10.11.2012 | 16:03
Mynd af Ljósufjöllum og ´Bláa lóninu?
Sérkennilega myndbirtingar og langsóttar tengingar má stundum sjá í fréttum tengdar náttúrunni.
Þegar birt var frétt um frábæra bók Reynis Ingibjartssonar um gönguleiðir á Reykjanesskaganum hefði maður búist við einhverri mynd af svæðunum, sem þessar gönguleiðir liggja um og umhverfi, sem göngufólkið sækist eftir, en það er ósnortin og mögnuð náttúra eins og myndir Ellerts Grétarssonar bera fagurt vitni um.
Í staðinn var birt mynd af Bláa lóninu með þeim texta undir að það væri fallegt þar!
Nú er sagt frá fyrirhuguðum jarðvangi á Reykjanesskaganum og er þá birt mynd af Ljósufjöllum, sem eru í næstum 200 kílómetra akstursfjarlægð frá fyrirhuguðum jarðvangi og raunar í öðrum landshluta og í texta undir Ljósufjallamyndinni er þeirri eldstöð og umfangi hennar til vesturs í Berserkjahraun og austurs til Norðurárdals lýst, en Berserkjahraun er enn lengra frá Reykjanesi en Ljósufjöll.
Maður klórar sér í kollinum yfir þessu og hristir hann um leið.
Jarðvangur Reykjaness stofnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, þú ert ábyggilega að tala um gönguleiðabókina hans Reynis Ingibjartssonar. Ég hef ekki gefið út neina slíka ennþá en á vonandi eftir að gefa út ljósmyndabók um Reykjanesskagann. Nóg er til af myndum :)
Stundum eru blaðamenn ekkert alltof vel að sér í landafræðinni. Fyrir nokkrum árum, þegar ég var starfsmaður á Víkurfréttum, sem gefið er út á Suðurnesjum, hringdi í mig blaðamaður á ónefndu dagblaði og spurði hvort ég ætti ljósmynd af yfirlækninum á Sogni.
Ég svaraði því neitandi og spurði á móti af hverju ég ætti að eiga mynd af honum.
„Af því að þetta er á þínu svæði," svaraði blaðamaðurinn :)
Ellert Grétarsson (IP-tala skráð) 10.11.2012 kl. 19:54
Já, auðvitað er ég að tala um bók Reynis og þakka þér fyrir þetta og laga þetta hér með í aðaltextanum.
Ómar Ragnarsson, 11.11.2012 kl. 02:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.