Tímamótamál í Evrópu.

Sprenging stíflunnar í Miðkvísl efst í Laxá 1970 var tímamótagerningur í náttúruverndarbaráttunni í Evrópu og er enn einstakur viðburður í sögu hennar.

Þegar ég stend uppi á Mývatnsflugvelli með kort og sýni fólki, sem horfir þaðan vestur yfir Mývatn, hvernig menn ætluðu í fúlustu alvöru að framkvæma svonefnda Gljúfurversvirkjun, sökkva Laxárdal, taka Skjálfandafljót úr farvegi sínum, drepa fossana í fljótinu, þar með Aldeyjarfoss og Goðafoss, og veita því um miðlunarlón, sem yrði stærra en Mývatn, í Kráká og Laxá, trúa þeir þessu ekki, svo fáránlegt sýnist þetta núna. 

Þó hefði þessi framkvæmd ekki valdið meiri óafturkræfum umhverfisspjöllum en Kárahnjúkavirkjun aldarfjórðungi síðar, en umhverfisspjöll hennar voru mun stórfelldari og er auðvelt að færa rök að því.

Og munurinn var sá, virkjanamönum 1970 í vil, að þá var stundum rafmagnslaust á Akureyri og Norðurlandi dögum saman á veturna vegna ófullnægjandi virkjunar og virkjunarsinnum því meiri vorkunn en 25 árum síðar þegar Íslendingar framleiddu miklu meira rafmagn en þurfti til eigin nota. 

Þótt Laxárdeilan væri hörð og mönnum mikið fyrir á báða bóga, gátu menn þó séð spaugilegar hliðar á málinu.

Hermóður Guðmundsson var einn af glæsilegum forystumönnum þingeysks náttúruverndarfólks 1970 og gerð var um hann þessi vísa:

Hermóður af höfðingsskap

hallar sér að konum.

Það myndast ekki mikið krap

í miðkvíslinni á honum.

Nú er byrjað á framkvæmdum við allt að þrítugfalt stærri virkjun í Bjarnarflagi en þar er nú, aðeins 2,8 kílómetra frá byggðinni og innan við fjóra kílómetra frá vatninu sjálfu.

Og spurningin er: Hvað hefðu forystumenn þeirra, sem risu upp 1970, gert núna?  

 


mbl.is Eina íslenska hryðjuverkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Mývatnssveit er krapið kalt,
í karlabrókum öllum,
perlur fá og eldvatn allt,
frá afar ljótum köllum.

Þorsteinn Briem, 12.1.2013 kl. 03:02

2 identicon

Hehe, þessi var ágæt.

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 07:32

3 identicon

Gljúfurversvirkjun er án efa ein versta útfærsla á virkjun sem fram hefur komið.

Vert er að minna á að Laxárdeilunni er í raun ekki lokið ennþá. Landsvirkjun dreymir enn um að fá að hækka stífluna og inntaksfrágangur í Laxárvirkjun er hálfkaraður og ómögulegur með öllum þeim rekstrarvandamálum sem því fylgja.

Hófleg og vel út færð Bjarnarflagsvirkjun er óvitlaus.

Það er hinsvegar með öllu óskiljanlegt að Mývetningar og sveitarstjórn skuli ekki hafa þann manndóm að setja virkjunaraðila þau skilyrði að fylgja ítrustu kröfum um mengunarvarnir.

Held að þetta sé hræðsla við að samfélagið sé á síðasta snúning og ekki hættandi á að fæla LV í burtu eða taka enn eina innansveitar rimmuna.

-Kanski á "andinn ekki lengur óðul sín" á þessum slóðum lengur eða þá að náttúran er mönnum ekki jafn "kær og hjarta bundin" og áður.

Árið 1970 var umtalsverð samstaða í sveitinni um að vera á móti Gljúfurversvirkjun. Í dag er ekki einu sinni samstaða um að setja þáð skilyrði fyrir Bjarnarflagsvirkjun að tryggt sé að loftgæði í grunnskólanum séu tryggð!

Sennilega hefur þetta eitthvað að gera með það að gera hverjir fluttu að heiman og hverjir sitja eftir...

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 12:12

4 identicon

Mývetningar og margir aðrir syngja "Blessuð sértu sveitin mín" á hátíða og helgistundum.

Það hefði einhvern tíman þótt tíðindum sæta, að kominn væri holur hljómur í inntak kvæðisins þegar það er sungið í Mývatnssveit.

Brottfluttur (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 14:39

5 identicon

Leiðrétting:

"andinn ekki lengur óðul sín" -Bið lesendur afsökunar á orðinu "lengur" sem ekki á heima í þjóðsöng Mývetninga.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 14:48

6 identicon

Hver orti vísuna um Hermóð í Nesi? Hef heyrt hana, en aldrei höfundarins getið. Held reyndar að hann hafi svo sem ekki verið nema við eina konu kenndur; Jóhönnnu Á. Steingrímsdóttir sem var frá Nesi í Aðaldal; mikil kjarnorkukona, rithöfundur og fleira. Tók við hana viðtal einhverju sinni, gagnfróð kona sem bar mikla persónu. Var raunar sögð hafa verið potturinn og pannan í aðgerðunum við Laxá árið 1970; stóð baksviðs en var áhrifamikil. Birti hér slóð á viðtalið við Jóhönnu. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=185996&pageId=2420917&lang=is&q=Nesi%20%ED%20A%F0aldal

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 12.1.2013 kl. 23:01

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þori ekki að fara með það hver orti þessa frábæru vísu. Mér datt á sínum tíma helst í hug Egill Jónasson á Húsavík, því að hún ber höfundareinkenni hans, landskunn hnyttni og húmor.

En á þessum tíma skartaði þetta hérað mörgum mjög góðum hagyrðingum, og fóru mikinn á skemmtunum "fjórmenningarnir" svonefndu,  Egill Jónasson, Karl Kristjánsson, Steingrímur í Nesi og Baldur á Ófeigssstöðum.  

Ómar Ragnarsson, 12.1.2013 kl. 23:52

8 identicon

Eitthvað held ég að hann afi minn myndi segja við framkvæmdunum í Bjarnarflagi. En ekki skil sinnuleysi Mývetninga í þessu máli, ljóst þykir mér að brennisteinsmengun frá virkjuninni mun hafa gífurlega áhrif á lífríki Mývatns.

Ari Hermóður Jafetsson (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband