Já, slæmt að þjóðin fái að ráða meiru.

Það má segja að það sé jólasvipur á því að búa til Grýlur vegna nýrrar stjórnarskrár og setja á þær neikvæðan stimpil. Þær eru meðal annars þessar:

1. Vald forsetans eykst.  

2. Vald ríkisstjórna minnkar. 

3. Þjóðin fær að ráða meiru beint og taka ráðin af ríkisstjórnum. Það er slæmt.

4. Flokkum mun fjölga á þingi og það bæði veikja þingið og skapa þar ringulreið.

Tökum þetta lið fyrir lið:

1. Vald forsetans eykst.

Jæja? Í gömlu stjórnarskránni er eitt sterkasta valdið sem forsetar hafa haft uppi í erminni og beitt beint eða óbeint, að forsetinn geti myndað utanþingsstjórn. Til dæmis Kristján Eldjárn 1980, þegar hann hafði tilbúna utanþingssstjórn undir stjórn Jóhannesar Nordals ef þingið lyki ekki stjórnarmyndun innan nokkuð skamms tíma. Valdið byggðist á því fordæmi þegar Sveinn Björnsson ríkisstjóri myndaði utanþingsstjórn 1942.

Í nýju stjórnarskránni er þetta eftir atvikum mikla vald tekið af forsetanum. Hann heldur að vísu málskotsréttinum, en vegna ákvæða um þjóðarfrumkvæði stórminnkar ástæða fyrir forseta að nota þetta vald sitt. Varðandi skipan hæstaréttardómara verður hann liður í ákveðinni hringekju, sem færi af af stað ef þar kæmi upp klúður, en hefur ekkert endanlegt vald.

Varðandi stjórnarmyndanir er sett í stjórnarskrá svipuð "fundarstjóra"hefð og verið hefur og engin stjórn getur setið með andstöðu þingsins, - annars þarf að boða til nýrra kosninga.

Þegar ofanskráð er lagt saman kemur út í mesta lagi svipað og jafnvel heldur minna vald en forseti hefur nú.

2. Vald ríkisstjórna minnkar. Einkennilegt er að gefa því neikvæða einkunn þegar tillit er tekið til þess hvernig framkvæmdavaldið hefur undanfarna áratugi beygt þingið undir vald sitt og gert það á köflum að eins konar afgreiðslustofnun við lagasmíð.

3. Beint vald þjóðarinnar eykst með tilkomu þjóðarfrumkvæðis við lagasetningu og þjóðaratkvæðagreiðslna. Er það svona slæmt?  Sjá má í stjórnarskrám, sem vel hafa reynst í nágrannalöndum okkar, að þar er sagt beint að allt vald komi frá þjóðinni. Í því felist lýðræðið.

Í ýmsum löndum eru svipuð ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og er í nýju íslensku stjórnarskránni og hafa þau yfirleitt reynst vel í þessum löndum. Á aukafundi sínum í mars samþykkti stjórnlagaráð að hækka mætti prósenttöluna úr 10 í 15%. Samkvæmt greininni um þetta efni yrði undirskriftum ekki safnað saman á facebook heldur farið eftir ströngum reglum og umgerðin höfð þannig að það á, miðað við reynslu annarra þjóða, ekki að vera hætta á sífelldum þjóðaratkvæðagreiðslum.

4. Afnám atkvæðaþröskulds fjölgar flokkum á þingi og eykur glundroða. Jæja? Ekki er að sjá á núverandi Alþingi að þröskuldurinn hafi komið í veg fyrir að þar hafi kvarnast úr þingflokkum og þeim fjölgað. Ekkert ákvæði getur hindrað að slíkt gerist á meðan þingmenn þurfa ekki að fara eftir neinu nema samvisku sinni og þröskuldurinn getur gert það að verkum að allt upp undir sjöttungur kjósenda fái engan mann kjörinn. Er það lýðræðislegt?

Hræðsluáróður sem nú er rekinn er allur í öfuga átt við það sem þjóðfundurinn og hugsun þeirra, sem vildu læra af Hruninu, vildu.

Nú koma menn fram og reyna að hræða fólk með því að allt fari hér á versta veg ef ný stjórnarskrá í samræmi við vilja fólksins um beinna lýðræði og betri grundvallarskipan stjórnskipunarinnar.

Látið er að því liggja að sumar breytingarnar og nýmælin frá fyrri stjórnarskrá, sem hafa erlenda reynslu að fyrirmynd, þurfi sérstök "álagspróf" hér á landi.  

Það nýjasta er að leggja stjórnarskrána nýju að jöfnu við lögin, sem smíðuð voru utan um einkavinavæðingu bankanna á sínum tíma.

Þar er ekki líku saman að jafna, svo miklu lengri, ítarlegri og vandaðri hefur undirbúningur stjórnarskrárinnar verið nú en einkavæðingarlögin fengu.

Í næstum sjö áratugi hefur Alþingi mistekist að efna loforð landsfeðranna við lýðveldisstofnun um nýja og heila stjórnarskrá, sem engir Danir hefðu átt beinan þátt í að smíða eins og var með þá stjórnarskrá, sem við höfðu þá og höfum enn.

Í einu skiptin þegar þurfti að gera verulegar breytingar til leiðréttingar á hróplegu óréttlæti varðandi kosningar til Alþingis var ekki hægt að gera það nema í bullandi átökum við þá sem engin leið var að semja við um þau mál.

Þar var um að ræða brýnar lýðræðisumbætur eins og nú en stjórnarskármálið hefur strandað í alla þessa áratugi af því að reynt var árangurslaust að fá samstöðu um málið.


mbl.is Gæti veikt vald ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Það er rétt að virkja stjórnarskrána, eins og ýmislegt annað, og þó fyrr hefði verið. Það kemst enginn upp með að flýja erfiðar spurningar og umræðu.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.12.2012 kl. 00:28

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ómar. Mundu Stefán Valgeisson og gilsatöku hans á ALþingi.

Hvað varðar þröskuld, sem þú kallar svo. Allt lífið er einn stór þröskuldur og ekkert að því. Þú klárar ekki bílprófið án þess að komast yfir ákveðinn þröskuld. Sama gildir um flugprófið. Þú verður að ná lágmarki í skólum. Hver vildi láta krukka í sig af lækni sem aldrei komst í gegnum læknanám. Það er þröskuldur fyrir suma, en tyrgging fyrir aðra.

Hvað varðar það þegar menn skipta um flokk, þá er það bundið samvisku hvers og eins og spurning um heilindi og félagslegan þroska. Þessir einstakllingar þurfa að skríða upp í hjá einhverjum öðrum til að ná inn á ný, eða yfirstiga þröskuld. Það er því mjög billegt að afsaka tillögur að breytingum á stjórnarskránni, að tilgangur þeirra sé að að reyna að kenna rugluðum þingmönnum einfalda mannasiði.

Í tillögur um nýja stjórnarskrá vantar jafnræði til lífsgæða í landinu. Það vinnst ekki með því að jafna kosningaréttinn eingöngu. Það eitt að samþykkja það, kallar á endurskoðun á öllu jafnrétti landsins.

Hvar eru tillögur um að fjármunum, sem verða til í einu sveitarfélagi, skuli að mestu vera varið við uppbyggingu í því sveitarfélagi?

Hvar eru tillögur um jöfnun í skattheimtu nauðsynjavöru, hvernig á að jafna það að matarkarfan sé á svipuðu verði í Reykjavík og Raufarhöfn?

Benedikt V. Warén, 6.12.2012 kl. 13:41

3 identicon

Sjallarnir eru afar voldugir á klakanum, nær ósigrandi. Eiga sína menn í öllum skúmaskotum, enda notað styrk sinn í stjórnsýslunni til að kaupa menn til fylgis og hlýðni allt frá stofnun lýðveldisins.

Eiga einnig sína útsendara í öðrum flokkum, t.d. í Samfylkingunni, Árni Páll Árnason er einn þeirra,  “tanned and Ray-Banned”. Það væru mikil mistök að gera hann að formanni.

Fyrir sjallabjálfana kemur Flokkurinn fyrst, á undan þjóðinni. Því ætti það ekki að koma neinum á óvart að Salvör Nordal hagi sér eins og kjáni, eða Pavel. Voru alltaf “obscure” í þátttöku sinni í stjórnlagaráði.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.12.2012 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband