Dekur við ógnvald ?

Kók og Prins hafa verið sérkennilegur þjóðarréttur á Íslandi síðan 1957. Í þesssu tvennu felst ekki aðeins hvernig viðskipti Kalda stríðsins, annars vegar við Bandaríkjamenn og hins vegar vöruskiptin við kommúnistalöndin í Austur-Evrópu,  sköpuðu einstök fyrirbæri hér á landi, - heldur auðvitað líka að bæði Kókakóla og Prinspóló eru lymskulega gott sælgæti.

Á því eru auðvitað bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Jákvæða hliðin er ánægjuleg neysla augnabliksins, þegar neytt er þriggja fíkniefna, koffeins, hvítasykurs og fitu.

En neikvæða hliðin er að þessi þrjú efni eru hugsanlega ógnvænlegustu neysluvörur nútímans.

Það er að vísu ekkert sérlega mikil orka falin í 100 grömmum af Kóladrykk, aðeins 42 hitaeiningar, sem er með því minnsta sem finna má í neysluvöru. Gallinn er bara sá að öll orkan fæst úr hvítasykri og að neyslan er oft svo mikil að eftir sólarhringinn verður hún auðveldlega yfir 500 hitaeiningum hjá fíkli, og þeir eru margir.

Hitt er þó enn ógnvænlegra að í 100 grömmum af súkkulaði er tíu sinnum meiri orka en í sömu þyngd af kóladrykknum.

 Ástæðan er sú að auk sykursins eru um 40% súkkulaðsins hrein fita, en kóladrykkurinn er fitusnauður.

Að vísu er neyslan á hverjum sólarhring mun minni jafnvel hjá súkkulaðifíklum en neysla kóladrykksins.

En það breytir ekki því að ekki þarf nema 100 grömm af súkkulaði, eitt stykki, til að skila jafn mikilli orku og eins lítra kókflösku gefur eða tvær hálfslítraflöskur.  

Ef við leggjum þetta tvennt saman er orkan samanlagt meira en 800 hitaeiningar sem er skuggalega stór hluti af orkuþörf meðalmanns og, eins og alltof mörg dæmi sýna, þegar sá hluti neyslunnar ræður úrslitum um það að skapa offitu.

Leitun er að neysluvöru sem hefur jafn hátt fituinnihald og súkkulaði. Fitan í því er meiri en í hreinum rjóma og næstum þrefalt meiri en í matreiðslurjóma og orkan með því mesta sem þekkist.

Aðeins smjör slær súkkulaðinu við svo að um muni, með 680 hitaeiningum á 100 g og 75 grömmum af fitu.

Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu telst ég ekki vera of feitur, en hef nálgast mörkin ískyggilega og þyrfti að losa mig við 10-12 kíló. Mér taldist til í fyrra að ég hefði étið 50 tonn af Prins Póló síðan 1957 og hef nú minnkað skammtinn niður í eitt lítið stykki í viku, þ. e. á sunnudögum.

Og betur má ef duga skal bæði varðandi mataræði og hreyfingu.  

Mér sýnist það lítt skiljanlegt að stjórnvöld lækki vörugjöld og verð á súkkulaði og tali um heilsuverndarstefnu í hinu orðinu.

Á tímum þegar um er að ræða einn af helstu orsakavöldum mesta heilsuvandamáls nútíma þjóðfélaga, offitu sem veldur hjartasjúkdómum, of háum blóðþrýstingi, áunnri sykursýki og fleiri erfiðum sjúkdómum er varla ekki hægt að orða þetta öðruvísi en sem varasamt og óþarft dekur við ógnvald.

Nema að þeir, sem að þessu standa, hafa ekki einu sinni haft tíma til að lesa á umbúðum súkkulaðivaranna um innihald þeirra.

  


mbl.is Gæti aukið neyslu á sælgæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aldrei rekinn út af var,
Ómar hrókur fagnaðar,
ansi margt þó út af bar,
ekki var á kókið spar.

Þorsteinn Briem, 7.12.2012 kl. 15:34

2 identicon

Sælir,

Ég er orðin langt þreyttur af öllum þessu umhyggju í formi neyslu-stýringar.

Er ekki spáð í afleiðingana ?  Sykur er notað í sultugerð landsmanna, heima bakstur og fullt af öðru heimilsgerðan mat.  Þetta er bara aðför að fólkinu og ekkert annað.  Það telst í lagi að innbyrða aspartam (sem er tauga-eitur) og svo öllu þessu rótvarnarefnum sem settar eru í mat.  Sykur og salt eru nátturuleg rótvarnarefni.

Takk fyrir,

Ragnar 

Ragnar (IP-tala skráð) 7.12.2012 kl. 18:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt rannsóknum alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar eykst sala á neysluvörum á borð við sykur, áfengi og tóbak eftir því sem aðgengi að þeim er betra og verðið lægra.

Að vísu er það svo að við ákveðin takmörk eru fyrir því hve mikið er hægt að hækka verðið áður en áhrifin verða þau að reynt er að smygla þessum vörum til landsins eða framleiða þær fyrir svartan markað.

Þetta gæti verið skýringin á stórminnkaðri sölu á sterkum vínum og aukinni framleiðslu á landa.

Í því tilfelli, sem rætt er um hér að ofan er hins vegar ekki um slíkt að ræða, aðeins litla hækkun á verði gosdrykkja en hins vegar lækkun á verði súkkulaðis, sem mér finnst erfitt að réttlæta.   

Ómar Ragnarsson, 7.12.2012 kl. 22:58

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

„Af misjöfnu þrífast börnin best“ var einhverju sinni sagt. Í dag er þetta skelfilegt ástand. Síðan í haust hefi eg starfað á vinnustað sem er sennilega með þeim hávaðasamari. Þar eru eitthvað á annað hundrað börn. Þau eru iðin við að tala og jafnvel öskra en að sama skapi ekki jafnfær að hlusta. Á Alþingi Íslendinga getur verið hávaði og læti. En á þeim bæ talar yfirleitt ekki nema einn í senn. Á mínum vinnustað er eiginlega tvöfalt Alþingi!

Sjálfur hefi dálítið „lúmskt“ gaman af þessu enda tel eg mig vera fundvísan að finna það jákvæða. Vona að heyrnin fari ekki að gefa sig sem væri virkilega vont.

Einhverju sinni fór eg í heyrnarpróf hjá háls-, nef- og eyrnalækni eins og þeir nefndu sig og kannski enn. Eftir rannsóknina var eg með hausverk næstu tvær vikurnar en eg minnist þess að læknirinn kvað mig þarfnast heyrnartækja. „Og við hvað starfið þér“ spurði hann og þéraði mig sem eg skyldi ekkert í. „Á bókasafni“ svaraði eg en eg veitti bókasafninu í Iðnskólanum í Reykjavík forstöðu um það leyti. „Hvað segið þér“? spurði háls-, nef- og eyrnalæknirinn. Varð mér þá að spyrja hann á móti: „Heyrið þér einnig illa“? Ekki var meir talað um heyrnartæki og er svo enn.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 7.12.2012 kl. 23:03

5 identicon

2.5 kg af Prince Polo að meðaltali á dag í 55 ár?

Er ekki villa í útreikningunum?

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 09:54

6 identicon

Spurt er:
"2.5 kg af Prince Polo að meðaltali á dag í 55 ár?
Er ekki villa í útreikningunum?"

Ég tek undir þessa spurningu. Er þetta rétt Ómar?

Öfgamönnum hættir stundum óviljandi til að ýkja svolítið.
Er ekki að segja að það eigi sér stað hér.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 11:30

7 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta magn samsvarar "bara" 70 stk af stóru Prins á dag eða einu á 10 mínúta fresti alla daga. Þ.e.a.s. ef þess er ekki líka  neytt í svefni.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.12.2012 kl. 11:56

8 identicon

Spurt er:

"2.5 kg af Prince Polo að meðaltali á dag í 55 ár?

Er ekki villa í útreikningunum?"

Kom hingað akkúrat til að benda á þetta og það að meðal maður borðar ekki mikið meira en 2.000g á dag.

Birgir Óli (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 11:56

9 identicon

Þú ert ekki búinn að éta 50 tonn af prinspóló og matur er ekki óhollari eftir því sem hann inniheldur meiri hitaeiningar. Munurinn á flestu sælgæti og súkkúlaði almennt er að sælgæti inniheldur almennt ekkert annað en hvítan sykur og E-efni. Gott súkkúlaði inniheldur mikið af kakó og kakósmjöri, sem er mjög hollt og inniheldur mjög holla og góða fitu -- fita er EKKI hættuleg og maður á að borða vel af henni. Prinspóló er náttúrulega kex með smá súkkulaði sem er allt annað mál. Ef fólk ætlar á annað borð að borða sætindi er MARGFALT betra að éta þau með fjölbreyttum orkugjöfum eins og fitu og prótínum af því að þau eru miklu meira mettandi, súkkúlaði er líklegast einhver besti kosturinn og því hærra kakóinnihald því betra.

Friðrik (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 13:53

10 identicon

50 tonn á 55 árum er um 910 kg á ári sem eru 2,49 kg á dag sem eru 68 stk á dag

Hvernig hafði maðurinntíma til að vinna

sæmundur (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 14:02

11 identicon

Ætli hann sé ekki að rugla saman 50.000 stykkjum úr þessari grein og 50.000kg. http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1167621/

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 8.12.2012 kl. 15:23

12 identicon

Þetta eru greinilega mismæli (misskrift) hjá Ómari. ;)

Mikið held ég að hann væri annars feitur ef þetta væri satt.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 01:09

13 identicon

Sé fyrir mér: Prins Póló megrunarkúrinn með mynd af tágrönnum Ómari skóflandi í sig Príns póló í kílaóavís á dag :)

DoctorE (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 11:40

14 identicon

Ætli 50 þúsundin hafi ekki átt að vera "stykki" en ekki "kíló"? Það myndi alla vega vera auðmelt statistík. Svona tæplega 3 á dag. Bara spyr.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband