5.1.2013 | 18:25
Erfitt að bregðast við í óvæntum tilfellum.
Það getur verið erfitt fyrir leigusala að bregðast við illri umgengni um íbúð sína. Þetta fékk ég að reyna fyrir 49 árum, þegar ég flutti úr lítilli íbúð á 12. hæð í Austurbrún til þess að taka á leigu stærri íbúð í kjallara við Sörlaskjól vegna stækkunar fjölskyldunnar og flytja þangað.
Ég ákvað að leigja út litlu íbúðina þangað til sá tími kæmi að ég hefði bolmagn til að kaupa stærri íbúð.
Ég datt niður á eins góðan leigjanda og hægt var að hugsa sér, vel stæðan miðaldra farmann sem var í burtu í 2-3 vikur í senn í Ameríkusiglingum og því aðeins í íbúðinni hluta af árinu.
Leið nú tíminn og allt gekk vel. Maðurinn greiddi leiguna skilvíslega og ekkert upp á hann að klaga.
Brátt kom að því að ég hugðist selja íbúðina. Ég tilkynnti manninum það með góðum fyrirvara í góðu samkomulagi og einnig það að ég myndi þurfa að sýna væntanlegum kaupendum íbúðina í góðu samráði við hann.
Mig grunaði ekkert misjafnt þótt það reyndist dálítið erfitt að hitta á tíma, sem hentaði leigutakanum, en loks náðist um það samkomulag.
Þegar ég kom með hina væntanlegu kaupendur til að skoða íbúðina, brá mér í brún. Þrátt fyrir góðan fyrirvara á skoðunartímanum og ætla hefði mátt, að sæmilega þrifalegt væri þar, kom annað á daginn.
Umgengnin var slík, að bæði ég og kaupendurnir vorum sem þrumu lostin. Greinilegt var að mikið hefði gengið á hjá leigjandanum og konunni, sem hann var kominn með upp á arminn, því að skemmdir voru á veggjunum líkt og einhverju hefði verið kastað í þá, blettir í teppum, megn ólykt og óhreinindi og drasl um allt.
Ég reyndi að bera í bætifláka við þetta og sagði, að þetta hefði ég ekki vitað, en eitt væri þó víst, að af svölunum þarna uppi á 12. hæð, væri óviðjafnalegt útsýni vestur yfir alla borgina. Það yrðu þau að sjá.
En þegar ég ætlaði að fara út á svalirnar var það eins og að fara úr öskunni í eldinn.
Kom í ljós að þar hafði verið hrúgað upp dúfnakofum, sem voru fullir af dúfum og lítt geðslegum dúfnaungum, og dúfnaskíturinn, drullan og lyktin slík, að þangað var ekki manni bjóðandi.
Það fauk í hina væntanlegu kaupendur sem fyrtust við og spurðu hvort ég væri að reyna að hafa þau að fifli. Varð fátt um kveðjur og ég tók íbúðina hið snarasta af söluskrá, því að ljóst var að mikið verk yrði að þrífa hana og mála og gera hana söluhæfa.
Þegar ég fór að grennslast fyrir um hvað hefði gerst hjá leigjandanum, var mér sagt að hann væri kominn með með óreglusama konu til sambúðar í íbúðinni og verið sagt upp vinnunni góðu.
Oft hefði verið háreysti í íbúðinni og partí.
Sem sagt: Líf og kjör mannsins góða höfðu tekið vinkilbeygju og tók talsvert stapp og tíma að koma parinu út.
Þegar dæmið var gert upp, var svo kostnaðarsamt að hreinsa út draslið og dúfurnar, mála, lagfæra og þrífa, að ég hafði beinlínis tapað á því að leigja íbúðina út.
Í svona málum getur verið erfitt fyrir leigusala að gera mikið í málum, því að slíku getur fylgt mikið málastapp, umstang og kostnaður.
Lögðu íbúðina í rúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar ég var í háskólanámi í Svíþjóð leigði ég út tvær íbúðir með húsgögnum hér í Reykjavík en það er erfitt að fjarstýra þannig útleigu.
Og ég leigði íbúð hjá félagi sem á þúsundir íbúða í Svíþjóð. Alltaf einhverjar íbúðir lausar hjá þeim en hér í Reykjavík slást mörg hundruð manns um hverja leiguíbúð.
Þorsteinn Briem, 5.1.2013 kl. 20:23
Það er bara þannig að það er ákveðin áhætta fólgin í því að leigja út húsnæði. Leigusalar þurfa að taka það með í reikninginn þegar húsnæði er leigt út og tryggja að allar upplýsingar um væntanlega leigutaka liggi fyrir til að lágmarka áhættuna.
Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 5.1.2013 kl. 21:17
Þetta er rétt hjá þér, Haraldur, enda tók ég tjónið af þessu á mig sjálfur.
Ómar Ragnarsson, 6.1.2013 kl. 02:29
Þetta skil ég ekki. Ég hef tekið íbúðir á leigu og ekki dætti mér í hug að ganga um þær eins og ég ætti þær. Maður á alltaf að ganga vel um, en ekki síst um eignir annara. Þetta er hrikalegt hvernig fólk sýnir öðrum jafn mikla óvirðingu með framferði sínu. Maður nánast reiðist.
Siggi Lee Lewis, 6.1.2013 kl. 07:47
Ekki myndi mig detta í hug allt svo.... ;) Veit ekki hvernig þetta kom út úr mér eiginlega. Einhver fljótfærni.
Siggi Lee Lewis, 6.1.2013 kl. 07:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.