Hve oft unnu bestu lyfjafræðingarnir og læknarnir ?

Ég gantaðist stundum með það um árið í hálfkæringi, að þegar þeir íþróttamenn ynnu verðlaun, sem hefðu bestu lyfjafræðingana og læknana, væri réttara að þessi hjálparmenn tækju við verðlaununum en íþróttamennirnir.

Siðblinda Lance Armstrongs er ótrúleg. Þegar Ben Johnson vann hundrað metrana á afgerandi hátt á OL í Seuol 1986 og stakk fljótasta mann heims, Carl Lewis af, var það einn dramatískasti sigur íþróttasögunnar.

Því stærra varð fallið þegar þegar hið nýja ofurgoð féll á lyfjaprófi.

Ben Johnson reyndi fyrir sér eftir að hann kom úr banni en án dópsins náði hann ekkert viðlíka árangri og áður. Þess vegna er grobb Lance Armstrongs því átakanlegra þegar hann heldur því fram að sigrarnir allir hafi verið sanngjarnir og hann unnið þá að verðleikum.

Ég hef eitt sinn reynt það á sjálfum mér hvað það getur skilað miklu að missa blóð og fá síðan aftur blóð.

Í árslok 2002 kom í ljós við læknisskoðun Flugmálastjórnar að mig skorti um það bil 40% af blóði mínu.

Fluglæknirinn spurði mig hvort ég hefði ekki fundið til slappleika, en ég kannaðist ekki við neitt slíkt og sýndi honum litlu minnisbókina mína, en í hana hafði ég skráð árum saman tímann, sem það tók mig að hlaupa upp á fjórtándu hæð í blokkinni að Sólheimum 27, og í framhaldi af því hliðstætt hlaup í Ræktinni á Seltjarnarnesi.

Síðustu mánuðina fyrir blóðmissinn hafði þessi tími verið nokkuð stöðugur, rétt rúmar 50 sekúndur.

Læknirinn varð undrandi en nefndi þá skýringu að ég væri í svo góðri þjálfun að ég þyldi blóðmissinn betur en óþjálfaður maður. Hann spáði því að þegar ég færi að taka blóðaukandi lyf og blóðmagnið yxi á ný, myndi ég setja persónuleg met í "stigahlaupinu."

Þetta gekk eftir og þá skildi ég hvers vegna afreksíþróttamenn freistuðust til að gera svipaðar kúnstir.

Vísindalegar þjálfunaraðferðir, framfarir í gerð skófatnaðar og alls þess búnaðar, sem í kringum íþróttirnar er, og hárfínar brellur varðandi lyfjagjafir og mataræði hafa því miður sett leiðilegan blæ á íþróttir.

Aftur vaknar gamla spurningin: Hve oft vinna og hve oft unnu bestu lyfjafræðingarnir og íþróttalæknarnir?

Gunnar Huseby hafði á sínum tíma mörg einkenni steranotkunar, var vöðvatröll með gríðarlega snerpu og krafta, grófa húð og stundum erfitt skap.

Auðvitað tók hann ekki inn stera; þeir komu ekki til sögunnar fyrr en á miðjum sjöunda áratugnum, og virkuðu þá stundum þannig, að kastarar, sem höfðu verið sæmilegir, bættu sig allt í einu um 10-20%. Mér hefur dottið í hug að Gunnar hafi verið með meiri stera í sér frá náttúrunnnar hendi en aðrir og um það réði hann auðvitað engu frekar en að sumir menn eru fæddir fljótari eða liprari en aðrir.

Ekkert verður að sjálfsögðu fullyrt um þetta enda engin gögn til um það.

Eftir stendur að Gunnar Huseby og aðrir fremstu íþróttamenn okkar fram undir 1970 höfðu það sem kallað er náttúrutalent sem þeir gátu með viljastyrk og ástundun ræktað svo að þeir unnu afrek sem enginn getur svipt ljómanum af.

Pétur Pétursson læknir á Akureyri var með það á hreinu hvað hefði valdið því að Mike Tyson beit eyrað af Evander Holyfield í hnefaleikabardaga 1997. Hann gerði um það stöku sem hljóðar svona:

Tyson óðan telja má.

Þó tel ég öruggt vera

að bullur þær er bíta og slá

brúki allar stera!  


mbl.is Goðsögn fellur í gleymskunnar djúp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Þetta mál er alveg stórfurðulegt. Þrátt fyrir að lyfjaeftirlit hafi tekið yfir 100 sýni úr honum hefur aldrei sannast á hann misnotkun. Aldrei! Rannsóknarfólk hefur enn aðgang að þessum sýnum en samt finnst ekkert. Hvað veldur?

Hér hefur íþróttamaður verið dæmdur þyngsta dómi án þess að menn hafi sannað á hann brot. FBI náði fram þessum vitnisburðum en það hefur áður gerst að saklausir hafa hlotið dóm í Bandaríknunum.

Mun sannleikurinn einhvern tíman koma í ljós? Spyr sá sem ekki veit.

Birgir Þór Bragason, 23.10.2012 kl. 21:38

2 identicon

Auðvitað eiga menn ekki að dópa sig. En er þetta bara grobb í Lance Armstrong? Var það ekki hann sjálfur sem sat á hjólinu. Hefur þú nokkra hugmynd um hvað Tour de France þýðir? 3200 km á 21 degi. Total elevation sem samsvarar því að klifra Everest, ekki Esjuna. Halló. Og þetta gerði hann 7 sinnum og vann. Sjö sinnum.

En auðvitað eiga menn ekki að dópa sig.

Armstrong var ekki hlaupa 100 metra á 10 sec. Ekki heldur upp tröppur í blokk í Sólheimum 27.

Einn af aðdáendum Armstrongs: to hell with the doping charges. Lance Armstrong performed miracles.

Kannski er skoðun mín skríngileg, en ég get ekki gleymt því að það var Armstrong sem sat á hjólinu. Og hann var ekki að skakklappast upp einhverjar tröppur. En auðvitað eiga menn ekki að dópa sig. Auðvitað.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.10.2012 kl. 21:58

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Armstrong mun ekki gleymast. Fyrir hvað er Kolbeinn Tumason orðinn einn af þekktustu Íslendingum fyrri alda?  Jú, fyrir fallegan sálm sem enn fallegra lag hefur verið gert við.

En hve mörg mannslíf hafði sami Kolbeinn Tumason á samviskunni á hinni blóðugu öld sem hann var uppi á?

Tíminn jafnar metin um síðir. Öll gerum við sitthvað gott og líka slæmt. Um síðir eru hlutirnir gerðir upp eins og bókhald með debet og kredit, - ekki bara kredit.

Ómar Ragnarsson, 23.10.2012 kl. 22:04

4 identicon

Tyson með mági mínum á forsíðu Séð og Heyrt mynd tekin í New York 2011. Tyson er mjög vinanlegur á þessari mynd valdi sjálfur hver fékk að taka myndanna af þeim hjónum sú mynd er inn í blaðinu.

Baldvin Nielsen

 http://www.birtingur.is/media/utgafumyndir/sedogheyrt//small/sh1047.jpg

B.N. (IP-tala skráð) 23.10.2012 kl. 22:54

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tyson var skrautlegur boxari, en af þeim tveimur var það einmitt Holyfield sem var grunaður (rökstuddur grunur) um steranotkun.

https://en.wikipedia.org/wiki/Evander_Holyfield#Allegations_of_steroid_and_HGH_use

Theódór Norðkvist, 23.10.2012 kl. 23:36

6 Smámynd: Þórarinn Helgi Sæmundsson

Eruð þeir nokkuð búin að finna einn mann sem keppti á  móti Armstrong í þessi 7 skipti serm var ekki á lyfjum, þar að leiðandi er hann enþá sigurvegari þessara keppna  lyfjakokteila-mógula. Maður bara spyr hvenær Actavis sendir keppenda fyrir hönd Íslands.

Þórarinn Helgi Sæmundsson, 23.10.2012 kl. 23:36

7 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sammála hverju einasta orði hjá þér, Ómar.

Þótt sýnin séu öll fyrir hendi og varðveitt í áratug eða svo, þá hefur þurft leyfi viðkomandi íþróttamanns til að draga þau fram og rannsaka á ný. Því hefur Armstrong alltaf lagst gegn.

Í einu tilfelli hefur þó verið tekið úr sýni, frá 1999,  til að prófa nýjar tækniframfarir til lyfjaprófa. Ekki var leitað samþykkis Armstrong og því ekki um formlegt próf að ræða sem nota mætti gegn honum. Þar komu fram vísbendingar um lyfjanotkun.

Ágúst Ásgeirsson, 24.10.2012 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband