Þetta er það, sem er að fara með ástandið.

Það eru að verða 65 ár síðan samþykkt var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að  skipta Palestínu í tvö sjálfstæð ríki. Á árunum eftir heimsstyrjöldina tíðkuðust þau vinnubrögð að stórveldin sem sigruðu ráðskuðust með þjóðir og lönd á þann hátt, að minnti á gamla daga þegar Pólandi var skipt upp á milli stórvelda í lok átjándu aldarinnar og enginn gat hreyft við því.

Eftir seinni heimsstyrjöldina voru Þjóðverjar ekki í neinni aðstöðu til að segja orð við því sem þá var gert við þá, - svo mikil var niðurlæging þeirra og skömm.

14 milljónir manna urðu að flytjast nauðarflutningum frá landssvæðum, þar sem þýskumælandi fólk hafði búið í marga ættliði og aldir.

Austur-Prússland var einfaldlega gert að rússnesku landssvæði hundruð kílómetra frá Rússlandi.

Niðurlæging Þjóðverja var alger, því að Prússland og veldi þess hafði verið hryggjarstykkið í uppgangi Þjóðverja og Þýskalands og með því að "hreinsa" Austur-Prússland var nafn Prússlands og Prússar endanlega horfið.

Hvaða skoðanir sem við höfum á því hvernig Gyðingar komust yfir "Landið helga" og það hvernig þeir hafa hundsað alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðannar og farið að ráði sínu við að stefna að því takmarki sínu að ná öllu landinu undir sig, beint eða óbeint, eru liðin það mörg ár frá því að landinu var skipt, að það er óraunsætt að halda því fram lengur að annað hvort ríkið, Ísrael eða Palestína, eigi ekki tilverurétt.

Ummæli Shaul Mofaz eru firrt. Hann heldur að með því að drepa einn mann eða nokkra menn verði hægt að kæfa og drepa sjálfstæðis- og frelsisbaráttu Palestínumanna.

Svipað má segja um ummæli þeirra Palestínumanna  að þurrka eigi Ísraelsríki af yfirborði jarðar.

Svona ummæli eru þess eðlis, að þau bæði viðhalda óviðunandi ástandi á svæðinu og ógnun við heimsfriðinn.


mbl.is Hefðu átt að skera höfuðið af höggorminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Enginn jarðarbúi hefur réttlætanlegt vald til að ákveða hverjir hafa rétt á að lifa eða deyja. Það verður ekki friður í heiminum, meðan sumir dauðlegir og breyskir telja sig hafa umboð til að ákveða líftíma jarðarbúa.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.12.2012 kl. 02:12

2 identicon

Sæll.

Nú hlýtur þú að mæla gegn betri vitund. Samlíking þín að ofan missir algerlega marks. Þú lítur algerlega framhjá sögunni. Hvers vegna?

Gyðingar hafa búið á þessu svæði árþúsundum saman og SÞ buðu aröbum hluta svæðisins en þeir höfnuðu.

Þú hefur heldur ekki gripsvit á rót þessa vanda frekar en margir. Hefur þú kynnt þér súru 4:89? Hefur þú kynnt þér súru  9:5? Hvað með súru 2:221? Hefur þú kynnt þér hugtakið nasikh í íslömskum fræðum? Sveinn Rúnar, Ögmundur, Össur og Árni Þór, svo nokkrir séu nefndir, ættu að kynna sér þetta aðeins. Kannski þú líka?

Enn og aftur nefnir þú ekki Balfour yfirlýsinguna frá 1917. Hvers vegna? Telur þú að hún skipti ekki máli?

Nú ætla ég ekki að svara fyrir ummæli Mofaz en hann er án efa ekki að reyna að kæfa sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna. Við Hamas er því miður ekki hægt að ræða. Kynntu þér aðeins út á hvað þessi samtök ganga. Kynntu þér hvernig Palestínumenn haga sér:

http://www.youtube.com/watch?v=etDb5tXPawc

Ísraelsmenn hafa sýnt að við þá er hægt að semja frið, samningar þeirra við Jórdana og Egypta sýna það. Það þarf tvo til. Mun Hamas standa við samninga sem Fatah gerir?

Hvað eru Palestínumenn annars að gera til að undirbúa lífvænlegt ríki? Eru þeir að fjárfesta og búa til störf? Á hverju ætlar sjálfstætt ríki Palestínumanna að lifa? Ölmusu eins og hingað til? Hamas fékk nýlega tugi milljónir dollara í gjöf frá einu arabaríkinu (Al Thani fjölskyldunni). Hvað ætli þeir geri við það fé? Ætli það fari í að gera líf íbúanna þar betra með því að búa til vel launuð störf?

Hér er önnur útgáfa af atburðum:

http://www.youtube.com/watch?v=XGYxLWUKwWo

Helgi (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 07:15

3 identicon

Helgi það er rétt að það þarf tvo til að ná friði, hér er brot af því sem gert er í skólum Gyðinga.http://www.youtube.com/watch?v=sVCMGtrsh_8

Þeir eru ekkert skárri og það er ekki hægt að horfa frammhjá því sem þeir gera þótt þeir séu hinn svokallaða "Útvalda þjóð" sem þeir eru ekki frekar en við. Þeir beita sömu aðferð og ynnflitjendur Bandaríkja Norður Ameríku gerðu þegar þeir reyndu að útríma Indíánum og Inuitum.

Gunnlaugur Sigurdsson (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 08:19

4 identicon

Helgi það er rétt að það þarf tvo til að ná friði, hér er brot af því sem gert er í skólum Gyðinga.

http://www.youtube.com/watch?v=sVCMGtrsh_8

Þeir eru ekkert skárri og það er ekki hægt að horfa frammhjá því sem þeir gera þótt þeir séu hinn svokallaða "Útvalda þjóð" sem þeir eru ekki frekar en við. Þeir beita sömu aðferð og ynnflitjendur Bandaríkja Norður Ameríku gerðu þegar þeir reyndu að útríma Indíánum og Inuitum.

Gunnlaugur Sigurdsson (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 08:22

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar það er haft í huga að þessi umræða hér að ofan fer fram á íslenskum spjallvef þarf engan að undra þó erfiðlega gangi að sætta sjónarmið öfgafullra trúarhópa sem báðir eiga um sárt að binda.

Ég efast með hverjum deginum meira um hina svokölluðu menningu okkar.

Árni Gunnarsson, 9.12.2012 kl. 08:38

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ómar, ég þakka þér fyrir þennan pistil. Samlíkingin við Þýskaland er mjög góð og skrítið að maður hafi ekki séð þetta á prenti áður.

Hvað myndi fólk segja ef Þjóðverjar hreinlega viðurkenndu ekki núverandi landamæri í Evrópu og vildu fá hálft Pólland og Prússland til baka, eða jafnvel hverfa til landamæra fyrri heimsstyrjaldarinnar, því þeir töpuðu einnig í landi í henni.

Tveggja ríkja lausn er það sem koma skal og það sem stefna skal að. Auðvitað er Jerúsalem vandamál, þar sem bæði ríkin stefna á að það verði höfuðborg landanna, en slíkt má örugglega leysa.

Þökk fyrir góðan pistil!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 9.12.2012 kl. 11:15

7 identicon

@GS:

Eru Ísraelarnir ekkert skárri? Þeir hafa samið frið, öfugt við Hamas. Ísraelarnir sprengja ekki viljandi óbreytta borgara í loft upp, öfugt við Hamas. Ísraelarnir hafa það ekki á stefnuskrá sinni að útrýma einum eða neinum, öfugt við Hamas.

Þessi pistill þinn er því algerlega innihaldslaus! Kynntu þér súrurnar sem ég nefni að ofan áður en þú ferð að snúa út úr og skipta um umræðuefni.

@5: Menning okkar sem þú efast um hefur getið af sér menn eins og Newton, Kant, LaPlace, Gauss, Spinoza, Locke, Hume, Freud, Jobs og ótal fleiri. Það er því engin ástæða til að óttast annað en vinstri menn dragi enn meira úr frelsi okkar en orðið hefur undanfarna áratugi á Vesturlöndum - frelsi sem fært hefur okkur velmegun sem múslima skortir vegna skorts á frelsi.

Ef þú ert efins um okkar menningu ættir þú að prófa að búa í einhverju íslömsku landi í nokkurn tíma, þá opnast án efa augu þín.

Helgi (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 11:20

8 Smámynd: Jónatan Karlsson

Ég vil leggja lítið myndbrot til umræðunar. Það sýnir bandarískan gyðing mótmæla ástandinu á hernumdu svæðunum og meðferðini sem hann fær af hernámsliðinu. Það er einfalt að ímynda sér meðferðina, ef um palestínskan ungling hefði verið að ræða.

http://www.youtube.com/watch?v=9QiV9xn0RbI

HVAR ER FRIÐARGÆSLULIÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA?

Jónatan Karlsson, 9.12.2012 kl. 11:55

9 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góður pistill Ómar. Það er auðvitað fráleitt úr því sem komið er að annað en Ísrael verði þar sem það er, við hlið Palestínu. Sem sagt tveggja ríkja lausnin. En sú hugmynd heyrir fortíðinni til innan fárra ára verði ekki hægt og sígandi landrán Ísraels á landi Palestínu stöðvað af alþjóðasamfélaginu.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 9.12.2012 kl. 12:42

10 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég er svo innilega sammála þér Ómar en líka síðasta ræðumanni(Axel).Það þýðir ekkert  að fara til baka til 1948 eins og Hamas vill.Samningaleiðin er eina úræðið en þar þurfa allir að koma að borði.Sameinuðu þjóðirnar eiga að gegna því hlutverki .Ef Hamas vill ekki segjast verður að sjálfsögðu að sniðganga þá.Bendi á að mörg friðarsamtök eru að störfum í dag sem vinna hljóðlega að samskiptum milli Ísraela og palestínumanna.Það fer ekki mikið fyrir þeim.Ófriðarpostularnir virðast alltaf vera vinsælli.

Jósef Smári Ásmundsson, 9.12.2012 kl. 13:24

11 identicon

Verði Palestína að ríki, þá skiptir það höfuðmáli hvort það ríki viðurkenni Ísraelsríki eður ei.
Eins og staðan hefur verið hefur engin haft gagn af því að hafa hornin á Ísraels-síðu. Margar atrennur hafa verið gerðar til þess að slá Ísrael út af borðinu, en það er ekki komið til að vera.Stríð við Egypta. Sýrlendinga, sameinuð ríki Araba (Yom Kippur) hefur engu skilað fyrir viðkomandi. Og ekki skoruðu Palestínumenn samúðarmörk er þeir flykktust um götur og brenndu Bandaríska fánann þann 11/9.
Samningaleiðin er fær ef tekst að hemja óeirðar-rakettu menn Palesínu megin. Þá geta e.t.v. orðið til landamæri og tvö þjóðríki í nánum viðskiptum.
Sá veruleiki í kollinum á mörgum Palestínu-og-víðara-megin að Ísraelsmenn pakki bara saman og yfirgefi svæðið, nú eða bara leggist flatir niður er nefnilega bara áskrift á erjur og blóðböð. Skortur á veruleikaskyni.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 16:43

12 identicon

hELGI.ÞÚ VIRÐIST NÚ EKKI HAFA NEITT ÓSKAPLEGT VIT Á ÞVÍ SEM ÞÚ ERT AÐ SEGJA.hVAÐA BULL ER ÞETTA AÐ GYÐINGAR HAFI BÚIÐ Á ÞESSU SVÆÐI ÁRÞÚSUNDUM SAMAN.vAR EKKI KENND MANNKYNSSAGA Í BARNASKÓLANUM ÞÍNUM.

josef asmundsson (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 19:32

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hélt að það væri viðurkennd sagnfræðileg staðreynd að meginhluti Gyðinga hafi verið hrakinn frá Palestínu fyrir meira en 1800 árum og dreifst víða um lönd en síðan hefði alltaf lifað draumurinn meðal þeirra að endurheimta það land, sem þeir töldu að Guð hefði í Gamla testamentinu gefið þeim, en sú trúarsetning er galin og ein höfuðorsök atburðarásar síðustu aldar.

Það er svona álíka galið og að við Íslendingar krefðust þess að fá aftur þau landsvæði í Noregi, sem landnámsmenn þaðan fóru frá fyrir 1100 árum og fengju þannig til dæmis olíuauðinn í okkar hendur.

Um aldamótin 1900 var þetta mál Gyðinga orðið að sliku stórmáli, að íhugað var í alvöru á alþjóðavettvangi að gefa þeim Uganda til þess að friðþægja þeim.

Um svipað leyti ákvað Zíonistahreyfingin að stefnt yrði að því að Gyðingar eignuðust þjóðarheimili í Palestínu og uppfylltu þannig loforð Jahve.

Fram til 1948 var talsverður innflutningur fólks til Palestínu en straumur Gyðinga var langstærstur og fór vaxandi og með því að spila á sektarkennd vegna Helfararinnar, þrýstingi, hryðjuverkum og firnasterkum ítökum í Bandaríkjunum var ákveðið að uppfyllta ósk Zíonista um "fyrirheitna landið."

En þetta er orðin það gömul fortíð, að óraunhæft er að falla frá tveggja ríkja lausninni, ekki hvað síst vegna þess að engir ráðamenn mesta hernaðarrisaveldis heims, Bandaríkjanna, þora að blaka við landtöku- og landránsstefnu Ísraelsmanna því að andóf við stefnu Ísraels myndi kosta hverja þá völd í Bandríkjunum, sem reyndu slíkt. .

Ómar Ragnarsson, 9.12.2012 kl. 20:06

14 Smámynd: Sigurður Rósant

Hvers vegna hafa ofangreindir bloggarar svona miklar áhyggjur af þessum erjum í kringum Palestínu? Af hverju blogga menn ekki af jafn miklum hita um erjur manna á Sri Lanka, þar sem ekki færri einstaklingar láta lífið vegna hliðstæðra ágreiningsmála?

Á Sri Lanka sem er um 2:3 af stærð Íslands, búa um 20,3 milljónir manna. 70% þeirra eru Búddistar sem ráða ríkjum í stærstum hluta landsins og kúga minnihlutana, 15% hindúa, 7,5% múslimi og 7,5% kristna, sjá hér.

Tamil Tígrar sem líkja má við Hamas eru þekktir fyrir skæruhernað og berjast fyrir sjálfstæðu ríki í norðurhluta eyjarinnar fyrir hönd hindúa, múslima og kristinna manna. Þeir voru fyrstir til að fremja árásir með sjálfsvígssprengjubeltum og myrtu þannig t.d. Rajiv Gandhi sem þá var fyrrverandi forsætisráðherra Indlands árið 1991.

Eru áhyggjur okkar Vesturlandabúa kannski eitthvað tengdar falsvonum okkar um meinta endurkomu Jesú Krists? Að okkur beri skylda til að styðja Gyðinga í þeirra hörmungum, því þá munum við hljóta blessun í þessu lífi og svo sæla himnaríkisvist að lífi okkar loknu?

Skoðið málið, hugsið og pælið.

Sigurður Rósant, 9.12.2012 kl. 20:57

15 identicon

Ómar: Gyðingar voru í Palestínu 1948. Sumir höfðu verið þar öldum saman, sumir fjórar, þrjár, tvær eða eina kynslóð en þeir voru íbúar landsins og það voru arabarnir sem neituðu að ræða framtíð svæðisins við SÞ. Ísraelsmenn stóðu auk þess svo að segja einir í stríðinu 1948. Hið nána bandalag Ísraels og Bandaríkjanna kemur ekki til fyrr en í forsetatíð Johnsons. Ísraelsmönnum var ekki gefið land í Palestínu. Þeir voru þarna og byggðu það upp sjálfir.

Ísraelsmenn eru eina þjóðin sem hefur verið fordæmd fyrir að verjast tilraun til þjóðarmorðs.

Gjarnan eru áköfustu fordæmendurnir frá heimsálfu þar sem menn gerðu mjög einbeitta tilraun til að útrýma gyðingum stuttu áður.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 22:02

16 identicon

Það er marg búið að benda þér á Ómar hér á þessum síðum, bæði af mér og öðrum, að vera ekki að fjalla um þetta vandamál sem þú hefur bersýnilega ekki snefils vit á og ekki nennt að hafa fyrir að kynna þér.

Byrjum á þrem staðhæfingum þínum í athugasemd 13:

1) "Ég hélt að það væri viðurkennd sagnfræðileg staðreynd að meginhluti Gyðinga hafi verið hrakinn frá Palestínu fyrir meira en 1800 árum" Að vísu fóru meginhluti Gyðinga þaðan, en það gerðu flestir aðrir líka, landið tæmdist smátt og smátt og fólki fækkaði. Þegar sá merki bandaríski rithöfundur Mark Twain ferðaðist á efri árum sínumum landið 1867, og var spurður um hvað honum hefði fundist merkilegast í ferð sinni um Landið Helga, þá svaraði hann: Það merkilegasta er að landið er mannlaust! Við ferðuðumst um dögum saman vítt og breytt og sáum nánast aldrei nokkra lifandi sál! Þetta má til sanns vegar færa þegar litið er á fyrsta manntalið sem fáanlegt er yfir merkilegustu og einu "borg" landsins á þessum tíma, Jerúsalem, en þá, árið 1844, skiptist fjöldi borgarbúa ef "fjölda" skyldi kalla þannig:

Gyðingar: 7.120 Múslimar 5.000 Kristnir 15.510

Alls: 15.510 manns eða talsvert færri en íbúar á Akureyri á vorum dögum.

Semsagt, meira segja hér á þessum tíma, löngu áður en Ottómanaríkið leið undir lok eða nokkur Zíonismi var kominn fram þá voru Gyðingar stór hluti íbúanna, kannski sá stærsti á vissum svæðum þótt ekki verði fullyrt nánar um það með vissu.

2) "þeir töldu að Guð hefði í Gamla testamentinu gefið þeim, en sú trúarsetning er galin"

Ætlar þú þér þá dul Ómar Ragnarsson, einfaldur bíladellukarl, skemmtikraftur, flugmaður og sitthvað fleira hér uppá skerinu Íslandi að þykjast geta fullyrt það með vissu að þessi eða aðrar trúarsetningar hinna og þessara trúarbragða séu "galnar"? Virkilega? Frægustu og virtustu vísindamenn nútímans, allt frá Stephen Hawking og niðurúr, hafa einmitt þvert á móti fullyrt nýlega að þótt það sé ekki endilega "nauðsynlegt" að eitthvert yfirnáttúrulegt afl sem flestir kalla "Guð" hafi skapað alheiminn og allt sem í honum er, þá sé heldur ekki hægt (og verði aldrei) að útiloka það.

3) "Um aldamótin 1900 var þetta mál Gyðinga orðið að slíku stórmáli, að íhugað var í alvöru á alþjóðavettvangi að gefa þeim Uganda til þess að friðþægja þeim"

Aldrei stóð til að "gefa" Gyðingum Úganda: Árin 1902 -'03 fóru að berast óhugnanalegar fréttir til eyrna Theodor Herzl, stofnanda Zionista-hreyfingarinnar þess efnis að rétt eina ferðina stæðu fyrir dyrum Gyðingaofsóknir í Rússlandi, og lét Herzl sig dreyma um að hægt væri að afstýra blóðbaðinu í þetta skiptið enn með því að fá heimild Rússa til þess að flytja viðkomandi Gyðinga úr landi. En til þess skorti hann áfangastað fyrir þá, annars fengjust hvorki brottfararleyfi né farartæki. Herzl leitaði í öngum sínum til Breska nýlendumálaráðherrans, sem þá var Joseph Chamberlain (faðir Nevilles) sem allra náðusamlegast og af örlæti sínu gaf Herzl leyfi þess að brúka, ef á þyrfti að halda, 5'000 fermílur (ca 13'000 ferkílómetra, eða ein íslensk sýsla) af Mau hásléttunni milli Úganda og Kenya sem þá voru eitt og hið sama í þessum tilgangi. Þetta var nú öll "gjöfin" og breska örlætið í öllu sínu veldi eða hitt þó heldur. Ekkert varð úr yfirvofandi ofsóknum og "gjöfin" því aldrei nýtt að öðru leyti en því að múgæsingamenn hafa nýtt sér það út í hörgul allar götur síðan.

Aðrir geta svo haldið áfram þar sem hér er frá horfið og leiðrétt villurnar í athugasemd 13.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 22:32

17 Smámynd: Sigurður Rósant

Björn, ég er nú sammála Ómari um að "trúarsetning" G.T. sé galin, eins og höfundur Mósebókanna orðar það í 1. Mós 15:18 , þó ég sé nú ekki sammála Ómari um að hann hafi getað hesthúsað 2,49 kg af Prins Póló á dag í 55 ár.

Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat.

Ef myndin birtist sem ég ætla að reyna að líma hérna inn á fyrir neðan, þá geta menn séð að þetta er ekkert smá landsvæði sem Jahve lofaði Abram áður en hann eignaðist Ísmael með Hagar, þeirri egypsku, en svo 14 árum seinna, sinn heittelskaða erfingja Ísak, með hálfsystur sinni Söru.

Ef myndin birtist ekki vísa ég á færslu mína frá 20.11.2012 um fordæmi barnamorða.


Sigurður Rósant, 9.12.2012 kl. 23:10

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og svo oft áður hér á Íslandi, er gripið til þess ráðs að ómerkja það sem skrifað er, með því að gera það að aðalatriði hver skrifar, en ekki hvað er skrifað, og þá er sönnunin sú, að sá sem skrifar sé svo ómerkilegur, "einfaldur bíladellukarl, skemmtikraftur, flugmaður og fleira hér uppi á skerinu."

Og athugið þið hvernig "hér uppi á skerinu" er notað til þess að ómerkja skrifin, - Ísland er svo ómerkilegt "sker".

Það er rangt að ég fullyrði að þessi eða aðrar trúarsetningar séu galnar og fjarri fer því að ég afneiti tilvist æðri máttar, sem kalla má Guð. Athugaðu að ég skrifa Guð með stórum staf.

En ég tel aðeins að þessi eina tiltekna trúarsetning sé galin, að Guð afhendi sérstaklega einni þjóð ákveðið land, sem þýðir það að til þess að uppfylla þessa Guðlegu skipun, ber að gera Gyðinga að herraþjóð í þessu landi þeirra.

Björn Jónsson hlýtur að vera búsettur í merkilegra landi en Íslandi úr því að ég er svo ómerkilegur pappír af því að ég á heima "uppi á skerinu.

Og ekki í fyrsta skipti sem orðin "dellukarl" og "skemmitkraftur" er notuð í niðrandi merkingu.

Fleir stunda þetta. Dæmi: Jón Magnússon klínir "kennari" við nafn Guðbjarts Hannessonar, greinilega til að minnka hann, - hann er greinilega ekki nógu merkilegur, karl sem lærði og vann kvennastarf.

Var Guðbjartur þó skólastjóri, en nefnir Jón ekki.

Einhverjar íbúatölur frá miðri 19. öld í ákveðnu borgarsamfélagi í Palestínu segir ekkert um ástandið eins og það þróaðist frá og með 1920 þegar Gyðingar hófu hina miklu flutninga til Palestínu og juku innflutninginn síðan stórlega eftir seinna stríðið í því skyni að ná undir sig "fyrirheitna landinu" sem Guð hafði gefið þeim í árdaga.

Kenningar um það að einhverjir kynþættir séu öðrum æðri vegna þess að guð hafi skapað þá sem yfirburðafólk, hafa reynst mannkyninu hættulegar þegar þær hafa verið leiddar út í villimennsku líka þeirri, sem kostaði 6 milljónir Gyðinga lífið í Helförinni vegna þess að Adolf Hitler trúði því sem sönnuðum vísindum að Aríar væru yfirburðafólk, sem hefði verið skapað þannig að aðrir kynþættir stæðu þeim að baki, og ættu Aríarnir þess vegna rétt á því að verða að herraþjóð sem notaði hina "óæðri" Slava og aðrar þjóðir sem undirokaða þræla.

Ómar Ragnarsson, 10.12.2012 kl. 00:11

19 identicon

Ómar: Gyðingar "juku" ekki "innflutninginn" eftir 1920 "í því skyni að ná undir sig fyrirheitna landinu". Fólkið sem kemur í þriðju og fjórðu bylgju er mest að flýja ofsóknir í A-Evrópu. Um 120.000 gyðingar komust til Palestínu (og vildu raunar margir frekar fara til Bandaríkjanna en var ekki hleypt inn). Til samanburðar voru um 100.000 drepnir í Rússlandi á sama tíma.

Var það kannski zíonistaplott? Engum myndi detta í hug að lýsa þeirri atburðarás sem einhverskonar liði í áætlun ef önnur þjóð en gyðingar ætti í hlut.

Svo ættir þú að vita - rú því að þú finnur þig svo knúinn til að tjá þig um málið - að trúarleg sjónarmið voru ekki lykilatriði í huga flestra forvígismanna zíonismans.Eins ætti þú að vita að "Guðs útvalda þjóð" merkir ekki yfirburðaþjóð.

Í sömu athugasemd sýnir þú bæði trú á ósennileg gyðingaplott og líkir zíonismanum við nasismann.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 00:49

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef margsinnis, og nú síðast í þessu bloggi, notað sterkustu orð,sem ég á, um villimennsku nasismans og ekki notað þessi sterku orð um neinar aðrar stjórnmálastefnur eða trúarsetningar af því að ég tel ekki að hægt sé að finna neinar hliðstæður að þessu leyti við stefnu Hitlers og manna hans.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2012 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband