvaldur þrjúprósent þjösnast í öllum fjölmiðlum og talar grimmt fyrir já-i í öllum liðum og Ómar er lítið skárri. Þessi harða málfylgja fyrir samþykkt á vinnu þessa hóps er fráhrindandi í augum margra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.10.2012 kl. 21:58

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alþingi breytir stjórnarskránni og Alþingi er kosið af íslensku þjóðinni.

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 22:47

6 identicon

Stjórnarskrá Íslands var ekki bráðabirgðastjórnarskrá. Hún var lögfest í sátt og samlyndi, mjög ósamlyndra stjórnmálamanna.

Hún hefur dugað okkur í 68 ár, með breytingum, sem líka hafa verið gerðar í sátt og samlyndi.

En, jafnvel þó svo að stjórnarskráin væri bráðabirgðaplagg, hvaðan í ósköpunum kemur sá ofboðslegi hroki, að ætla að stjórnmálamenn fyrri tíma hefðu gefið samþýkki sitt fyrir þeim bastarði sem Jóhönnunefndin leggur fram?

Hvernig fá nokkrir vinstrisinnaðir bloggarar í Jóhönnunefndinni það út, að þeirra útgáfa af nýrri stjórnarskrá, sé það sem stofnendur lýðveldisins Íslands hefðu haft í huga, ef þeir álitu að stjórnarskráin þyrfti endurnýjun?

Ómar, staðreydin er sú, að enginn af þeim sem stóðu að stjórnarskrá Íslands 1944, hefðu hleypt ér og þínum bloggvinum úr Samfylkingunni, nálægt samningu stjórnarskrárinnar.

Hilmar (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 22:49

7 identicon

"Þá (16. júní 1944) voru bornar upp og samþykktar tvær þingsályktunartillögur, önnur um að sambandslagasamningurinn skyldi úr gildi fallinn, en hin um, að lýðveldisstjórnarskráin skyldi öðlast gildi, er forseti sameinaðs þings lýsti því yfir á þingfundi. Báðar tillögurnar voru samþykktir einróma að viðhöfðu nafnakalli."

Það er nú aldeilis gölluð bráðabirgðastjórnarskrá, sem er samþykkt samhljóða í sundurlyndir póitík ársins 1944.

Ómar Ragnarsson að endurskrifa söguna, eftir sínum geðþótta.

Hilmar (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 22:59

8 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ómar Ragnarsson, ef það er eitthvað eitt umfram annað, sem mun fæla fólk frá því að svara fyrstu spurningu kjörseðilsins játandi á morgun, þá er það hrokafull afstaða margra stjórnlagaráðsmanna og þingmanna, s.s. Þorvaldar Gylfasonar og Valgerðar Bjarnadóttur, sem blákalt halda því fram að tillögum Stjórnlagaráðs megi ekki breyta efnislega á nokkurn hátt verði þær samþykktar.

Það eru náttúrulega ekki boðleg vinnubrögð að hóa saman 25 manns og láta þá rita stjórnarskrá á 4 mánuðum, án nægilegrar aðkomu hinna ýmsu sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, sem síðan má ekki hrófla við.

Núverandi stjórnarskrá er að stofni til ágætisplagg, sem visslulega þarf að vera í stöðugri endurskoðun að kröfu samtíðarinnar á hverjum tíma. Að halda því fram að hún sé einhver arfleifð frá konungseinveldi og hafi ekki breyzt síðan á 19. öld er einfaldlega rangt.

Þó einhverjir hafi lýst því yfir fyrir tæpum 70 árum að það þyrfti að rita nýja stjórnarskrá ekki seinna en í fyrradag þá þarf að ekki endilega að vera heilagur sannleikur og alls ekki það sem við teljum brýnast, í ljósi reynslunnar, í dag.

Þó ýmsir hafi viljað virkja Gullfoss hér í eina tíð þá er ekki þar með sagt að við eigum að berjast fyrir því í dag.

Emil Örn Kristjánsson, 19.10.2012 kl. 23:02

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alþingismenn ráða því sjálfir hversu mikið tillit þeir taka til vinnu Stjórnlagaráðs og Alþingi hefur verið kosið af íslensku þjóðinni.

Frumvarp Stjórnlagaráðs


"48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum."

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 23:06

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Málið er að það voru ekki bara 25 manna stjórnlagaráð sem "setti saman drög að stjórnarskrá" fyrst var það stjórnlaganefnd skipuð af alþingi sem stóð fyrir þúsundmanna þjóðfundi sem var valin með slembiúrtaki af öllu landinu.  Þar var unnið að því hvað væri mest aðkallandi meðal þjóðarinnar, hvaða óskir væru sterkastar. http://www.thjodfundur2010.is/ Síðan var stjórnlaganefnd sem yfirfór þessar tillögur og skilaði þeim til stjórnlagaráðs.  Þeir unnu svo upp úr þessum óskum þjóðfundarins eftir bestu getu það plagg sem nú liggur fyrir.

Það er með hreinum ólíkindum að fólk reyni að tala niður alla þessa vinnu og allt það fólk sem kom að samningu tillagnanna og gera lítið úr allir þeirri vinnu.  Samt skiljanlegt þegar haft er í huga að þeir sem hafa böðlast áfram í einkavinavæðingu og spillingu vilji ekki setja neinar skorður við þeirri starfssemi, sérstaklega í ljósi þess að þeir eygja möguleika á því að setjast að völdum eftir næstu kosningar.  Þá er nú aldeilis gott að hafa áfram gömlu stjórnarskrána sem ekki tekur á og takmarkar áhrif sterkra athafnamanna í atvinnulífinu.  Einmitt það sem Eva Joly var að benda á.  Að mesta ógn heimsins í dag eru áhrif þeirra á stjórnmálin. Þetta kallast víst mútur svona á raunmáli, en ekki hér. Það er það kallað að "gefa í kosningasjóði viðkomandi flokka"

Ég mun því segja já á morgun. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.10.2012 kl. 23:20

11 identicon

"Niðurstaða atkvæðisgreiðslunnar varð þessi: Af 73.056 kjósenda er neyttu atkvæðisrjettar, guldu 69.433 stjórnarskránni jákvæði eða 95.04%, en á móti voru 1051, eða 1.44%. Auðir seðlar 2054 og ógildir

518, eða samtals 3.52%."

Merkilegt að 98.5% þjóðarinnar skuli hafa samþykkt handónýta "bráðabirgðastjórnarskrá"

98.5% þjóðarinnar samþykkti stjórnasrká unna af kjörnum fulltrúum.

Nú kemur lítill hópur bloggara úr Samfylkingunni, sem Jóhanna réð til starfa án umboðs frá þjóðinni, og segir að þeirra nýja stjórnarskrá sé það sem þessir kjósendur, og þeirra kjörnu fullrúar, voru að bíða eftir.

Hilmar (IP-tala skráð) 19.10.2012 kl. 23:25

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

DÆMI:

"15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim."

Stjórnarskrá Íslands


Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands:


"15. gr. stjórnarskrárinnar um að forseti [Íslands] skipi ráðherra verður að skoða í ljósi þingræðisreglunnar.

Því er það Alþingi sem ræður því í raun hverjir verði skipaðir ráðherra, þótt formlegt skipunarvald sé hjá forsetanum.

Skipun eins ráðherra í ríkisstjórn fer eftir tillögu forsætisráðherra.

Við myndun nýrrar ríkisstjórnar ber forseta að kanna vilja Alþingis áður en ákvörðun er tekin um skipun ráðherra."

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 23:34

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands:

"Reglur um störf forseta [Íslands] sem handhafa framkvæmdarvalds verður að skoða í ljósi annarra ákvæða stjórnarskrárinnar um það hvernig meðferð valdsins er háttað.

Þessi ákvæði hafa áhrif á inntak 2. gr. og leggja grunninn að þeim skilningi að völd forseta sem handhafa framkvæmdarvalds séu formlegs eðlis.

Samkvæmt 13. gr. stjórnarskrárinnar skal forsetinn láta ráðherra framkvæma vald sitt og í 19. gr. kemur fram að undirskrift forseta veiti stjórnarathöfnum gildi þegar ráðherra ritar undir þau með honum.

Sem áður segir er forsetinn ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum en hins vegar bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt 14 gr. og er ráðherraábyrgð ákveðin með lögum.

Þegar ákvæði stjórnarskrárinnar eru skoðuð í þessu samhengi er ljóst að raunverulegt vald til þessara athafna er að öllu leyti í höndum ráðherra og að sama skapi bera þeir ábyrgð á þeim."

(Um lög og rétt, 2. útg. 2009, bls. 44.)

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 23:38

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þorvaldur 3%" segir þú, Gunnar. Staðreyndin er þessi og Hæstiréttur véfengdi ekki þá staðreynd, heldur formgalla á framkvæmd: Meira en 28 þúsund kjósendur settu nafn Þorvalds Gylfasonar á atkvæðaseðil í stjórnlagaþingkosningunum og tjáðu með því vilja sinn til að hann yrði fulltrúi á stjórnlagaþingi.

Þetta var um þriðjungur þeirra sem tóku þátt í kosningunum  og um sjöundi hluti allra á kjörskrá.  Talan 3% er órafjarri frá hvoru tveggja.

Ómar Ragnarsson, 19.10.2012 kl. 23:51

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í alþingiskosningunum árið 2009 voru að meðaltali 2.888 atkvæði á bak við hvern þingmann á öllu landinu en 1.848 atkvæði í Norðvesturkjördæmi.

Munurinn er 56%!!!

Þorsteinn Briem, 19.10.2012 kl. 23:53

17 identicon

3% kjósenda settu þekktasta og mest auglýsta nafnið úr blogglagakórnum, í fyrsta sæti.

Það þykir tíðundum sæta, að Þorvaldur skuli hafa fengið slíka útreið meðal stjórnarsinna, enda voru það fyrst og fremst þeir sem mættu á kjörstað.

Það er með ólíkindum, að maður sem hefur hlotið slíka útreið meðal samflokksmanna sinna, skuli ekki láta sér segjast, og koma fram eins og erfðaprins þjóðarinnar.

Hilmar (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 00:37

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá 1945-2009, í 65 ár, voru hér engar þjóðaratkvæðagreiðslur, ekki einu sinni um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) eða Evrópska efnahagssvæðinu, en frá árinu 1908 til 1944 voru hér sex þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þorsteinn Briem, 20.10.2012 kl. 01:00

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Núverandi forseti Íslands, sem aldrei hefur verið í Sjálfstæðisflokknum, synjaði að staðfesta frumvarp um fjölmiðla 2. júní 2004 og frumvarpið var dregið til baka.

Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, 17. maí 2004 um að forseti Íslands synji að staðfesta frumvarp um fjölmiðla:


"Forseti [Íslands] blandar sér varla í löggjafarmál persónulega, þó að hann kunni að vera höfundi þessarar greinar ósammála um vald sitt skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar."

Þorsteinn Briem, 20.10.2012 kl. 01:02

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Samtal Matthíasar Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, við dr. Bjarna Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sem birt var í Morgunblaðinu 9. júní 1968, í aðdraganda forsetakosninga."

"Bjarni víkur í viðtalinu að synjunarákvæðinu í stjórnarskránni frá 1944 og greinir þar frá ástæðum þess að það var sett inn í stjórnarskrána, en þess má geta að Bjarni átti sæti í nefndinni sem samdi tillögurnar að lýðveldisstjórnarskránni. Bjarni segir:

"Í stjórnarskránni er forsetanum að nafni eða formi til fengið ýmislegt annað vald, þar á meðal getur hann knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp með því að synja frumvarpinu staðfestingar.

Þarna er þó einungis um öryggisákvæði að ræða, sem deila má um hvort heppilegt hafi verið að setja í stjórnarskrána. Aldrei hefur þessu ákvæði verið beitt og sannast sagna á ekki að beita því þar sem þingræði er viðhaft.""

Synjunarvald forseta Íslands skýrist eingöngu af tímabundnu ástandi 1942-1944

Þorsteinn Briem, 20.10.2012 kl. 01:13

21 identicon

Þetta er töluverður misskilningur hjá þér Ómar. Í pistli mínum í dag rek ég atriði úr ræðu Bjarna Benediktssonar þáverandi formanns stjórnarskrárnefndar árið 1953 eða 9 árum eftir að lýðveldisstjórnarskráin var samþykkt. Þar rekur hann hvaða hugmyndir voru uppi. Þar var hvergi talað um heildarendurskoðun heldur þvert á móti. Þess vegna er það slitið úr sögulegu samhengi að tala um heildarendurskoðun sem hafi verið ákveðin árið 1944. Bjarni Benediktsson kvartar einmitt yfir því að tillögur um breytingar hafi ekki komið fram frá öðrum en Sjálfstæðismönnum þau ár sem hann var formaður stjórnarskrárnefndar. Þarna er um samtíma heimild að ræða Ómar og ég vísa í hana blaðsíðutal og allt. Kynntu þér þetta og hafðu það sem sannara reynist kæri vinur.

Það voru uppi deilur um vald forseta og þess vegna talaði Sveinn Björnsson með þessum hætti. Bjarni Benediktsson rekur það vel í ræðu sinni á Varðarfundinum árið 1953 sem ég vísa til í næstu færslu á undan. Þar gerir hann grein fyrir 5 tillögum sem sjálfstæðismenn fluttu um breytingar á stjórnarskránni til að auka völd forseta lýðveldisins.

Ég hef það mikið álit á þér Ómar sem vönduðum manni að ég trúi ekki öðru en þú viljir skoða málið í réttu ljósi. Ég er þess vegna tilbúinn til að setjast niður með þér eftir kosningar og fara í gegn um þetta með þér og sýna þér fram á hver hin sögulega staðreynd er í málinu.

Jón Magnússon, 19.10.2012 kl. 23:29

Eldri borgari (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 06:42

22 identicon

Það er að segja nei við því að kasta lýðveldisstjórnarskránni, sem samþykkt var með 95% greiddra atkvæða í kosningu sem 98% atkvæðisbærra manna tóku þátt í, fyrir róða.

Það er að segja nei við því að setja það vald, að skrifa nýja stjórnarskrá frá grunni, í hendur fámenns og einsleits hóps manna með, í besta falli, takmarkað umboð.

Það er að segja nei við því að eyða tíma og orku Alþingis í átök um stjórnarskrána meðan mörg önnur mun meira aðkallandi mál bíða.

Það að segja nei við fyrstu spurningunni er ekki merki um áhuga- eða skilningsleysi. Það þýðir ekki að einhverjum sé sama um mannréttindi. Það er ekki það sama og að samþykkja hvern staf í núgildandi stjórnarskrá og það er ekki það sama og að segjast aldrei vilja sjá nokkru breytt í stjórnarskránni.

Ég ætla að mæta á kjörstað 20. október og hvet alla til að gera slíkt hið sama. Ég mun mæta og svara öllum sex spurningunum neitandi."

Mér finnst Helgi hafa sagt allt sem þarf að segja um þetta mál.

Mætum á morgun og segjum nei við fyrstu spurningunni. Ég óttast að höfundar reyni að snúa útúr atkvæðagreiðslunni á þann veg, að hafi maður greitt atkvæði um afganginn af spurningunum, þá vilji maður að frumvarpið sé rætt og hafi því sagt einskonar já.

Því þori ég sjálfur ekki annað en segja aðeins nei við hinni fyrstu og láta hinar eiga sig.



Hiunday Hirosi (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 06:52

23 identicon

Mikill er hávaði vesalinganna sem viðhalda vilja spillingar- og þjófræði sjallabjálfanna.

Það mun koma í ljós nú um helgina hvort mörlandinn eigi skilið að búa í nútíma lýðræðisríki, eða kjósi fremur að vera skóþurrka auðvalds klíkunnar á mölinni fyrir sunnan.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 09:43

24 identicon

Hér útleggur Haukur  úr horni Jómóu vonleysi uppþornaðar hlandþúfu. Framtíðin með valdlausu torfuhiski og bankaribböldum samfylkingarinnar er of svört til að ærast ekki.

Hermóður (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 10:24

25 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað snertir málskotsréttinn, sem haldið var fram að væri fallinn niður vegna þess að honum hefði aldrei verið beitt og komin væri "hefð" á þetta, má benda á innlegg Sigurðar Líndals um það mál.

Sigurður taldi, þegar deilt var um hann, að hann ætti sér hliðstæðu i ákvæðum stjórnarskrárinnar um að Alþingi gæti vikið forseta Íslands frá. Fráleitt væri að halda því fram að það ákvæði væri ekki í gildi vegna þeirrar "hefðar" að því hefði ekki verið beitt.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2012 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband