16.1.2013 | 15:15
Ótíðindi: Jarðýturnar og stóriðjuhraðlestin af stað í Eldvörpum í júní !
Ótíðindi berast strax tveimur dögum eftir að veiðileyfi hefur verið gefið á gígaröðina Eldvörp suðvestan við Svartsengi:
Samkvæmt tilkynningu frá HS orku bruna jarðýturnar af stað í Eldvörpum í júní næstkomandi og byrja á því verki að ryðjast yfir fornar þjóðleiðir, fornminjar og ósnortið hraun til að umturna einni af örfáum gígaröðum landsins af þessari gerð (18 gígar), og þarf að fara allt austur í Lakagíga eða norður í Mývatnssveit til að finna aðrar slíkar.
Og slíkar gígaraðir finnast ekki í öðrum löndum.
Samkvæmt úttekt Fréttablaðsins fyrir jól eru þessi hervirki fyrstu aðgerðirnar í "tímalínu" þess að 360 þúsund tonna risaálver rísi í Helguvík:( Fulltrúi Norðuráls hefur viðurkennt að minni endanleg stærð komi ekki til greina)
1. Tilraunaboranir í Eldvörpum.
2. Jarðvarmavirkjun í Eldvörpum.
Talað er um 50 megavatta virkjun sem mun flýta fyrir því úr 50 árum niður fyrir 40 ár að tæma alveg allt sameiginlega orkuhólfið, sem er undir Svartsengi og Eldvörpum, þ. e. auka rányrkjuna!
Þetta er þó aðeins 7,7% af orkuþörf álversins og vantar 600 megavött upp á að mæta orkuþörf þess.
Af hverju er þá verið að þessu? Jú, til að þvinga af stað ferli, sem endar með virkjanakeðju, sem njörvar allann Reykjanesskagann niður og endar ekki fyrr en norður á Sprengisandi.
Og þegar öll jarðvarmaorkan í þessari keðju verður búin eftir 40 -50 ár verður afkomendum okkar stillt upp við vegg og sagt við þá: Nú verðum við að bæta þetta upp með því að taka Bitru, Grændal, Kerlingarfjöll og Landmannalaugasvæðið.
Var einhver að tala um rammaáætlun til framtíðar, um sjálfbæra þróun, jafnrétti kynslóðanna?
Nei, marklaus rammaáætlun, rányrkja og misrétti kynslóðanna skal það verða.
P. S. Virkjanir við Hverahlíð og Gráhnúka hefðu orðið skárri hvað snertir umhverfisáhrif og rask á náttúrunni. En þetta snýst ekki um það hvað sé skást fyrir náttúruna, heldur um hagsmuni fyrirtækjanna, sem ráða ferð. OR er með Hverahlíð og Gráhnúka en HS orka með Eldvörp.
Athugasemdir
Hverjum finnst þetta bara alveg ágætt?
Arna (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 15:33
Rammaáætlun var ætlað að ná sátt um virkjanakosti. Friðunarfólk fékk meira en rammaáætlun sagði til um... samt engin sátt úr þeirri átt.
Hver sá það fyrir?
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.1.2013 kl. 15:37
Þetta "meira en rammaáætlun sagði til um..." eins og þú talar um, Gunnar, var bara sá gálgafrestur sem virkjanafiklarnir telja biðflokkinn verða.
Síðan er reginmunur á verndarnýtingu og orkunýtingu:
Orkunýting svæðis kemur í veg fyrir að verndarnýting þess svæðis geti síðar orðið að veruleika.
Verndarnýting svæðis kemur ekki í veg fyrir að síðar verði ákveðið að virkja þar.
Grunnaðferðin í rammaáætlun er góð. En um notkun hennar gildir samt ameríska orðtakið: garbage in - garbage out, þ. e. ef rusl er sett inn kemur rusl út.
Ómar Ragnarsson, 16.1.2013 kl. 15:46
Enn og aftur er verið að virkja fyrir atvinnuuppbyggingu á Reykjanesinu... Þrátt fyrir allt það sem hingað hefur þeim verið gefið á að virkja fyrir reyknesinga flytja orkuna burt úr viðkomandi landsfjórðungum til að skeina upp eftir stjórnmálamenn þeirra... Sem reyknesingar kusu yfir sig æ ofaní æ... N.b...!
Hvenær á t.d að nota orkuna til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi...?
Væntanlega aldrei, því hún er "frátekin" fyrir aulana útá nesi sem kunna, og það er sögulegstaðreynd, EKKERT með peninga að fara...!?!
-
Einsog með starfsfólk í fjármálageiranum sem hefur brotið af sér... Er ekki kominn tími á að binda það í lög að ef viðkomandi stjórnmálamaður skilar af sér rekstrarhalla á sveitarfélagi sem hann er í forsvari fyrir og/eða ríki, að hann verði gerður ábyrgur gjörða sinna með því að banna viðkomandi að bjóða sig fram aftur í t.d þrjú kjörtímabil á eftir...???
Það gerðist þá ekki annað en að vanhæfnin þurkaðist út...!
Sævar Óli Helgason, 16.1.2013 kl. 16:00
Þetta eru náttúruspjöll á heimsmælikvarða.
Það ætti einhver að þýða þetta á Ensku og boða occupyhreyfinguna á staðinn!
Arna (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 17:31
Eigum vid ad vona ad their hitti á nafna sinn tharna nidri???
Magnús Hlynsson (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 20:09
Eldvörp eru í næsta nágreni við Blá lónið og því lýkur á að samtengingu hitaorkunnar. Ekki er ólíklegt að ráðuneytið setji skilyrði fyrir borun við Eldvörp. Því verður varla trúað að leyft verði að bora alveg við þessa fallegu eldgíga. Tilraunaholan frá 1983 er alveg við gígfótinn á fallegasta gígnum. Þá verður og að taka tilit fornminja.
Hellir er við Eldvörp og stígur að útilegumannabyggð. Þar á meðal friðlýstar minjar frá árinu 1930. Agnes Stefánsdóttir hefur skráð forminjar við Eldvörp. Hún segir:
"Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora við Eldvörp árið 1982 fannst óvænt hellir með mannivistarleifum. Þegar verið var ganga frá umhverfi borholunnar brotnaði hellisþakið undan gröfunni. Í hellinum eru hleðslur sem túlkaðar hafa verið sem minjar eftir útilegumenn. Hellirinn var um 30 m langur og allt að 6 – 8 m breiður. Hæð hans er
mest 1,5 metrar, en víðast mun lægri. Hefur þurft að skríða um hann fjórum fótum að mestu. Tvö op fundust inn í hellinn, annars vegar náttúrulegt op í hraungangi sem liggur norður af aðalhellinum, og hins vegar manngert op í lofti aðalhellisins. Hvorugan þennan inngang var hægt að greina að utanverðu nema fyrir þann sem
vissi af þeim. Upp í opið í þakinu hafði verið hlaðið grjóti að utanverðu, greinilega í þeim tilgangi að fela opið.
Vestan við Eldvörpin hafa á síðari árum fundist fleiri svipaðar menningarminjar. Tvær tóftir eða byrgi svipuð þeim sem eru í útilegumannabyggðinni í Grindavíkurhrauni, sem lýst er hér að framan, auk hleðsla í helli nokkra tugi metra frá byrgjunum.
Hellirinn er alveg við borholuna í Eldvörpum. Búið er að gera tröppur niður að honum beggja vegna og hlaða upp vegg utan við hann, borholumeginn. Í sjálfum hellinum er afar lágt til lofts, þ.e.a.s. í þeim hluta sem enn er undir þaki. Hluti þaksins hrundi þegar verið var að ganga frá umhverfi borholunnar. Hleðslurnar í hellinum mynda
alla vega eitt hólf, sem ekki er mikið meira en 1 meter á breidd."
Borhola var gerð við Bitru, en þá vöknuðu menn af draumi og sáu að komið var í óefni. Gengið of langt. Ekki er ólíklegt að menn vakni til vitundar nú með Eldvörpin og slái skjaldborg um þessi náttúruundur.
Sigurður Antonsson, 16.1.2013 kl. 21:21
Sem stendur er engin forsenda fyrir auknum stóriðjuframkvæmdum á Íslandi. Í fyrsta lagi þá er áhugi stóriðjufyrirtækja í lágmarki nema stjórnvöld sýni einstakan áhuga og veiti góða fyrirgreiðslu og skilning gagnvart stóriðjufurstum. Líklegt er að undirlægjuhátturinn sé þegar undirbúinn.
Innan lögsagnar Evrópusambandsins verða stóriðjumenn að kaupa mengunarkvóta. Feamsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vill gefa eftir þennan mengunarkvóta sem er um 25 evrur á hvert tonn CO2. Spurning hvort þessir flokkar áskilji sér hluta af þessu gjaldi sem þóknun í eigin þágu.
Þá er endurvinnsla þegar hafin í BNA á einnota áldollum sem mun ekki nema aukast þegar fram líða stundir. Það eru mörg spurningarmerki um þessi mál.
Því miður hefur undirlægjuhátturinn verið mikill gagnvart stóriðjunni. Við vitum því miður ekki hversu mikið álfurstar láta fé af hendi í þágu þeirra sem vilja sýna hagsmunum þeirra skilning.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 16.1.2013 kl. 21:37
Annað hvort gerum við, eða við gerum ekkert.
Stundum þarf að fórna til að afla.
Ísland er ungt land, allt er þetta breytingum háð, hvort orkan geymist eða ekki veit engin, nýta orkuna núna eða seinna veit engin hvort sé rétta leiðinn, of lítið vitum við um okkar jörð.
Verðum að prufa okkur áfram með öllum þeim göllum sem fylgir, alveg eins og barnið sem prufar allt með tungunni.
Benedikt (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 21:51
Þetta er vasaútgáfa af lakagígum þannig séð, og gefur Reykjanesinu alveg geggjaðan vinkil á túrisma. Eru menn blindir þarna á skaganum eða hvað?????
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 22:45
Ómar, mér sýnist þú berjast út í hið óendanlega gegn hverskonar virkjunum. Allt er einstakt, líka það sem á sér víða hliðstæðu hér á landi. Þið öfgasinnarnir ættuð að vera fegnir að við bræðum líka jöklana án þes að virkja árnar úr þeim, okkur og næst-komandi kynslóðum til góða. Ég skil bara ekki svona öfgar. Ertu búinn að gleyma þinni eigin tillögu um maraþon hlaup í Kárahnjúkagöngum. Kveðja.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 23:14
Fyrirgefðu, Ómar, ég gleymdi að segja þér að ég ætla að flagga júnídaginn sem "jaðýturnar og stóriðjuhraðlestin" fer af stað. Loksins er einhver þá að gera e-ð fyrir börnin mín og þín og þeirra afkomendur. Viltu rifja upp hvað við eigum margar virkjanir hér á landi sem eru uppgreiddar og lækka skatta okkar með sinni ókeypis framleiðslu Ef þú gefst upp á telja, skal ég hjálpa þér. Kveðja.
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 23:30
Ég er búinn að samþykkja 25 af þeim 30 stærri virkjunum sem hafa þegar verið reistar.
Það er rangt að ég telji alla staði á Íslandi, sem virkjað hefur verið á eða virkjað verður á "einstæða".
En gígaraðir eru hvergi til í öðru landi en Íslandi.
Ég var meðmæltur Búðarhálsvirkjun og þrátt fyrir að verið sé að stytta nýtingartíma Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðisins með Hverahlíðarvirkjun og virkjun við Gráhnjúka þá er ég tilbúinn til að samþykkja þær virkjanir í stað þess að byrja á verstu virkjuninni, sem á svæði sem líftíminn virkjana mun styttast á nður stysta líftímann og veldur verstu óafturkræfu umhverfisspjöllunum.
Á svæðinu frá Þingvallavatni til Reykjanestáar eru þegar komnar fjórar virkjanir, en af 19 virkjanasvæðum eru aðeins þrjú í verndarnýtingarflokki. 16:3. eru það "öfgar" umverfisverndar að hafa það hlutfall?
Ómar Ragnarsson, 17.1.2013 kl. 00:49
Eigum við þá að skila því til barna og barnabarna okkar að halda áfram að flagga þegar öll orka Svartsengis-Elvarpahólfsins verður tæmd eftir 40 ár og virkjanirnar orðnar ónýtar?
Ómar Ragnarsson, 17.1.2013 kl. 00:53
Voða þægilegt að segjast samþykkja eitthvað sem þegar hefur verið gert. Þú munt þó að sjálfsögðu aldrei samþykkja Kárahnjúkadæmið þó allir sjái að sú framkvæmd var fyllilega réttlætanleg, bæði í efnahagslegu tilliti en þó ekki síst m.t.t. byggðasjónarmiða.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2013 kl. 01:53
Börnin okkar munu eflaust þakka okkur að virkja ekki í dag. Þá munu þau hafa úr fleiri virkjanamöguleikum að velja, þá loksins þau fæðast.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2013 kl. 01:54
Barnabörnin, þ.e.a.s.
Þau munu segja: "bölvaðir bjánarnir þessir forfeður okkar, að nýta ekki sér til hagsbóta sem fyrir fótum þeirra lá".
Svona svipað og við segjum í dag um okkar forfeður, sem féllu frekar úr hor en nýta t.d. humar og rækjur... eða fjörugómsætið í skeljum. Að maður tali nú ekki um blessað hrossaketið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2013 kl. 01:58
Ég skal nefna þær 5 virkjanir af 30 sem reistar hafa verið og ég myndi snúa til baka ef hægt væri: Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, Kárahnjúkavirkjun, Steingrímsstöð, 2/3 Hellisheiðarvirkjunar og 3/4 Reykjanesvirkjunar.
Þrisvar sinnum minni Hellisheiðarvirkjun hefði gefið færi á að nýta Nesjavalla-Heillisheiðarsvæðið á sjálfbæran hátt án rányrkju og fjórðungur Reykjanesvirkjunar gæti kannski komist í áttina að því að sú orkunýting væri sjálfbær.
Ómar Ragnarsson, 17.1.2013 kl. 02:03
Gunnar:
" Þú munt þó að sjálfsögðu aldrei samþykkja Kárahnjúkadæmið þó allir sjái að sú framkvæmd var fyllilega réttlætanleg, bæði í efnahagslegu tilliti en þó ekki síst m.t.t. byggðasjónarmiða."
Þetta stenst nú þegar illa söguskoðun Gunnar. Og í stað "byggðarsjónarmiða" mætti koma "staðbundins byggðarsjónamiðs", því að enn þarf að manna vertíðarvinnu þarna lengra austur um með útlendingum.
Jón Logi (IP-tala skráð) 17.1.2013 kl. 10:19
Ef þú vilt endiega kalla nánast allt Mið-Austurland "staðbundið", þá verður víst svo að vera. Þess má geta að á Mið-Austurlandi búa á milli 80 og 90% allra íbúa Austurlands.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.1.2013 kl. 00:06
Getur Gunnar Th. nefnt einhver dæmi um að Kárahnjúkavirkjun hafi haft neikvæð áhrif á atvinnulíf á Austurlandi?
Mér sýnist hann vera einn blindasti og brattasti virkjanasinninn á gjörvöllu Íslandi þó víðar væri leitað!
Guðjón Sigþór Jensson, 21.1.2013 kl. 01:00
Ég hef heyrt nokkra blinda andstæðinga framkvæmdanna eystra halda því fram að einhver fyrirtæki hafi liðið fyrir framkvæmdirnar og/eða vegna álversins. Þegar ég hef fiskað eftir því um hvaða fyrirtæki hafi verið að ræða, þá hef ég haft samband við forsvarsmenn viðkomandi fyrirtækja sem segja af og frá að um slíkt hafi verið að ræða.
Þess má geta að Austurland breyttist úr mesta láglaunasvæði landsins í svæði sem hefur einna hæstar meðaltekjur landsbyggðarinnar. Eflaust hafa einhver af smærri fyrirtækjum svæðisins þurft dálítinn tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum á launamarkaði. Almenningur á Austurlandi lítur á slíkt sem lúxusvandamál.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2013 kl. 11:46
Skógræktin hefur beðið mikla hnekki vegna Kárahnjúkanna. Ruðningsáhrifin komu í ljós gagnvart Barra sem var langstærsti framleiðandi skógarplantna. Nú er hún rjúkandi rúst vegna ruðningsáhrifa.
Gunnar vill ekki trúa þessu enda er trú hans á stóriðjunni það mikil að ekkert kemst nær huga hans og hugsun.
Í Evrópusambandinu þarf mengandi starfsemi að greiða nálkægt 25 Evrur fyrir hvert tonn af CO2. Hér eru stjórnmálamenn sem vilja gefa stóriðjumönnum þetta eðlilega gjald. Ákilja þeir sér kannski hluta af því?
Slík vinnubrögð nefnast mútur í siðuðum löndum. Því miður eru til menn sem þykja sjálfsagt að selja allt jafnvel ömmu sína fyrir peninga.
Við sjáum hvernig Framsóknarflokkurinn og SJálfstæðisflokkurinn skildi allt eftir í rjúkandi rústum með braski og spákaupmennsku.
Vill fólk aftur sama léttlynda liðið?
Guðjón Sigþór Jensson, 21.1.2013 kl. 21:31
Þú ert nýbúinn að þylja þetta óráðsrugl hérna um Barra, Guðjón. Eins og ég sagði lesendum þessarar síðu þá talaði ég persónulega við framkvæmdastjóra fyrirtækisins og þetta virðist allt vera ímyndun inni höfðinu á þér. Ég hef ekki faglega kunnáttu til að hjálpa þér.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2013 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.