24.11.2012 | 17:31
Eins og koma til annars lands.
Það er eins og að koma til annars lands að koma til Norðurlands frá Reykjavík eins og við hjónin gerðum í gær, þvílíkur er snjórinn, til dæmis hér á Akureyri.
Ég hef svosem oft komið norður um dagana en þessi snjór er með því mesta, sem ég hef séð. Og það var greinilega ekki amalegt að vera á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli í dag.
En þetta er nú landið okkar, land andstæðnanna að öllu leyti, landslagi, landsháttum og veðurfari.
Í fyrra var þessu öfugt farið hluta af vetrinum þegar "norðlenskar" hríðir, snjóalög og ófærð voru á Suðvesturlandi á sama tíma sem snjólétt var eða jafnvel auð jörð var á köflum hinum megin á landinu.
Af árstíðunum fjórum bjóða haustið og byrjun vetrar oftast upp á langflesta möguleikana til að njóta fegurðar og tignar landsins og himingeimsins. Í ágúst byrjar sólin að verða í hæfilegri hæð frá jörðu til þess að landslagið spretti fram, þökk sé skuggunum, sem teikna línur, sem ekki sjást þegar sólin er hæst á lofti.
Við urðum að stoppa nokkrum sinnum í Borgarfirðinum á leiðinni norður til þess að taka myndir, þar sem lág sólin, haustlitir og samspil snævar og auðrar jarðar gáfu myndefni, sem ekki sést á öðrum árstíðum.
Óttuðust að þakið mynd hrynja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Land andstæðna. Litadýrð á hálendi að sumri má þakka mikið til gróðri, blómum og mosa sem stinga í stúf við ís, hraun og sand. Þegar sólríkt er að morgni eða seinni hluta dags koma djúpir skuggar og blár himinn kórónar. Vegna þess að landið liggur við heimskautabaug verða alltaf meiri andstæður, sól er ekki lengi hátt á lofti.
Litatöfrar Íslands liggja meira og minna í hinu margbrotna litamynstri. Andstæðum og tærleika sem veldur því að oft sjáum við landslag í mikilli fjarlægð. Hefðu impressjónistarnir haft tækifæri á að koma hingað hefðu þeir gert garðinn frægan strax á nítjándu öld.
Kjarval málaði úti þegar veður gafst, en ekki er að sjá að hann hafi dýrkað sól. Myndir hans bera vott um að hann hafi haft mestar mætur á litum við sólarlag. Í nóvember er dýrlegast að vera úti allt frá hádegi og þar til sólin hverfur á bak við fjöll um fjögurleytið. Hefði Kjarval haft flugvél og getað lent á hálendinu er ég vissum að hann hafi gert auðninni betur skil. Komið hálendinu á kortið.
Sigurður Antonsson, 25.11.2012 kl. 00:03
Gott Ómar þú er víðsýnn en það eru því miður margir samlandar okkar ekki sjá bara stórreykjavíkursvæðið og ekkert annað.
Sigurður Haraldsson, 25.11.2012 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.