Hinn algengi misskilningur varðandi "afsal ríkisvalds" í flugmálum.

Allir þeir, sem tengjast flugmálum á Íslandi, hafa frá árinu 1944 orðið að hlíta alþjóðlegum reglum í stóru og smáu í þeirri grein.

Aðild íslendinga að Chicagosáttmálanum 1944 og Alþjóða flugmálastofnuninni var fyrsta "afsal ríkisvalds" okkar á sviði flugmála og það er óhugsandi að neitt flug sé stundað á Íslandi án þess að taka þátt í þessu alþjóðlega samstarfi eða hlíta reglum, sem það setur.

Ef við drægjum okkur út úr því myndi allt flug til og frá landinu leggjast niður. Allar Evrópuþjóðir nema tvær á Balkanskaga eru og hafa verið undanfarna áratugi aðilar að EASA, flugöryggismálastofnun Evrópu.

Þessar tvær Balkanþjóðir hafa kosið að vera ekki í EASA ekki af því að þar starfa ekki flugfélög, sem keppa á alþjóðlegum markaði. Þær hlíta hins vegar reglum IACO, afsakið ICAO, annað er óhugsandi.

Hér á landi eru hins vegar starfandi flugfélög, sem stunda flug á alþjóðlegum markaði og geta það ekki nema að Ísland sé aðili að EASA.  

Nú heyrast háværar upphrópanir eins og "takk, Jóhanna, Össur og Steingrímur!" þegar reglur EASA skapa nýtt ástand hér á landi varðandi Landhelgisgæsluna og fylgir með í þessum upphrópunum að þetta sé liður í "aðlögunarferlinu" varðandi aðildarumsókn okkar að ESB. 

Þetta eru fráleitar upphrópanir, eins og sést best af því að þjóðir eins og Sviss og Noregur eru ekki í neinum aðildarviðræðum en verða þó að gangast undir reglur EASA og Alþjóða flugmálastofnunarinnar. 

Raunar hefur, allt frá 1944,  stór hluti íslensks flugreksturs orðið að hlíta reglum FAA, Bandarísku flugmálastjórnarinnar varðandi viðhald og rekstur þeirra íslensku flugvéla og flugvélahluta, sem framleiddir eru í Bandaríkjunum og auk þess fjölmörgum bandarískum reglum um flug.

Þeir, sem hrópa nú hátt um það að við segjum okkur úr lögum við EASA og jafnvel Alþjóða flugmálastofnunia eru að krefjast þess í raun, að allt flug til og frá Íslandi verði lagt niður og þar með ferðalög 600 þúsund erlendra ferðamanna til og frá landinu sem og ölll sú milljarðatuga starfsemi flugfélaga, flug og viðhald, auk umfangsmikillar flugstjórnarstarfsemi sem stunduð er hér á landi.

Það myndi líka leggja allt flug innanlands í rúst, því að öll ferðaþjónusta með útlendinga innanlands myndi einnig leggjast niður. 

Þegar "afsal ríkisvalds" á þessu sviði hófst var Jóhanna Sigurðardóttir tveggja ára og Össur og Steingrímur ekki fæddir en engu er líkara en að sumir Íslendingar vilji færa klukkuna aftur fyrir þann tíma í stað þess að sætta sig við og vinna úr þeim viðfangsefnum sem gjörbreyttur heimur færir okkur. 

Heyra má raddir um það að við eigum að ganga úr EASA en halda kannski í Alþjóða flugmálastofnunina og hafa þetta eins og Svartfellingar.

Það jafngildir því að flytja milljarðatuga flugstarfsemi okkar úr landi til einhvers annars lands innnan vébanda EASA, til dæmis Sviss eða Noregs, sem hvorugt er í ESB og því síður í samningaviðræðum um inngöngu. 

Kjarni málsins er sá, að það er fyrst og fremst hér innanlands, sem vinna verður þannig úr málum, að ekki komi til klúðurs eins og þess sem nú virðist hafa átt sér stað varðandi Landhelgisgæsluna. 

Alþjóðlegt regluverk austan hafs og vestan snertir smátt og stórt. p1010702_1.jpg

Á myndinni hér að ofan sést til að mynda fyrirbæri, bæði staðurinn, bílarnir og flugvélarnar, sem háðar eru alþjóðlegum kröfum og reglum.

Hinn náttúrugerði Sauðárflugvöllur á Brúaröræfum, sem ég er ábyrgðarmaður og umsjónarmaður að,- jafnvel hann verður, þarna langt inni á öræfum, að standast tilskildar reglur um búnað, merkingar, aðstæður og rekstur, og ég og aðrir flugvélaeigendur höfum orðið að glíma við nýjar reglur EASA varðandi minnstu flugvélarnar, sem tóku gildi í hitteðfyrra og ollu erfiðleikum fyrir okkur. img_4629_1186576.jpg

Þessar síðastnefndu reglur um viðhald litlu flugvélanna hafa valdið gríðarlegri óánægju um alla Evrópu og verður þeim vonandi breytt. Við Íslendingar þurfum þar að þrýsta duglega á varðandi algera sérstöðu þessa flugs hér úti á eyju langt norður í höfum.

Við lifum á árinu 2013, ekki 1938, þegar aðeins var hægt að komast siglandi til íslands og Agnar Koefoed-Hansen fann þetta flugvallarstæði, merkti það og skrifaði Halldóri bónda á Brú bréf þess efnis að hann fengi að nota þennan nýfundna lendingarstað. 

P. S. Nú síðdegis sé ég að Landhelgisgæslan hefur sent út fréttatilkynningu um að fréttin um meint vandræði Gæslunnar vegna ákvæða reglna EASA sé á misskilningi byggð ! 


mbl.is Þyrlubjörgun á hafi í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ísland á aðild að fjölmörgum alþjóðastofnunum þar sem teknar eru ákvarðanir um sameiginleg markmið og reglur sem aðildarríki eru skuldbundin til að innleiða og hafa æ meiri þýðingu að innanlandsrétti.

Stór hluti íslenskra réttarreglna á uppruna sinn í alþjóðaskuldbindingum
og þannig eru áhrif þjóðaréttarins og alþjóðasamstarfs á íslensk lög og réttarskipan ótvíræð."

Þjóðaréttur, Björg Thorarensen og Pétur Dam Leifsson, 2011, bls. 12.

Þorsteinn Briem, 9.1.2013 kl. 05:56

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nú þekki ég ekkert til flugrekstrar Ómar, en veit að þú ert með fróðari mönnum á því sviði.

Í hverju felast þessar reglur sem banna flug björgunarþyrlanna út fyrir 12 mílurnar?

Ganga þessar reglur yfir allar þjóðir sem eru í Alþjóða flugmálasambandinu, eða eingöngu innan EASA?

Hvað þarf til að uppfylla þessar reglur?

Eru þessar reglur eitthvað tengdar þeim reglum um eftirlit og viðhald einkaflugvéla, sem mér skilst að sé að leggja niður allt einkaflug á Íslandi?

Ég spyr þig vegna vankunnáttu minnar á þessu máli og vona að þú getir svarað einhverjum af þessum spurningum. Ekkert kemur fram í fréttinni um hvað þarna er í raun í gangi.

Gunnar Heiðarsson, 9.1.2013 kl. 06:27

3 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Eins og þetta er að hljóma Ómar þá er þetta bull, að það sé hægt að setja okkur Íslendinga í þá stöðu að við sjálf getum ekki bjargað okkur sjálfum eða öðrum ef á þarf að halda úti fyrir 12 mílna lögsögu er óhæfa og ef að Ríkisstjórnin er svo máttvana í að hafa okkar Íslendinga hag framyfir Alþjóða reglur eða lög þarf hún að fara...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 9.1.2013 kl. 09:23

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Án þess að hafa skoðað málið til hlítar held ég að þetta upphlaup muni reynast stormur í vatnsglasi.

"State aircraft" falla vissulega ekki innan JAR-reglna, og raunar ekki heldur innan ramma Chicago sáttmálans sem fjallar um réttindi borgaralegs flugs (civil aviation). Það getur verið kostur fyrir LHG því þar með falla áhafnir þeirra væntanlega ekki undir ákvæði um hvíldartíma JAR reglna, og stofnunin getur hugsanlega nýtt áhafnir betur. Þar að auki þarf stofnunin væntanlega ekki að uppfylla viðhaldsreglur EASA vegna "state aircraft", né lúta eftirliti þess. Það er svo álitamál hvort allt þetta sé kostur þegar litið er á heildarmyndina.

Að því að ég best veit er allt hafsvæði utan 12 mílna landhelginnar alþjóðlegt hafsvæði (þ.e. high seas eða international waters) þar til að næstu 12 mílna landhelgismörkum er náð, og ég tel víst að á þessu svæði megi flugför LHG fljúga í hvaða erindum sem er, samkvæmt alþjóðasamningum, alveg eins og t.d. herskip mega sigla um heimsins höf (þ.e. high seas) svo framarlega þau fari ekki inn í landhelgi annars ríkis án leyfis. Að mínu viti hefur EASA ekki lögyfirráð yfir alþjóðlegu hafsvæði og ég tel víst að EASA geti ekki bannað neina flugumferð LHG yfir alþjóðlegu hafsvæði, t.d. björgunarflug, þó flogið sé innan stjórnaðs loftrýmis. Ég á ekki von á öðru en að flugför LHG verði í sambandi við flugstjórnarmiðstöðvar á sínu flugi hér eftri sem hingað til.

Ég efast um að stjórnendur LHG hafi ekki verið búnir að skoða þetta atriði vel áður en ákvörðun var tekin. Langflestar ákvarðanir þeirra varðandi verkefni og rekstur flugflotans hafa miðað að lækkun rekstrarkostnaðar og ég tel líklegt að slík sé raunin í þessu tilviki. Stærri spurning lítur að stöðu tryggingarmála og í raun held ég að það atriði sé uppspretta fréttarinnar. Þetta skýrist þó væntanlega innan skamms.

Erlingur Alfreð Jónsson, 9.1.2013 kl. 09:50

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hahaha. þetta er bráðfyndið. Auðvitað flúgum við bara eins og okkur sýnist og spyrjum hvorki kóng né prest að því.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.1.2013 kl. 10:24

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. þetta er í raun áhugaverð ,,frétt" hjá mogga sem eg hefði ekki tekið eftir nema vegna þessa bloggs.

Hugmyndin er augljóslega að koma því að að vegna ,,aðlögunnar" að EU hafi þau vonda Jóhanna og illi SJS ,,afsalað fullveldi".

Og innbyggjar kolfalla fyrir þessu.

Innbyggjar ná eigi upp í nef sér vegna þessa fullveldisafsals.

Í framhaldi vilja þeir að íslendingar fái barasta að fljúga eins og þeim sýnist útum allan heim! Næst heimta þeir að opnaður sé gluggi á flugleiðum svo þeir geti fengið sér ferskt loft.

þetta er alveg sama þjóðrembingsbelgings viðhorfið og viðhorfið gagnvart íslenskum bönkum. þeir máttu bara gera það sem þeim sýndist! Svíkja og pretta vonda útlendinga og valda árekstrum og slysum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.1.2013 kl. 11:35

7 identicon

Prentvilla hjá Ómari; ICAO, en ekki IACO.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.1.2013 kl. 11:38

8 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta ætti að minna okkur á það, sem ég held að allt of fáir skilji: Flest allir alþjóðasamningar fela í sér afsal á fullveldi í hendur útlendra, óskyldra manna með öðru vísi hugmyndir og áherslur. Oft eru slíkir alþjóðasamningar óhjákvæmilegir og í raun jákvæðir, en því skal aldrei gleyma að með undirskrift erum við yfirleitt að afsala okkur valdi yfir okkar eigin landi, þegnum og málefnum að einhverju leyti

Vilhjálmur Eyþórsson, 9.1.2013 kl. 17:31

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þegar af þessum sökum er allt tal um ,,fullveldisafsal" í sambandi við þennan blessaða ESB samning bara tómt blaður útí loftið.

Málið er þetta: ,,Fullveldi" landa og svæða í skilningi fyrstu árana eftir 1900 er ekki til. Íslenska útgáfan af þessari vinsælu teoríu á sínum tíma er ekki til! Íslenska útgáfan var helber útópia og nánast trúarlegs eðlis þar sem ísl. kynstofninn átti að verða öllum æðri og landinu lyft á tilbeiðslustall. Bara ákv. útgáfa á trú.

þessari trú var svo innprentað í innbyggjara í gegnum áratugina og augljóslega eru þó nokkrir innbyggjar hérna þessar trúar enn þann dag í dag. þó ótrúlegt sé á upplýsingaröld.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.1.2013 kl. 17:44

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Haukur. Tók ekki eftir þessari innsláttarvillu og leiðrétti hana.

Ég játa það fúslega að ég þekki ekki þetta sérstaka mál vegna Landhelgisgæslunnar, enda fjallar pistill minn almennt um aðild okkar að EASA og ICAO.

Úrskurðir erlendra alþjóðastofnana, sem við eigum aðild að, hafa oft komið sér vel bæði innan lands og erlendis.

Það má geta þess, að þegar við færðum landhelgina úr 3 mílum í 4 1952 og lokuðum flóum og fjörðum, gerðum við það á grundvelli alþjóðareglu, sem úrskurður Alþjóðadómstólsins í Haag í deilu Breta og Norðmanna, hafði skapað og löngu tímabærar réttarbætur í dómskerfi okkar komu í kjölfar úrskurðar Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

En stundum bitna á okkur skrifræði og reglur, sem ekkert tillit taka til sérstöð lands og örþjóðar á ysta hjara og því þurfa innlendir embættismenn að halda vöku sinni og berjast fyrir sanngjörnum undanþágum þegar þeirra er þörf og hægt að ná þeim fram. 

Ómar Ragnarsson, 9.1.2013 kl. 19:29

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Miðvikudagur 9. janúar 2012

Landhelgisgæslan vill koma á framfæri að þær upplýsingar sem fram hafa komið nú í fjölmiðlum um takmarkanir Landhelgisgæslu Íslands til flugs eru á misskilningi byggðar.

Ekki eru neinar takmarkanir á heimildum Landhelgisgæslunnar til flugs og staðan því óbreytt.
"

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um takmarkanir Landhelgisgæslu Íslands til flugs

Þorsteinn Briem, 9.1.2013 kl. 19:43

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér að ofan á 9. janúar 2012 að vera 9. janúar 2013 (í dag).

Þorsteinn Briem, 9.1.2013 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband