8.1.2013 | 19:14
Þingmannseiðurinn er nauðsynlegur.
Af hverju sverja þingmenn eið að stjórnarskránni og þar með að fylgja aðeins sannfæringu sinni sem þingmaður en ekki neinna annarra svo sem fyrirmælum flokksins ef það stangast á við sannfæringu hans?
Það er af því að reynslan af öðru hefur verið slæm, svo sem þegar allir sem unnu fyrir nasista þurftu að sverja Adolf Hitler hollustueið.
Hins vegar geta framboð eða stjórnmálasamtök sett sér reglur varðandi stuðning frambjóðenda við stefnu viðkomandi flokks, en um leið og þeir frambjóðendur, sem kjörnir eru, setjast á þing, gildir þingmannseiðurinn.
Við getum rennt snöggt í gegnum íslenska þingsögu og séð af nokkrum dæmum, af hverju þetta er nauðsynlegt.
Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu á þingi fyrir flokkinn þegar þeir ákváðu að styðja ekki stjórn Ólafs Thors, formanns flokksins haustið 1944.
Vilmundur Gylfason sat á þingi þegar hann stofnaði Bandalag jafnaðarmanna og sagði skilið við Alþýðuflokkinn og boðvald hans.
Gunnar Thoroddsen, Friðjón Þórðarson, Pálmi Jónsson, Eggert Haukdal og Albert Guðmundsson viku frá stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar þeir ákváðu í febrúar 1980 að styðja stjórn Gunnars, verja hana vantrausti eða veita henni hlutleysi.
Albert Guðmundsson sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn vorið 1987 þegar hann stofnaði Borgaraflokkinn.
Jóhanna Sigurðardóttir sat á þingi fyrir Alþýðuflokkinn 1994 þegar hún stofnaði Þjóðvaka og sagði skilið við Alþýðuflokkinn.
Þeir, sem halda því fram, að allt þetta fólk hefði átt að sýna flokkunum, sem það klauf, skilyrðislausa hollustu og því ekki mátt víkja frá flokkslínunni, telja að stofnun fyrrnefndra framboða hefði ekki átt rétt á sér því að stefna flokksins eigi alltaf að ráða.
Á móti því kemur, að í flestum fyrrnefndra tilfella töldu þau, sem fóru úr flokkum sínum eða gegn stefnu þeirra, að flokkarnir hefðu svikið stefnu sína en ekki þau.
Verða að lýsa yfir stuðningi við stefnu Dögunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum."
Stjórnarskrá Íslands
Þorsteinn Briem, 9.1.2013 kl. 06:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.