1.11.2012 | 19:09
Hin sígilda þöggun.
Flest helstu stórslys og ófarir sögunnar eiga það sameiginlegt að á undan þeim ríkti þöggun til að leyna raunverulegu ástandi, sem leiddi til stórfelldra vandræða eða harmleikja . Til dæmis var vitað að björgunarbátar um borð í Titanic voru alltof fáir, en ekkert var gert.
Fullyrt var að skipið væri það fyrsta í sögu skipasmíða sem ekki gæti sokkið, en stálið í skipinu var mun stökkara og lélegra en venja var og það átti þátt í því hve illa það laskaðist þegar það rakst á ísjakann.
Árekstrinum og áhrifum hans var leynt og afleiðingin varð sú að mörg hundruð manns drukknuðu sem annars hefðu komist í þá björgunarbáta sem þó voru um borð.
Um þá sérfræðinga, sem vöruðu við hættunni á því að íslenska bankakerfið gæti hrunið, var sagt að þeir væru öfundsjúkir, sérvitringar og kverúlantar og um einn hinna virtari útlendinga var sagt að hann þyrfti að fara í endurhæfingu.
Nú er vitað að strax 2006 munaði mjög mjóu að bankakerfið hryndi, en það, hve ævintýralega tókst að afstýra því á síðustu stundu, gerði menn enn áhættusæknari.
Áður en borað var fyrir næstum 70 kílómetra löngum jarðgöngum Kárahnjúkavirkjunar voru boraðar tilraunaholur á allri gangaleiðinni að undanskildu því að alveg var sleppt að bora á um 6 kílómetra miðjukafla lengstu ganganna.
Þegar borun stóð enn yfir sá ég úr lofti að vetrarlagi að þetta var svæði með misgengi og mörgum gjám neðanjarðar, tók af því myndir, sýndi í Sjónvarpinu og átti viðtal við talsmenn verksins.
Þeir viðurkenndu að þetta væri rétt en talsmaður virkjunarinnar sagði, að talið hefði verið óþarfi að kanna þennan kafla, "vegna þess að við ætluðum þarna í gegn hvort eð var" eins og hann orðaði það.
Sem sagt: Það skipti ekki máli þótt gríðarleg áhætta væri tekinu um það að virkjunin misheppnaðist, af því að þjóðin borgaði brúsann og tók á sig tjónið, ef illa gekk.
Það tók lungann úr ári að komast þarna í gegn við illan leik, en af því að þetta reddaðist, eins og þegar bankakerfið var næstum hrunið ári seinna, ypptu menn öxlum og þetta þótti ekki neitt athugavert.
Og innan úr bankanum, sem lánaði til verksins, fékkst það svar, að bankinn hefði engar áhyggjur, af því að, eins og það var orðað:"því verr sem verkefnið gengur, því meira græðir bankinn."
Það blasti við öllum, sem vildu sjá, á sínum tíma, hvernig "snjóhengjan" eins og aflandskronurnar sem fjárglæframenn söfnuðu, óx og óx, - ekki út í loftið, heldur sem bein afleiðing af kolrangri vaxtastefnu og efnahagsstefnu tilbúinnar hækkunar gengis krónunnar, þenslu, lánasukks, neysluæðis og framkvæmda- og stóriðjufyllerís.
Nú horfum við á þessa sístækkandi "snjóhengju" líkt og skipstjórinn á Titanic horfði á ísjakann sem birtist í þokunni framundan skipinu og enginn veit hvenær eða hvernig þessu ástandi linnir.
P. S. Bendi á athugasemd mína hér að neðan varðandi þöggunina, sem ríkti varðandi snjóflóðahættuna á Íslandi áður en snjóflóðið á Flateyri féll. Hún segir mikið.
Sagði að fjölga þyrfti björgunarbátum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta með Titanic er ekki rétt hjá þér og það kom skýrt fram í þætti sem sýndur var á History channel á síðasta sunnudagskvöld.
Þar kom skýrt fram, að ekkert skip hefði þolað það högg sem kom á Titanic þegar það skrapaði ísjakann.
Þeir sem rannsökuðu slysið komust yfir sama járn, sömu hnoð og endurgerðu þann hluta síðunnar við kyndiklefa númer sex sem gaf sig og könnuðu þolið í samskeytum, hnoðum og stáli.
Í lok þáttarinns var talað um björgunnarbátana, en engar reglur voru á þeim tíma um fjölda björgunnarbáta, og einnig sagt frá því, að stólað væri á nærstödd skip til að koma til hjálpar og þá væru bátarnir ætlaðir til að ferja fólk milli skipa. Því var talað um um að bátarnir hefðu frekar bjargað 750 manns í stað þess að allir hefðu farist hefðu bátarnir ekki verið um borð.
En þetta var útúrdúr.
Jack Daniel's, 1.11.2012 kl. 19:29
"Samkvæmt OECD er beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna bankahrunsins 2008 sá mesti sem nokkurt ríki tók á sig í bankahruninu, að írska ríkinu undanskildu.
Stofnunin segir að þyngsta höggið hafi átt sér stað nokkuð fyrir hrun þegar Seðlabanki Íslands lánaði gömlu bönkunum gegn veði af vafasömum gæðum, ástarbréfin svokölluðu, sem aðallega voru kröfur á aðra íslenska banka."
Ástarbréf Seðlabanka Íslands voru þyngsta höggið í hruninu
Þorsteinn Briem, 1.11.2012 kl. 20:15
"Jöklabréf eða krónubréf (e. Glacier bonds) eru skuldabréf sem gefin voru út í íslenskum krónum af erlendum aðilum frá ágúst 2005.
Áætlað er að erlendir fjárfestar eigi krónubréf að andvirði 300-400 milljarðar króna, sem er um fjórðungur af landsframleiðslu Íslands.
Forsendur viðskipta sem þessara er mikill munur á vöxtum í hagkerfum viðkomandi landa, hátt sögulegt gengi þess gjaldmiðils sem bréfin eru gefin út í og mikil eftirspurn í því landi eftir lánsfé.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru komnir í 13,3% í júní 2007, 15,5% í maí 2008 og 18% í október 2008."
Jöklabréf
Þorsteinn Briem, 1.11.2012 kl. 20:20
Hjartanlega sammála, þá get ég ekki á mér setið að rifja upp þessa vísu eftir Steingrím Thorsteinsson
Faðir til Sonar
Það son minn í einlægni segi ég þér
er sjálfur af reynslunni ég þekki
Að frekjan í heiminum hlutskörpust er
en hæverskan dugar alls ekki.
Og því áttu að forðast þá bannsettu blyggð
ef bolastu að trogi fæst keppur
Og enn mundu þetta að úrelt er dyggð
nema aðeins sem hugsjóna leppur.
Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.11.2012 kl. 00:18
Þetta breytir ekki því að látið var í veðri vaka áður en farið var í þessa ferð, að Titanic væri þannig smíðað að það gæti ekki sokkið.
Ómar Ragnarsson, 2.11.2012 kl. 01:15
Heill þér Ómar, þú ómetanlega andans ígulker.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.11.2012 kl. 02:57
Slildum við lifa þann dag að spyrja megi: Hvernig gat það gerst að 14 manna létust á heimilum sínum í Súðavík í janúar 1995?
Sú spurning vaknar strax í kjölfarið: Hvernig gátu 20 manns farist af nákvæmlega sömu ástæðu á Flateyri níu mánuðum síðar?
Hæsta spurning árið 2300: Hvernig gátu íslendingar gert ráðherrann sem fór með máefnið að forsetisráðherra 12 árum seinna?
Persónulega spyr ég sjálfan mig: Er það ekki rétt að ég sé geðveikur að hafa spurt svona einn manna í 16 ár en það eru þau einu viðbrögð sem ég hef fengið.
Enginn mun spyrja: Af hverju spurðu og spyrja fréttamenn ekki því að allir vita að allir féttamenn eru á öllum tímum verkfæri stjórnvalda þegar þeim liggur á.
Það er svo áhugaverð spurning fyrir einræðisstjórnir og félagssálfræðinga: Hvernig tókst að sameina heila þjóð og halda henni sameinaðri gegn því fólki sem missti ástvini sína?
Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.11.2012 kl. 10:54
Það varð allt vitlaust fyrir vestan þegar ég stillti mér upp á Urðarvegi á Ísafirði eftir snjóflóðið í Seljalandsdal og upplýsti, að vinstri fóturinn á mér væri á hættusvæði en hægri fóturinn ekki.
Þetta gerði ég eftir að hafa frétt af því að sérfræðingur frá Davos í Sviss hefði sagt eftir að hafa skoðað Seljalandsdal að byggðir á Vestfjörðum væru í snjóflóðahættu, en var bannað að tala um neitt nema þetta afmarkaða verkefni hans, sem hann hefði verið fenginn til að athuga.
Norskur sérfræðingur hafði sagt að þar sem snjóaði og landi hallaði, gæti snjór farið af stað.
Á leiðinni suður með fréttina hringdu helstu ráðamenn vestra í fréttastjórann til að fá hann til að afstýra þessum fréttaflutningi mínum. Hann hafnaði því.
Eftir að fréttin birtist fékk ég mörg símtöl fólks, sem var mjög æst og sárt og óskaði mér til hamingju með að vera búinn að eyðileggja lífsstarf hundraða fólks.
Bæjarstjórinn gagnrýndi mig harðlega og sagði að ég ætti að biðjast afsökunar.
Þegar ég hitti hann eftir snjóflóðið á Flateyri sagðist ég biðja hann afsökunar, ekki vegna þess að hafa flutt frétt af þessu tagi, heldur vegna þess að hafa ekki frekar valið Ólafstún á Flateyri til að segja frá því hvar mörk hættusvæðisins þar lægju.
Árið eftir fór ég sérstaka ferð til snjóflóðavarnarstöðvarinnar í Davos til að ræða við sérfræðinginn, sem þaggað hafði verið niður í tveimur árum áður, og gat greint frá því til hvaða ráða væri gripið í Sviss.
Þau voru miklu fjölbreyttari en gerð þeirra snjóflóðavarnargarða, sem hefur verið einráð hér á landi, en um þessi fjölbreytilegu ráð hefur líka ríkt þögn allar götur síðan ég flutti fréttirnar frá Sviss.
Ómar Ragnarsson, 2.11.2012 kl. 16:03
Hvorki snjóflóðið á Flateyri eða í Súðavðik voru fréttir. Móðir mín flutti til Flateyrar 1930, henni var harðbannað að leika sér fyrir ofan kirkjuna fyrir neðan Ólafstún, takið eftir neðan Ólafstún.
Systir hennar byggði sé hús sem slapp við flóðið 1995, faðir hennar og afi minn, Jóhannes Andrésson, fullyrti að húsið stæði á hættusvæði og skammaðist yfir að þetta skyldi leyft.
Faðir minn Kristján Guðmundsson sagði að snjófróðavarnir sem hrúgað var upp væru lítils virði fyrir fyrsta flóð og rennibraut fyrir næsta flóð sem kemur oftast í strax kjölfarið og sagði mér að þarna hefði oft fallið flóð. Þetta vóru þær upplýsingar sem ég hafði 18 ára gamall um snjóflóðahættu á Flateyri. Hvað vissu aðrir sem báru ábyrgð í sveitafélagi og ráðuneyti? Þeir vissu eða áttu að vita að tugir skráðra flóða höfðu fallir ekki bara yfir Ólafstún heldur yfir eyrina og í sjó fram.
Hvernig í ósköpunum gat það gerst. Endurtek: Hvernig í ósköpunun gat það gerst að eftir að fjórtán manns höfðu farist í næsta þorpi undir snjóflóði að tuttugu manns færust á Flateyri þar sem ALLIR vissu að var öruggt snjóflóðasvæði.
Ómar Ragnarsson veit svörin við þessu öllu og um þetta allt, Ómar Ragnarsson reyndi að upplýsa. Ég beinlínis fullyrði að þrátt fyrir tilraunir sínar er Ómar Ragnarsson með stein í hjarta og finnist að hann hefði átt að gera betur.
Ég færi Ómari Ragnarssyni bestu þakkir fyrir að kalla mig ekki geðveikt svín en þetta er í fyrsta skipti a sextán árum sem ég hef fengið önnur viðbrögð vegna þessa máls þar á meðal frá núverandi forsetisráðherra sem var byggingamálaráðherra í sjö ár fyrir flóðin.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.11.2012 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.