Tvisvar á ári ?

Ekki er liðið nema hálft ár síðan fólk taldi sig hafa séð ísbjörn og ísbjarnarspor á Vatnsnesi, sem síðar reyndist vera selur á sundi og spor eftir fólk í sandinum.

En áður en þetta lá fyrir var búið að senda þyrlu til ísbjarnarleitar á svæðið auk annarrar leitar. 

Þegar þeir, sem sóttust eftir þvi að handsama Gísla Súrsson í Hergilsey og/ eða drepa hann, sáu fyrst Ingjaldsfíflið, sem Gísli líkti eftir í báti með Bóthildi ambátt, og síðan Ingjaldsfíflið sjálft í landi að bíta gras mælti Börkur hinn digri: "Bæði er nú að mikið er sagt frá Ingjaldsfíflinu og deilist það víðar en við hugðum", og sneru leitarmenn við og eltu Gísla og Bóthildi. 

Svipað mætti segja um  ísbjörninn, sem ferðamenn grunar að sé við Arnarstapa á Snæfellsnesi, vegna þess að spor í snjónum séu eftir ísbjörn: "Bæði er nú að mikið sagt frá ísbirninum og deilist hann nú víðar en við hugðum." 

Ég hygg að í samanlagðri sögu landsins hafi aldrei frést af ísbirni á þessum slóðum og báðar ísbjarnarsögurnar með aðeins hálfs árs millibili því álíka vitlausar.

En með sama áframhaldi ganga tveir ísbirnir á land á hverju ári framundan á sama tíma og hafísinn hefur ekki verið fjær landi eða minni í Norður-Íshafinu í 15 ár. 

 


mbl.is Tilkynntu „bangsaspor“ til lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Út um allt er bjarnablús,
bangsar víða þramma,
sporin eftir myndarmús,
mýslan er með hramma.

Þorsteinn Briem, 12.1.2013 kl. 09:27

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Árið 1610. Vetur harður og langhríðarsamur. Þá kom hafís fyrir sunnan (líklega frá Austurlandi) og var mikill selfengur á; þá var björn unninn í Herdísarvík."

"Árið 1615. Rak inn ís fyrir norðan land á þorra og kringdi um alt land, hann rak ofan fyrir Reykjanesröst og um Voga og fyrir öll Suðurnes, engir mundu ísrek skeð hafa sunnan fyrir röst; var þá seladráp á ísi um Suðurnes.

Hafísinn var svo mikill fyrir sunnan, að ekki varð róið fyrir sunnan Skaga (þ. e. Garðskaga) og drukknuðu á honum tveir menn er fóru að seladrápi. Þá brotnuðu hafskip víða í ísi.

Bjarndýr
gengu víða um land, en gerðu þó ei mein, mörg voru unnin fyrir sunnan og austan, eitt var drepið á Hólum í Hjaltadal. Fyrir norðan lá ísinn til fardaga."

"Árið 1745. Hafís var þá fyrir öllu Norðurlandi og rak inn á hvern fjörð og nálega komu ísar kringum alt land; hafís rak þá einnig fyrir Suðurland.

Undir jólin lagði lagnaðarís fram að hafísnum og fraus saman við hann. Þá komu 4 eða 5 bjarndýr á ísnum nyrðra og voru 2 eða 3 unnin, einnig voru 5 bjarndýr drepin um vorið í Skaftafellssýslu."

"Árið 1881. Þegar í miðjum janúar var ísinn kominn fyrir Múlasýslur, 17. janúar á Berufjörð; rak ísinn inn á alla firði eystra og fraus saman við lagnaðarísinn. Hafísinn rak líka fyrir Skaftafellssýslur og var kominn fyrir Hornafjörð 19. janúar.

Fyrir Meðalland rak fyrst íshrafl um janúarlok en síðan kom hella mikil, sem ekki sást út fyrir, náði ísbreiða þessi út á 30-40 faðma dýpi fyrir Meðallandi og stóð þar við í viku, fór burt 14. febrúar; af ís þessum gengu 3 bjarndýr á land í Vestur-Skaftafellssýslu, eitt í Núpsstaðaskóg, annað á Brunalandi og hið þriðja í Landbrot."

"Árið 1882. Hafísár. Mikill hafís fyrir norðan og austan land. Þrjú bjarndýr voru skotin inni í botni á Berufirði en annars urðu menn óvíða varir við bjarndýr þetta ár."

Þór Jakobsson - Um hafís fyrir Suðurlandi

Þorsteinn Briem, 12.1.2013 kl. 11:02

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

4.5.2011:

"Bandarískir vísindamenn hafa staðfest ótrúlegt sundþrek ísbjarna en þeir fylgdust með birnu synda látlaust nærri sjö hundruð kílómetra á níu dögum án þess að nærast. Þetta sýnir að ísbirnir geta synt milli Íslands og Grænlands, fram og til baka, án þess að stoppa.

Vísindamenn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar birtu niðurstöður sínar í janúar en þeir svæfðu ísbjörn á strönd við Beaufort-haf norður af Alaska og settu á hann hálsól með GPS-sendi og nema sem greindi hvort björninn var í vatni eða á þurru.

Þeir urðu síðan vitni að ótrúlegu sjósundi en björninn synti samfellt 687 kílómetra í tveggja til sex stiga heitum sjó á níu dögum án þess að nærast."

Ísbjörn synti látlaust 700 kílómetra á níu dögum

Þorsteinn Briem, 12.1.2013 kl. 11:32

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvítabjörninn er það dýr jarðar sem ég dáist mest að.

Ómar Ragnarsson, 12.1.2013 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband