13.11.2012 | 21:19
Ráðamenn þjóða heims ráða ekki neitt við neitt.
Á 20 ára afmæli Ríóráðstefnunnar kemur æ berlegra í ljós að ráðamenn þjóða heims standa ráðþrota gagnvart þeirri sóun á þverrandi auðlindum jarðar og útblástri gróðurhúsalofttegunda, sem bjartsýnir fulltrúar þjóðanna í Ríó 1992 vonuðu að tekið yrði á í kjölfar undirritunar sáttmálans, þar sem sjálfbær þróun var sett sem stefnumið fram í nýja öld.
Kyotobókunin varð að litlu gagni vegna þess að Bandaríkin, Rússland, Kína og Indland vildu ekki vera með og þar með var augljóst að engu yrði snúið við úr því að mikilvirkustu bruðlarar og umhverfissóðar heims vildu ekkert gera.
Ráðstefnan í Kaupmannahöfn fór í hundana með slíkum ósköpum, að Ríó 20 fór hljóðlega, enda kom þar í ljós að ráðamenn Bandaríkjanna vildu ekkert gera í flestum málum og þar með heldur ekki ráðamenn annarra helstu bruðlara og sóða heims.
Þótt þessir ráðamenn hafi stundum uppi fögurð orð á hátíðarstundum er ljóst, að þeim er gersamlega um megn að standa fyrir neinum umtalsverðum aðgerðum, því miður.
Það kemur fyrir lítið að eitthvað örlítið hafi dregið úr losuninni í Bandaríkjunum, Rússlandi og Þýskalandi, vegna þess að Kína, Indland og önnur ríki í þriðja heiminum benda á, að þau mengi minna á hvern íbúa en Bandaríkjamenn, Rússar og fleiri gamalgrónar iðnaðarþjóðir.
Litlu virðist skipta hvaða stjórnaform er. Þannig mætti ætla að alræðisstjórnin í Peking gæti gripið til róttækra aðgerða án þess að hafa áhyggjur af viðbrögðum almennings, en hitt vegur þyngra, að kínverska hagkerfið er í vítahring hinnar sjúklegu kröfu um gríðarlegan árlegan hagvöxt, sem verður að uppfylla, því að annars þykjast menn sjá það fyrir að efnahagskerfið hrynji rétt eins og fíkniefnafíkill sem fær ekki dópið sitt.
Metlosun koltvísýrings 2011 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.