2.12.2012 | 23:37
Sukhoi og Rússarnir geta verið ólíkindatól.
Rússneskir flugvélaframleiðendur geta verið ólíkindatól og því hugsanlega of snemmt að afskrifa nýju farþegaþotuna Sukhoi Superjet 100.
Þegar Kalda stríðinu var lokið og rykið frá heimsstyrjöldinni hafði löngu sest var loks viðurkennt í flugvélablöðum, að Rússarnir höfðu smíðað og framleitt liprustu örrustuflugvélar stríðsins af Yak og Lavockin gerðum.
Þýskir orrustuflugmenn fengu aðvörun þegar nýjasta Yak 3 gerðin fór að birtast: "Ef þið sjáið svona vél með bungu fyrir olíukælinn, skuluð þið forða ykkur."
Bandaríkjamenn fengu áfall þegar MiG 15 kom til skjalanna í Kóreustríðinu, því hún var svo miklu liprari í snúningum en Sabre þotur Kananna. Ef ekki hefði komið til yfirburða þjálfun bandarísku flugmannanna hefði getað farið illa.
MiG þotan var að vísu eins létt og raun bar vitni vegna þess að hún var höfð eins einföld og unnt var og lítið sem ekkert hugsað um öryggi flugmannsins, gagnstætt því sem var um Sabre.
Til dæmis var notað samþjappað loft á kútum til að hemla í lendingu og urðu flugmennirnir að sýna mikla útsjónarsemi í lendingum og hemla sem minnst og helst ekkert, annars varð hemlakerfið fljótt loftlaust.
Þegar Kalda stríðinu lauk varð það keppikefli margra Bandaríkjamanna að kaupa MiG 15 og fleiri rússneskar flugvélar og fljúga þeim til Bandaríkjanna. Ein rússnesk, Antonov An2, var á leiðinni frá Rússlandi vestur yfir haf, þegar henni hlekktist á í lendingu á braut í Kollafirði við Breiðafjörð og hafnaði á safni að Hnjóti í Örlygshöfn.
Ég fékk að taka í hana á Sandskeiði og komst að því að rússneski flugmaðurinn kunni nánast ekkert á hana. Hann þorði til dæmis ekki að nota flapa í lendingu þannig í staðinn fyrir að hægt væri að komast af með 150 metra í lendingu og flugtaki, þurfti vélin langa braut.
Ég spurði hann af hverju hann flygi svona, og trúði hann mér fyrir því að hann væri ragur vegna þess að hann hefði þyrlupróf en ekki próf á flugvél!
Enda fór hann út af enda brautar í Kollafirði og skemmdi vélina. (Í athugasemd kemur fram að hann hafi reyndar brotið stélhjólið við að ætla að reyna að nota alla brautina frá endanum, þar sem hann kom inn. Sýnir raunar vandræðin hjá honum, því að á þessari vél með fullum flöpum á var slíkt alger óþarfi.)
Í flugvélahandbókum er Sukhoi Su 37 talin afburða orrustuþota. Á flugsýningu í París 1995 átti spánný bandarísk þota með svoefndum "stefnukný" (vectored thrust), A-31, að verða eitt aðal sýningaratriðið.
En Kanarnir þorðu ekki að koma nálægt vellinum til að sýna hvernig þessi vél ætti að geta farið nærri því að stöðvast og snúast á alla kanta í loftinu svo að atriðið misheppnaðist algerlega.
Daginn eftir sýndu rússneskir snillingar þvílíkar kúnstir á Sukhoi Su 37 að ég man ekki eftir öðru eins og trúði varla sínum eigin eyrum og augum.
Tveim árum síðar, 1997, flykktist fólk til að sjá þetta atriði aftur. Þotan fór á loft og flaug síðan nokkra hringi og tók dýfur utan við völlinn en lenti síðan án þess neitt væri sýnt. Þulurinn tilkynnti að vegna þess að flugmennirnir hefðu ekki getað tekið hjólin upp, hefðu þeir orðið að hætta við atriðið!
Jafnvel ódýrustu og elstu Piper Apache lenda varla í slíku!
Rússarnir geta tæknilega gert afburða vélar og Antonov An 225 keppir við Airbus A 380 um það að vera stærsta þota veraldar. En gallinn hefur verið of gróf smíði og minni ending en á vestrænum vélum.
Hjá Cargolux skoðuðu menn vélar, sem Rússarnir buðu á spottprís, en fyrrnefndir gallar komu í veg fyrir það að sögn talsmanns félagsins, sem hélt eitt sinn erindi hér á landi.
En Rússarnir eru ólíkindatól, og varasamt að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll að þeir geti ekki komið á óvart og framleitt vélar, sem geti komist inn á markaðinn.
Superjet 100 reynd á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll, Ómar.
Þú ert ekki allveg nákvæmur með frásögnina um óhapp Antonov flugvélarinnar í Kollafirði hér um árið. Ég horfði á þetta. Rétt hjá þér, flugmennirinir voru líklega hræddir við vélina og ákváðu að taka bláendann á brautinni til þess að fara ekki fram af hinum meginn. En þeir hittu ekki bláendann, stélhjólið kom niður utan hans án þess að ná inn á brautina og fékk högg undir sig. Enginn tók eftir neinu. Rúllaði síðan eftir brautinni og parkeraði við enda hennar. Það var ekki fyrr en morguninn eftir þegar flugmennirnir skoðuðu vélina fyrir flugtak að þeir tóku eftir bungu sem lýsti löskuðu stélhjóli og þeir þorðu ekki að fljúga henni. Vélin fór því ekki út af en flugbrautarinnar, síður en svo. Harald Snæhólm, djarfur maður, flaug henni svo á Hnjót og lenti þar á einhverju frímerki.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 00:05
Yak og La seríurnar sportuðu ljómandi performans í seinna stríði, - rétt mun það vera. þ.e.a.s. í ekki of mikilli hæð, og svo frá og með La-5 og Yak-9. Yak-3 kom mikið seinna.
Ég spurði gamlan þýskan flugmann vel út í þetta, og það sem fram kom var að honum var sérlega illa við La-5 (La-7 kom svo seinna, aðeins sneggri). Það var í fyrsta skipti að hans sögn sem að hann lenti í tuski við Rússa, en gat alls ekki gómað hann.
Hann rakst á Spitfire vélar yfir Krímskaga (sendar til Rússa frá Bretlandi), og fylltist ótta þegar hann bar kennsl á vænglagið, enda hafði hans sveit farið svo illa í orrustunni um Bretland, að hún var dregin út úr átökunum eftir viku eða svo. En svo kom í ljós að þeim var flogið af hálfgerðum grænjöxlum, - sá gamli óttaðist sem sé ekki bara Spitfire, heldur breska flugherinn. Góð vél og góður flugmaður, það er málið....
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 09:23
Eru þeir ekki í samvinnu með Boing við smíði og hönnun á Superjet 100?
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 3.12.2012 kl. 10:05
Þetta vissi ég ekki, Örn, og þakka þér fyrir upplýsingarnar, sem reyndar ríma við það, að flugmaðurinn kunni ekki að nota eiginleika vélarinnar eins og kom í ljós í reynsluflugi mínu með honum og klikkaði því á því að geta lent á hluta þessarar brautar, vel inni á henni og án þess að fara út af endanum. Á Sandskeiði hafð hann þurft að nota mestalla brautina sem var tvöfalt lengri en brautin á Eyri í Kollafirði.
Og auðvitað lék vinur minn, Haraldur Snæhólm, sér að því að nýta getu vélarinnar, enda hafði hann áður átt skammbrautarvélina Dornier Do 27 sem síðar fékk kallmerkið TF-FRÚ og naut sín heldur ekki að neinu leyti nema flaparnir væru notaðir, en var þá gersamlega óviðjafnanleg.
Ómar Ragnarsson, 3.12.2012 kl. 15:53
Ég sá ANT á flugi á Duxford í haust. Vel flogið, og fyndið að sjá svona hlunkstóra tvíþekju á letilegu flugi.
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 23:10
An 2 gæti verið lofthæfur og fleygur sumarbústaður, ef hún væri innréttuð þannig, því að hægt er að ganga uppréttur um þessa makalausu eins hreyfils flugvél, sem tekur allt að fjórtán í sæti. Vængflöturinn er stærri en á Fokker F50 þótt vélin sé fjórum sinnum léttari en Fokkerinn, fullhlaðin.
Ómar Ragnarsson, 4.12.2012 kl. 00:42
Og mótorinn, - hva, - eitthvað 1.000 ha. stjörnuhreyfill. Rússarnir eru reyndar enn að smíða slíka nýja, - alveg upp í 2.000 hö.
Það er gráglettni örlaganna, að það er rússamótor í nýsmíðuðum Fw190 vélum...
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 10:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.