"Deilu"skipulag rétt orð og gott nýyrði ?

Það væri gaman ef orðið deiluskipulag væri meðvitað ritað svona í rétt mbl.is um frestun á afgreiðslu á deiliskipulagi Landspítala við Hringbraut. Þá væri svolítill broddur í því. En líklegra er að um sé að kenna algengum misskilningi íslenskra blaðamanna.

Í raun hefur aldrei verið staðið að þessu máli á besta faglegan hátt. Ákveðið var fyrir svo löngu að fara þessa leið, að erfitt er að fá um það upplýsingar hver ákvað það upphaflega og á hvaða forsendum.

Ekki var leitað í reynslusjóð Norðmanna, sem hafa prófað tvær lausnir, annars vegar bútasaumslausn í spítalanum í Þrándheimi, sem þjónar álíka stóru svæði og mörgu fólki og Íslendingar eru, en hins vegar lausn eins og notuð var í Osló, þar sem spítalinn var hannaður allur frá grunni á auðri lóð.

Hér var haldinn fyrirlestur erlends sérfræðings um málið á þingi íslenskra lækna fyrir nokkrum árum og hver skyldí nú hafa verið fenginn til þess að tala um það?

Réttast hefði verið til þess að fá fram mismunandi sjónarmið, annars vegar rökstuðning bútasaumssinna, og hins vegar rökstuðning nýbygginarsinna, sem stóðu að byggingu Oslóarspítalans.

Það þarf ekki að líta nema sem snöggvast á allar byggingarnar sem eiga að mynda hinn nýja Landspítala og síðan á Oslóarspítalann til að sjá gríðarmikinn mun, hvað spítalinn í Osló tekur miklu minna pláss og er með styttri boðleiðum.  

Þegar ég fór í sérstaka ferð til Noregs 2005 til fréttaumfjöllunar um þessa tvo spítala var Þrándheimsspítalinn nefndur sem víti til varnaðar en Oslóarspítalinn sem dæmi um bestu mögulegu hönnun. Orðið "skrímsli" notuðu sumir um Þrándheimsspítalann.

En á læknaþinginu hér hélt erlendur sérfræðingur um bútasaumsaðferðina fyrirlestur en enginn frá hinum.

Liðu nú árin og í fyrra var fenginn sérfræðingur í Kastljós til að tala um málið. Og hver skyldi nú hafa verið fenginn til þess, væntanlega eftir ábendingu læknayfirvaldanna?

En ekki sérfræðingurinn sem hafði staðið að bútasaumsgerð Þrándheimsspítalans sem var "víti til varnaðar" og "skrímsli". Auðvitað.  

Niðurstaðan í fréttaferð minni til Noregs 2005 og viðtölum við lækna þar var sú, að best væri að hanna nútímaspítala frá grunni á auðri lóð. Ef það væri ekki hægt væri það kostur að hafa húsin, sem þyrfti að prjóna við og tengja saman sem allra fæst.

Samkvæmt þessu hefði það átt að vera mun hentugra á sínum tíma að reisa nýjan spítala á lóð Borgarspítalans, þar sem var aðeins eitt hús fyrir, en á lóð Landsspítalans þar sem þarf að prjóna saman mörg hús frá ýmsum tímum svo að úr verður risastórt "skrímsli".


mbl.is Deiluskipulagi nýs Landspítala frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Getum við ekki kallað þetta delluskipulag, ef deiluskipulagið verður samþykkt.  Það er rétt, það hefur ekki verið faglega staðið að því að finna heppilegan stað fyrir nýjan spítala.  Það eru fáir arkitektar eða skipulagsfræðingar sem eru hrifnir af staðsetningunni við Hringbraut, en eru það ekki fagmennirnir sem eiga að sjá um skipulagsmál?            Það læðist að manni sá grunur að ástæðan fyrir delluskipulaginu við Hringbraut sé að þrengja svo að flugvellinum í Vatnsmýrinni, að hann hrökklist þaðan.                        Mikið held ég að komandi kyslóð verði kát, að geta ráðstafað flugvallarsvæðinu eftir t.d. 50 ár, okkar kynslóð er búin með sinn kvóta í skipulagsslysum.

þór (IP-tala skráð) 29.11.2012 kl. 02:07

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nýjar byggingar Landspítalans við Hringbraut þrengja ekki að flugvellinum í Vatnsmýri, enda verða þær norðan Hringbrautarinnar.

Nýr Landspítali við Hringbraut


Hins vegar er löngu ákveðið að flugvöllurinn fer úr Vatnsmýrinni, samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur.

"Aðalskipulag hefur nánast stöðu lagasetningar og vegur mjög þungt.

Til að mynda er aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 undirritað af borgarstjóranum í Reykjavík, skipulagsstjóra ríkisins og umhverfisráðherra, ásamt vottum."

Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 18. apríl 2002
, afgreitt af Skipulagsstofnun til staðfestingar umhverfisráðherra 19. desember 2002 og staðfest af umhverfisráðherra 20. desember 2002.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024

Þorsteinn Briem, 29.11.2012 kl. 04:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband