22.11.2012 | 20:48
Hlupum yfir járnbrautastigið.
Ég var að lesa fróðlegan lítinn bækling um sögu Kolviðarhóls og hef ekki áður áttað mig á því til fulls að hér á landi ríkti svonefnt hestvagnastig í samgöngum í 30 ár, frá því upp úr 1880 til 1913, en þá fyrst hófst í raun bílaöldin hér.
Vegir og brýr sem voru gerð á þessum þremur áratugum, svo sem brýrnar yfir Ölfusá, Þjórsá og Fnjóská, spruttu af þörfinni fyrir notkun hestvagnanna því að engar járnbrautarlestir voru í landinu.
Þegar Ford T og fleiri bílar komu 1913 varð hér bílabylting sem gerði það að verkum að við hlupum yfir járnbrautarstigið og fórum í staðinn að nota rútur og strætisvagna um og eftir 1930.
Við uppgötvuðum því aldrei ákveðin þægindi lestanna, sem greyptust inn í hegðunarmynstur annarra þjóða. Vegirnir voru lengst af holóttir og frumstæðir og því erfitt að njóta svipaðra þæginda og lestir bjóða upp á, þar sem hægt er að vinna að ýmsum verkefnum í stað þess að eyða orkunni og tímanum í aksturinn.
Þegar síðan loks komu betri vegir voru flestir komnir á einkabíla og sú öld stendur reyndar enn.
Með hækkandi orkuverði er óhjákvæmilegt að þetta breytist á tvennan hátt: Einkabílar verða minni og þurfa miklu minni og skaplegri orku en nú, og almenningssamgöngur mun vaxa. Þetta er að hefjast og getur ekkert annað en færst í aukana. Er það vel og þarf að gera betur.
Í Evrópu getur fólk ferðast á allt að 300 kílómetra hraða í þægilegum lestum, sem veita flugvélum harða samkeppni um þægindi vegna þess að hægt er að fara beint frá einni borgarmiðju til annarrar í stað hins hvimleiða vafsturs á flugvöllunum.
Um áratuga skeið kom það varla fyrir að maður steig upp í strætó en nú gerist það æ oftar. Þótt ferðin taki lengri tíma í sjálfu sér er hægt að einbeita sér að einhverju þarflegu á leiðinni og losna við að vera bundinn við stýrið.
Stefnir í 10 milljón farþega hjá Strætó í ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var ekki bara T-fordinn sem leiddi okkur inn í bílaöldina, Ómar. Overland kom sama ár og stóð sig síst lakar. Brýrnar yfir Ölfusá og Þjórsá voru ekki til komnar vegna hestvagnaumferðar heldur fyrst og fremst fyrir ríðandi og gangandi umferð; Tryggvi Gunnarsson hafði reyndar þá framsýni að vilja miða brúna yfir Ölfusá við að hugsanlega yrði vaxandi vagnaumferð yfir hana. Bíla sá þá enginn fram á, en samt dugði hún fyrir bílaumferð fram til 1944. -- Nánar um þetta í 12. hefti Heima er bezt -- sem raunar er ekki komið út enn -- ef þú hefur áhuga!
Sigurður Hreiðar, 22.11.2012 kl. 22:08
Sakna þess að lesa ekki meir um Elvörpin á bloggi þínu. Leit á greinina í Fréttablaðinu í dag, en netið er aðgengilegra fyrir mig og fleiri. Fyrri færslur hér um þau voru góðar og myndir einnig. Nú er snjór á þeim og ný birtingarmynd eins og alla daga. Hef trú á því að síðar verði reglubundnar skoðunarferðir að Eldvörpum við Svartsengi. Gígarnir eru einstakir og gott að sjá þetta náttúruundur ef vegurinn væri betri.
Mikill upplifun að sjá heita gufuna liðast um gígbarmana. Þarna er einnig litadýrð við hverina og í mosanum. Miklar andstæður í snjónum. Þegar sólin er lágt á lofti eru meiri litir í landslagi og á himni. Það verður auðvelt að gleyma Eldvörpum sem tilkomumikilli náttúrusmíð ef þarna verður virkjað. Hlaupa yfir eitt þróunarstigið í þeirri nálgun að uppgötva óspilta náttúru. Leyfum Eldvörpum að njóta vafans. Römmum þau inn og njótum óspiltum.
Sigurður Antonsson, 22.11.2012 kl. 22:41
Eldvörp voru sett í nýtingarflokk á þeim forsendum að ekki þyrfti að spilla gígaröðinni. Að tala um óspillta náttúru þarna er ekki rétt. Töluvert rask hefur orðið þarna vegna umferðar í aldanna rás.
Af því alltaf er talað um að hægt sé að "græða" svo mikið á svæðinu með ferðamönnum, þá myndi virkjun ekki breyta því, nema þá helst til aukningar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2012 kl. 10:39
Járnbraut var byggð vegna hafnargerðarinnar í Reykjavík fyrir tæpum 100 árum. Sú járnbraut var notuð lengur að einhverju leyti fram á 3ja áratuginn t.d. að flytja þungavöru eins og timbur í Völund og kol fyrir Kol og salt. Um þetta má fræðast m.a. í ritgerð sem kom út í tímaritinu Sögu um 1970.
Þess má geta að fyrsti skipulagsuppdrátturinn sem gerður var 1927 sýnir járnbrautarstöð við austanverða Hringbraut sem seinna varð að Snorrabraut. Byggingin þar sem lengi vel ar aðalbrennivínsbúð landsmanna var gott ef ekki byggð sem járnbrautarstöð! Af byggingu járnbrautarinnar varð ekki, fljótlega brast á kreppa og síðan kom stríðið með tilheyrandi brambolti og framkvæmdum. Þá varð enginn tími að leggja járnbraut enda nóg af bílum.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 23.11.2012 kl. 18:16
Ritgerðin Járnbrautin í Reykjavik 1913—1928 eftir Þorleif Þorleifsson birtist 1973 í Sögu, tímariti Sögufélagsins.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 23.11.2012 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.