28.11.2012 | 13:45
Messerschmitt á Dalvík og Heinkel í Reykjavík.
Það er mikill fengur að því að hér á landi skuli vera bíll af gerðinni DeLorean DMC-12 og raunar eru fleiri sjaldgæfir bílar hér á landi, sem ekki eru í umferð og sárafáir vita um.
Þegar ég var á ferðinni á Akureyri um helgina sá ég nokkra bíla þar sem orðnir eru nokkuð sjaldgæfir, t.d tveir Toyota Tercel, sem eru að detta inn í fornbílaflokk og virtust í afar góðu ástandi.
Fyrir 20 árum frétti ég af því að á Dalvík stæði inni í bílskúr þriggja hjóla bíll af gerðinni Messerschmitt "Kabineroller" FMR Kr200. Tveggja manna örbíll, aðeins 220 kíló að þyngd.
Síðan hef ég nokkrum sinnum heyrt að hann sé þar ennþá, enda hef ég haft mikinn áhuga á að fylgjast með honum, ekki hvað síst fyrir þá sök, að í safni örbíla myndi slíkur bíll verða næstum því ómissandi.
Enn meira gaman væri að krækja sér í FMR Tg 500 sem var með meira en tvöfalt stærri vél og var fjögurra hjóla. Myndin hér að ofan er af slíkum bíl, en aðeins 400 voru framleiddir.
Ekki hafa í bílasögunni verið fjöldaframleiddir bílar sem komust jafn hratt á jafn litlu afli. Slíkt var óhugsandi án þess að bíllinn væri mjög straumlínulagaður og hönnuðir hinna gömlu flugvélaverksmiðja voru ekki í vandræðum með það verkefni, og settu farþegann, líkt og í orrustuflugvélunum, beint fyrir aftan bílstjórann til þess að "frontal area", flatarmál þess flatar, sem kljúfa þurfti loftið, væri sem minnst.
Vélin var aðeins einn strokkur, 191cc og afkastaði 9,7 hestöflum. En það nægði til að þeyta þessum bíl áfram á 100 kílómetra hraða.
Tg 500 var aðeins 350 kíló með 19,9 hestafla vél sem skilaði honum áfram á 130 kílómetra hraða sem var á þeim tíma miklu meiri hraði en nokkrir af hinum smærri bílum náðu, heldur þurfti meðalstóra bíla til.
Gegnsæjum "stjórnklefanum" á bílnum var lyft upp heilu lagi þegar sest var um borð og farið frá borði.
Að minnsta kosti tveir Messerschmitt þriggja hjólabílar voru fluttir inn til Íslands og átti bróðir Árna vinar míns Hannessonar einn slíkan. Þetta var mjósti bíllinn í umferðinni, aðeins 1,22 m.
Hann var lánaður til þess að leika í fyrsta áramótaskaupinu 1966 og kom ég akandi á honum inn í stúdíó til að hitta Helgu, konu mína, á fimm ára brúðkaupsafmælisdegi okkar.
Þetta varð til þess að skapa þann lífseiga misskilning að ég hefði átt þriggja hjóla bíl á sokkabandsárum mínum en svo var alls ekki, heldur var sá bíll fjögurra hjóla og fjögurra sæta bíll af gerðinni NSU Prinz 30, árgerð 1959. Ög öll hjólin útí í hornunum líkt og síðar varð á Mini.
Afturgluggar hans voru hins vegar afar sérkennilegir, í hálfboga fyrir endann á honum, myndlíkingin því talsverð og hjálpaði greinilega til við að búa til þennan "viðurkennda misskilning".
Í Madison í Georgíu í Bandaríkjunum er stærsta og flottasta örbílasafn heims og þar eru margir Messerschmitt bílar og að sjálfsögðu einnig NSU Prinz og ótal aðrir.
P. S. Þess má geta að í bílskúr einum í Reykjavík var fyrir nokkrum árum örbíll af gerðinni Heinkel, sem var álíka þungur og Messerschmittinn en þannig gerður, að tveir menn sátu í honum hlið við hlið. Fyrir bragðið skorti talsvert á að hann væri jafn hraðskreiður og FMR KR 200, hvað þá Tg 500 "Tiger" Messerschmittinn.
DeLorean bíll á Ísafirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar. Þú nefnir ekki BMW Isetta bílinn. Veit reyndar ekki hvort slíkur bíll var fluttur hingað til lands, en þeir voru mjög vinsælir á meginlandi Evrópu á sínum tíma.
Þessir bílar voru framleiddir að mig minnir frá "57 eða "58 og eitthvað fram á sjöunda áratuginn. Einkenni þeirra var kannski fyrst og fremst að gengið var inn í þá að framan. Þeir voru fjögurra hjóla, en ekki með sömu sporvídd að framan og aftan, þrengri að aftan og því frekar valtir, eins og Kabinerollerinn.
Það merkilega er að oftar en ekki voru það flugvélaverksmiðjur sem komu með svona framandi hugmyndir. Betra hefði verið ef sú þróun hefði haldið áfram.
Gunnar Heiðarsson, 28.11.2012 kl. 19:12
Ég get þulið upp fyrir þig tugi talna utanbókar um BMW Isettu bílinn, sem hafði það fram yfir Messerschmittinn að vera með mun minna mengandi fjórgengisvél. En hámarkshraði hans var aðeins 85 km/klst og langt frá hraða Tg500. Isettan væri að sjálfsögðu ekki síður hlutgeng á örbílasafn.
Ómar Ragnarsson, 28.11.2012 kl. 23:09
Ég veit að þú veist mun meira um Isetta bílinn en ég og því saknaði ég hans í pistli þínum.
En veistu hvort slíkur bíll kom hingað til lands?
Gunnar Heiðarsson, 28.11.2012 kl. 23:22
Sæll Ómar
Þar sem grein þín hófst á umfjöllun um sjaldséða bíla á Íslandi rifjaðist upp fyrir mér að fyrir 20-25 árum sá ég Maserati í geymslu hér í Reykjavík. Virtist í sæmilegu standi. Síðan hef ég vonast eftir að sjá bílinn uppgerðan á götu, því þeir eru augnayndi.
Þriggja hjóla Messerschmith var til og í notkun að Melgerði í Kópavogi, á uppvaxtarárum mínum þar.
Vonandi er hann til enn.
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 08:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.