27.11.2012 | 13:57
Minni klaki í jörð í staðinn?
Mikil snjóalög geta að vísu verið slæm fyrir bændur vegna þess að þá eru jarðbönn og fénaður nær ekki til jarðar til vetrarbeitar.
Á hinn bóginn er það jákvætt að ef það snjóar snemma mikið, svo að sá snjór fer ekki fyrr en næsta vor. Þá verður lítill klaki í jörðu af því að fyrsti snjórinn myndar ákveðna einangrandi hlíf sem heldur frosti frá jörðinni undir.
Verst er ef mikil frost eru langa hríð áður en fyrsti snjórinn kemur og síðan getur ástandð versnað ef yfirborð jarðar nær að hlána og blotna og harðfrýs síðan.
Ef mikil hláka kemur snemma vors og jörð er auð er hætta á spjöllum, ef ekið er utan vega á auðri jörð eins og sést á myndinni efst á síðunni. Þetta gerðist í fyrravor á leiðinni inn í Herðubreiðarlindir, þegar einhverjir virtu að vettugi bann við akstri á þessari akstursleið, fóru út fyrir tjarnir sem mynduðust á slóðinni og skildu eftir ljót för sem blöstu við leiðangursmönnum, sem fóru upp í Öskju til mælinga eftir að jörð var orðin frosin á ný.
Eftir tíu ára "flugvallarbúskap" á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum hefur þetta skýrst enn betur fyrir mér en áður, en þó bjó ég af hálfrar aldar reynslu víða um land í þessu efni. Þegar frost urðu mikil á auða jörð einn veturinn, tók það tvær vikur fyrir klakann að fara úr jörð og var þó hlýindakafli.
Völlurinn er á úrkomuminnsta svæði landsins og því oft sem þar eru frosthörkur á auða jörð.
En í fyrravor varð völlurinn fær og opinn mörgum vikum áður en fært varð að honum á landi af því að það hafði snjóað snemma haustið áður og snjórinn hélt jörðinni þíðri undir hvítu teppinu.
Ég er nokkuð vongóður með að lítill klaki verði í jörð næsta vorá norðanverðu landinu ef snjórinn verður í allan vetur eins og stefnir í. Að minnsta kosti er ekki að sjá á hinum gríðarlegu snjóruðningum og haugum í kaupstöðunum nyrðra að þeir víki fyrr en næsta vor.
En það er slæmt fyrir bændur á Norðurlandi að fá ofan í illviðrin í haust samfelld jarðbönn fram á næsta vor.
Í minni sveit var sagt að kýrin þyrfti 40 hestburði af heyi yfir veturinn en ærin aðeins tvo. Þar réði ekki aðeins minni næringarþörf heldur einnig sá möguleiki að geta beitt fénu úti og var þá ekki ónýtt að eiga möguleika á fjörubeit.
Snjórinn verður sennilega til vors | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Ég efa ekki að þú kannist við dr. Bjarna E. Guðleifsson á Möðruvöllum, prófessor við LBHÍ. Bjarni er sérfræðingur í áhrifum vetrarveðráttu á gróður á norðurslóðum og hefur rannsakað þá hluti meira en flestir (þori ekki að segja allir!). Ég efa ekki að Bjarni myndi taka því fagnandi ef þú hefðir samband við hann og fengir upplýsingar hjá honum, sem myndu væntanlega taka af allan vafa af eða á um ágiskanir þínar, reynslu og ályktanir út frá því.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 27.11.2012 kl. 15:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.