Versnar oft með árunum.

Áfengissýki virðist oftar vera meira feimnismál þegar um eldri borgara er að ræða en hina yngri. Það þykir vera verra og leiðinlegra ef afi og amma eru í vandræðum og verða sér til skammar heldur en pabbi og manna eða ungt og lífsglatt fólk.

En ef fólk er veikt fyrir víni versnar það oftar með aldrinum en hitt. Talið er að meira en tíundi hluti landsmanna, líklega nálæg 12-13% ráði ekki við áfengisneysluna. Og enda þótt mörgum takist að hverfa úr hópi hinna "blautu" með því að fara í meðferð, er fjöldinn, sem ekki ræður við vínið, það mikill að það er vafalaust rétt hjá Sigurði Sigurðssyni að algengarar sé en almennt sé haldið að gamla fólkið sé til vandræða, til dæmis á ferðalögum.

Sigurður var fararstjóri á Kanaríeyjum og ætti að vita hvað hann er að segja. Þegar ég kom til Kanaríeyja 1975 var fátt um gamalt fók þar og ferðamannabyggðin aðeins brot af því sem hún er nú.

Nú er öldin önnur. Á Kanaríeyjum er nokkurs konar íslensk gamalmennanýlenda, enda er loftslagið afar þægilegt og jafnt allt árið um kring og hentar afar vel fyrir eftirlaunaþega.

Við hjónin höfum komið tvívegis til Kanaríeyja á síðustu árin og ferðirnar voru mjög ólíkar fyrir okkur. 

Í fyrra skiptið tókst nokkrum ölvuðum Íslendingum að eyðileggja ánægju okkar nokkrum sinnum með því að láta okkur ekki í friði með röfli og leiðindum og var gengið afar langt eitt kvöldið þar sem við vorum hrakin með aðsúgi og hrópum út af krá, sem Íslendingar stunduðu, þótt við gerðum ekkert annað en að setjast þar hljóðlega við borð til að eiga rólega stund og vera í friði.

Þjónarnir á kránni áræddu ekki að gera neitt, því að þessir leiðindaseggir voru fastir gestir þar og virtust gefa vel af sér.

Á leiðinni heim settist ölvaður maður upp á mig alla leiðina og lét mig ekki í friði með því að röfla yfir mér og reyna að efna rifrildis við mig eins og hann gat, þótt þetta ylli ónæði hjá öðrum farþegum, sem vildu geta hvílst í þessari löngu ferð.

Síðari dvölin á Kanarí var gerólík þeirri fyrri og afar ánægjuleg frá upphafi til enda og sýndi að það getur verið tilviljunum háð hvað gerist í ferðalögum þar sem mikið er af Íslendingum.

En ekki dylst að í fjölmennum hópi gamalla Íslendinga þarna eru sumir, sem eru fúlir og leiðir, ekki sáttir við lífið og tilveruna og eiga það til, eins og hefur oft verið lenska hjá landanum, að vera með truflandi hávaða og sýna öðrum ótrúlegt tillitsleysi á ferðalögum.


mbl.is „Drukku frá sér ráð og rænu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Sú var tíðin að Íslendingar skáru sig almennt út á sólarströndum vegna drykkjuskapar. Nú virðast bretar hafa tekið við kyndlinum. Hvort Íslendingarnir hafi lagast eða Bretarnir versnað er ég ekki alveg viss um, held þó að það sé hvort tveggja. Allavega er minna um að Íslendingarnir rúlli beinlinis út úr flugvélunum eins og þeir gerðu fyrstu ár sólarlandaferðanna.

Þóra Guðmundsdóttir, 23.11.2012 kl. 13:10

2 Smámynd: Már Elíson

Ég, sem fyrrum fararstjóri sé margt á ferðum mínum og við störf sem hljómlistarmaður um helgar en segi ekki orð. - Mér finnst eins og það beri meira á fullorðna fólkinu vegna kyrrstöðu/þaulsæti þess, en unga fólkið er meira á ferðinni og í felum og veldur sannarlega meiri óskunda. - Drykkja íslendinga t.d. um borð í flugvélum, hefur stórminnkað og heyrir til undantekninga ef einhver leiðinapési, karl-eða kvenkyns er með uppsteit. - Þetta er orðum aukið hjá Sigurði og fararstjórar eða við hljómlistarmenn og skemmtikraftar eigum ekki að bera neitt svonalagað á torg. Þetta er hreinn og klár trúnaðarbrestur. - Fólk á sitt einkalíf þó að einstaka atvik eins og Ómar nefnir, skyggi á og eigi sér ávallt stað.

Már Elíson, 23.11.2012 kl. 13:55

3 identicon

Mikið er ég sammála Má Elísyni. Ómar segir að í síðara skipti, sem hann hafi heimsótt Kanaríeyjar hafi þetta verið allt annað. Ég þekki mjög vel til á Gran Canaria og veit að öðru hvoru koma upp tilvik, eins og hjá öðrum þjóðum, þar sem drukkið fólk veldur óskunda. Aftur á móti er svo augljóst að ástandið hefur batnað mjög, sem sést best á því, að hér áður fyrr var ekki friður fyrir drukknu fólki á leið út og leið heim sömuleiðis í vélinni. Nú sést varla vín á nokkrum manni. Að tala um Kanaríeyjar sem gamalmennanýlendu, finnst mér algjör móðgun við alla, sem þangað sækja vegna blíðveðurs, fegurðar og afþreyingar. Ég er svolítið yngri en Ómar og er nú stödd á "Gamalmennanýlendunni". Hér borða reglulega saman íslenskar konur og sumar koma með börn sín í kerru eða vagni eða jafnvel í maga. Gamalmennanýlenda? Skamm, Ómar!!!!

Eva Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2012 kl. 16:33

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar kallinn orðinn skar,
aldrei drakk á Klörubar,
Framsókn oftast full þar var,
og fjandinn laus á næturnar.

Þorsteinn Briem, 23.11.2012 kl. 19:19

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst ekkert skammarlegt að vera gamalmenni, mér finnst það æðislegt! Og nú er ég kominn á þennan aldur, sem sumum finnst eitthvert feimnismál og "skammarlegt" að tala um eins og aðra aldursflokka. Þegar ég var að byrja í bransanum hneyksluðust menn svo á því að ég söng grínsönginn "Elliheimilið" að textinn, sem ég söng við annað lag inn á plötu, var bannað í útvarpinu.

Það mátti ekki gera grín að gamla fólkinu. En nú, 50 árum síðar, syng ég þennan söng hiklaust á ný og í upprunalegu útgáfunni. Nú er ég nefnilega sjálfur orðinn "gamla fólkið" og er ekkert feiminn við það að fara með stöku, sem ég gerði ungur og átti að innihalda mína eigin dánarauglýsingu:

Ómar gamli gaf upp önd

í gær, sem vottorð sanna, -

og andaðist fyrir okkar hönd

og annarra vandamanna.

Ómar Ragnarsson, 23.11.2012 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband