Minnir á fannfergið árin 1993 - 96.

Fannfergið og snjóalögin á norðanverðu landinu minna óþyrmilega á svipuð veðurskilyrði hamfaraárið 1995. Þar er ekki aðeins um snjóflóðin og rafmagnsleysið að ræða, heldur fannfergi, sem ógnar byggingum eins og sést á tengdri frétt á mbl.is 

Ég minnist til dæmis fréttaferðar sem ég fór til þess að huga að störfum björgunarsveitarmanna á bæ einum í Dölunum, þar sem þurfti að koma bónda til hjálpar á svipaðan hátt og í Önundarfirðinum núna.

Árið 1995 var að vísu ekki eina árið með miklu fannfergi og snjóflóðum.

Tveimur árum fyrr féll meira að segja snjóflóð við Blönduós rétt norðan við byggðina og myndi einhver láta segja sér slíkt tvisvar nú.

Og snjóflóð á Seljalandsdal kostaði mannslíf 1994.

En um það snjóflóð og snjóflóðið á Blönduósi giltu ummæli norsks snjóflóðasérfræðings að þar sem landi hallaði og snjór gæti fallið gætu fallið snjóflóð.

Þvi miður var ekki nógu mikið mark tekið á ummælum hans og svissnesks snjóflóðasérfræðings í snjóflóðamiðstöðinni í Davos í Sviss sem fenginn var hingað til lands í kjölfar snjóflóðsins á Seljalandsdal.  

Árið eftir snjóflóðin á Súðavík og Flateyri féllu líka spýjur inn í efstu hús í Bolungarvík og varð það til þess að ég ók frá Stokkhólmi til Davos til að kynnast snjóflóðavörnum í því landi, sem hefur langa reynslu af því að fást við slík mál.

Hér heima var að mestu byggt á erlendri reynslu þegar hafist var handa við snjóflóðavarnir en því miður ekki að öllu leyti, og þar með farið á mis við mun ódýrari lausnir á einstökum stöðum hér á landi en á sambærilegum stöðum í Sviss.


mbl.is Þak að hrynja á fjósi með 70 gripum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband