Hið raunverulega Rússland.

Hvert er hið raunverulega Rússland? Stórborgirnar Moskva og sánkti Pétursborg? Þangað koma flestir erlendir ferðamenn og telja sig hafa fengið hina réttu mynd af landi og þjóð.

En í mínum huga breyttist myndin í þriggja daga kvikmyndatök ferð til landsins í febrúar 2006.

Erindi mitt var að fara til smábæjarins Demyansk, sem er sunnan undir Valdai-hæðum um 350 kílómetra fyrir norðvestan Moskvu vegna heimildarmyndarinnar "Emmy, stríðið og jökullinn" en þar var framkvæmd fyrsta risavaxna loftbrú flugsögunnar frá febrúar til loka apríl 1942. Bundesarchiv_Bild_101I-003-3445-33,_Russland,_Lufttransport_mit_Junkers_Ju_52[1]

Rúmlega hundrað þúsund manna her Þjóðverja lokaðist þar inni en þeim tókst að flytja vistir og hergögn inn þangað á 3-500 kílómetra löngum flugleiðum auk þess að flytja hátt á annan tug þúsunda hermanna inn og næstum 20 þúsund særða til baka og bjarga síðan næstum 100 þúsund mönnum út úr herkvínni.

Þetta afrek innsiglaði örlög 6. hers von Paulusar í Stalingrad áramótin á eftir, því að Þjóðverjar ofmetnuðust og héldu að þeir gætu endurtekið Demyansk-afrekið þar með þrefalt stærri innilokaðan her.

En hvað um það, Rússi, sem hafði verið í nokkur ár á Íslandi, tók að sér að vera leiðsögumaður minn á dagsferð frá Moskvu til Demyansk og til baka aftur.

Rússinn hafði alið allan sinn aldur í Mosvku og aldrei komið út á landsbyggðina, hvað þá þegar rússneski veturinn var í hámarki.

En í lok þessarar ferðar var hann jafnvel enn meira uppnuminn af þessari ferðareynslu en ég, því að í ferðinni  hafði hann í fyrsta sinn kynnst hinu raunverulega Rússlandi lang víðfeðmustu landsbyggðar heims.

"Moskva og Pétursborg eru fjarri því að vera hið raunverulega Rússland" sagði hann. Þetta eru í raun sýningargluggar sem gefa enga mynd af hinu raunverulega lífi og kjörum rússnesku þjóðarinnar."  

Þegar Putin vill sýna rætur sinna yngri ára í rússnesku þjóðlífi er sýnd mynd af honum við hinn einfalda og litla Zaphorozhets bíls, sem var sá fyrsti sem hann eignaðist og átti að gegna svipuðu hlutverki í Rússlandi og Trabant í Austur-Þýskalandi . Putin_with_his_1972_Zaporozhets[1]

En á þeim tíma áttu venjulegir Rússar ekki bíla, ekki einu sinni þessa frumstæðu smábíla.

Í einni stórri bílabók, sem ég á, er talið líklegt að fyrsta gerð þessa bíls hafi verið lélegasti bíll sem nokkru sinni hafi verið hannaður og framleiddur. Jafnvel væri varla hægt að segja að hann hefði yfirleitt verið hannaður! Saporoshez_ZAZ_965_A[1]

Einn slíkur bíll var fluttur til Íslands og entist aðeins í tvö eða þrjú ár ef ég man rétt.

Og vélarnar í Rússajeppanum voru hræðilega lélegar, kraftlausar, eyðslufrekar og entust illa.

Jepparnir sjálfir voru að mörgu leyti listavel gerð hönnun, einkum blaðfjöðrunin, sem gaf gormafjöðrun ekkert eftir hvað snerti mýkt.

Ég tel raunar að hönnun fyrsta GAS 69 jeppans hafi verið besta jepphönnun veraldar á þeim tíma sem þessir jeppar komu fram og get rökstutt það ef eftir því væri leitað.


mbl.is Sýna lífið í Sovétríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

ég átti einn svoan GAG 69 4 dyra frábær bíll fór um allra strandir allt gott nema veliná á vegum fór ég framúr öllum,en í brekum þeir fram úr mér/>Kveðja

Haraldur Haraldsson, 19.12.2012 kl. 00:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég veit aðeins um tvo GAZ 69 í góðu standi með upprunalegu vélinni. Í marga voru settar vélar úr öðrum jeppum. Í þann, sem ég á, var sett Bronkó vél þar sem hestöflin fóru úr ca 50 upp í 85.

Kraftmeiri vélar þolir driflínan ekki, því að þá er hætt á að driföxlarnir brotni.

 Kraftleysið gat komið sér vel í ófærum, því að þá var minni hætta á að ofkeyra sig eða að bíllinn græfi sig niður. Rússinn mallaði þetta í rólegheitum og geta hans var rómuð, enda voru drifkúlurnar miklu minni en í keppinautunum og fjaðrirnar ofan á hásingunum í stað þess að skaga niður undir þeim.

Og undir lægsta punkt á kvið bílsins voru 37 sm en aðeins 27 á Willys og Land Rover þess tíma. Og þegar farið var upp brekku voru þungahlutföllin betri á Rússanum, þyngdarmiðjan mun framar en á hinum, svo að hann gróf sig síður niður að aftan.

Ómar Ragnarsson, 19.12.2012 kl. 00:43

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Alltaf mikinn fróðleik að lesa í bloggi þínu Ómar.

Sennilega ferðu mjög nærri sannleikanum um Rússland og Rússa. Sjálfur hefi eg aðeins einu sinni til Rússlands komið. Það var um miðjan september 2008 að við vorum tæpar 5 tylftir íslenskra ferðalanga sólgnir í að skoða tré erlendis. Ferðinni var heitið til Kamtsjatka á ystu rönd þessa heimsveldis. Flogið var um 9 tímabelti frá Mosku og til Petropavlosk en ferðin tók aðra 9 tíma og eitthvað stundarfjórðung betur.

Kamtsjatka er rómað fyrir einstaka náttúrufegurð. Þar er margt áþekkt og á Íslandi, eldfjöll og jarðhiti. Þarna er mjög afskekkt, stærsta byggða bólið Petropavlosk er hafnarborg og reyndi á varnir borgarinnar 1854 þegar Rússum tókst að verjast sameiginlegum flota Breta og Frakka í svonefndu Krímstríði.

Nánast allur arður af atvinnurekstri var víðast hvar í Rússlandi sendur til Mosku til frekari uppbyggingar þar. Því eru þorp og bæir á Kamtsjatka eins og gamli Herskálakampurinn sem eg man vel eftir í bernsku minni. Var það nokkurs konar „nostralógía“ að berja þetta augum.

Þegar við Íslendingarnir komum til baka frá Síberíu var hrunið mikla að bresta á með ávarpi forsætisráðherrans: „Guð blessi Ísland“. Mér fannst dvölin austur í Síberíu vera nánast eins og himnaríki miðað við helvíti sem við blasti eftir vægast sagt einkennilega stjórn Sjálfstæðisflokksins í 17 og hálft ár. Kannski guð almáttugur geti stjórnað einhverju betur en dáðlausra ráðamanna, hvort sem er hér á landi eða austur í Rússíá eins og Böðvar Guðmundsson skáld nefnir Rússland í vísu nokkurri.

Guðjón Sigþór Jensson, 19.12.2012 kl. 08:47

4 identicon

Ford og hans menn voru trúlega sammála þér varðandi GAZ 69. Broncoinn þeirra var nánast jafn stór og Rússinn, en lengd milli öxla á Rússanum er 230 cm, en á Broncónum 92 tommur (233cm). Sporbreidd þeirra beggja um 144 cm og lengd beggja um 385 cm. Báðir voru með svipaðar afturfjaðrir þ.e jafn langar og staðsettar ofan á hásingunni. Broncóinn tók nýtt skref inn í framtíðina með gormafjöðrun á framhásingu. Þyngdardreifing og hæð þyngdarpunkts mjög svipuð á báðum bílunum.

þór (IP-tala skráð) 19.12.2012 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband