9.12.2012 | 16:32
"Það er engin leið að hætta..."
"Það er engin leið að hætta..." sungu Stuðmenn á sínum tíma og þetta eru eilíf sannindi, nú síðast hjá Silvio Berlusconi.
Fyrirbrigðið er þekkt á öllum sviðum þjóðlífsins og mannlífsins. Stunum er illskiljanlegt af hverju menn hætta ekki þegar fyrir löngu er útséð um að þeir muni ná aftur þeim árangri sem þeim hefði verið nær að ylja sér við.
Ofarlega í huga eru hnefaleikarar, en það er frekar regla en undantekning að þeir geti ekki hætt fyrr en þeir eru búnir að tæma bikar ósigranna í botn og oft um að ræða harmleik, sem varpar skugga á fyrri frægðarferil.
Svo bara séu teknir heimsmeistarar í þungavigt sem héldu áfram löngu eftir að útséð var um að þeir endurheimtu fyrri ljóma, má nefna sem dæmi Jim J. Jeffries, Jack Dempsey, Joe Louis, Ezzard Charles, Ingemar Johansson, Floyd Patterson, Sonny Liston, Muhammad Ali, Joe Frazier, Larry Holmes, Mike Tyson, Evander Holyfield og Roy Jones jr.
Hjá mörgum þessara manna var um hreinan harmleik að ræða eins og hjá Ali og Roy Jones.
Raunar er auðveldara að nefna nöfn þeirra, sem hættu á rétum tíma: Gene Tunney, Rocky Marciano og Lennox Lewis.
Berlusconi er ekki eina dæmið um stjórnmálamenn sem sætta sig ekki við það að hafa eftir glæsitíð klúðrað málum og valdið tjóni.
Hér á landi finnast slíkir, sem ekki aðeins þræta fyrir að hafa fylgt og kynt undir þeirri stefnu sem leiddi Hrunið af sér, heldur telja hið sjálfsagðasta mál að taka upp fyrri hætti með öllum tiltækum ráðum.
Endurkoma risaeðlu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.