Ljómi yfir nafninu.

Bernhöftsbakarí hefur sérstakan ljóma í huga mér. Þar lærði afi minn, Edvard Bjarnason, iðn sína, en rak síðan eigið bakarí, Höfðabakarí, við Samtún og enn síðar Hlíðabakarí á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar.

Faðir minn, Ragnar Edvardsson, var sendill sem unglingur í Bernhöftsbakaríi en lærði síðan iðnina í Hlíðabakaríi og rak eigið bakarí eftir það, Nesbakarí við Nesveg og síðar Vogabakarí við Langholtsveg.

Á yngri árum vann Jónína dóttir okkar Helgu snemma á morgnana í Bernhöftsbakarí, þannig að þetta bakarí kom við sögu þriggja ættliða, en einn ættliður, ég sjálfur, datt út úr röðinni.

Það breytti því ekki að þeir voru margir vínarbrauðsendarnir, sem maður hámaði í sig í þessum bakaríum, svo margir, að stundum hef ég haft á orði að ég hafi öðrum þræði verið alinn upp á vínabrauðsendum.

Enda voru þeir góðir og ég segi stundum að síðan þá hafi ég ekki fengið önnur eins. Pabbi gat haldið langan fyrirlestur um það af hverju vínarbrauðin voru svona góð á hans dögum, bæði efnið í þau og umönnunin fyrir hverju einasta þeirra.  


mbl.is Bernhöftsbakarí borið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já þetta elsta bakarí landsins, gott ekki elsta fyrirtæki landsins sem hefur starfað síðan 1834, má ekki líða undir lok. Eg leyfði mér að draga saman dálítinn fróðleik: http://mosi.blog.is/blog/mosi/entry/1273293

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 19.12.2012 kl. 08:29

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég man vel eftir Kalla bakara, á rauðum Ford vörubíl -- var hann ekki árgerð ´46? Alltaf í góðu skapi með gamanyrði á vör. -- Aldrei með vínarbrauðsenda á þeim árum.

Sigurður Hreiðar, 19.12.2012 kl. 09:50

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Hlíðabakarí var við hliðina á Árnabúð, á horni Mikluabrautar og Lönguhlíðar. Þetta var stórmerkilegt bakarí. Yndislegur ilmur lék þar um vit viðskiptavinanna og gómsæt brauðin sátu uppi í hillu. Franskbrauðin voru með þykkri skorpu og lungnamjúk að innan. Ef við stákarnir eignuðumst aur kom fyrir að við keyptum eitt franskbrauð og átum það fyrst að innan, geymdum skorpuna þar til síðast. Normalbrauðin voru jafnvel enn betri. Skorpan svo þykk að það var hörkuvinna fyrir lítinn strák úr Barmahlíðinni að vinna á henni. Heilhveitibrauðin voru sögð hollust en þau voru samt ekki eins góð og hin brauðin. Þar með held ég að brauðtegundirnar hafi verið upptaldar, jú nú man ég eftir kúmenbrauðunum. Hlíðabakarí var eina bakaríið í Reykjavík, fannst mér. Hvorki man ég þó eftir afa Ómars eða föður hans enda rek ég aðeins minni til sjöunda áratugar síðustu aldar. Kennedy dó til dæmis þegar ég kom úr Hliðabakaríi. Allt hafði afleiðingar. Þarna afgreiddu bara vingjarnlegar konur sem hrópuðu; „Lokaðu hurðinni“, ef maður gleymdi því.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.12.2012 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband