25.1.2013 | 20:20
Ákveðin tegund af "heimsku".
Orðið "heimska" er af athyglisverðum og skemmtilegum toga, því að upphaflega merkir það ekki lágt gáfnastig heldur þann, sem er alltaf heima, fer aldrei neitt og sér ekki út fyrir túngarðinn heldur allt af eigin bæjarhóli.
"Heimsku" af þessu tagi er víða að finna og einkum finnst okkur og Evrópubúum sjónarhorn Bandaríkjamanna mjög þröngt og að þeir viti almennt ekkert í sinn haus um aðrar álfur.
Mjög oft hér á árum áður, þegar ég var á ferð um Bandaríkin og sagðist vera frá Íslandi fékk maður framhaldsspurninguna "where is that in the state?" eða "where is that in the states?"
En Evrópubúum ferst að dæma Bandaríkjamenn hart í þessum efnum, samanber niðurstöðu könnunar á þekkingu belgískra kennaranema á því hvar Bandaríkin væru.
Eitt stærsta áfallið sem ég hef orðið fyrir, kom eftir tvær fyrstu könnunarferðirnar um Norður-Ameríku og Norðulönd til að kynna mér þjóðgarða og virkjanir og sögu þeirra og náttúruverndar í þessum löndum.
Þá áttaði ég mig á því hve "heimskur" ég hefði verið áratugum saman, - aðeins að skoða eingöngu út í hörgul mitt eigið land og aðstæður hér heima í stað þess að skoða jafnframt hliðstæð lönd og svæði erlendis.
Og vegna þess að afar stór hluti þessara ferðalaga, gangandi, ríðandi, hjólandi, akandi og fljúgandi hafði verið um hálendi og fjöll Íslands, var ég ekki einungis "heimskur" heldur "fjallheimskur" og hafði misst úr heilan aldarfjórðung til þess að víkka sjóndeildarhringinn.
Vanþekking okkar sjálfra á landi okkar og samanburði á því við önnur lönd er að mörgu leyti mun bagalegri en svipuð vanþekking erlendra þjóða á sviði fræða um lönd, náttúrufar, þjóðir og álfur vegna þess hve einstætt gildi Íslands og náttúru þess er.
Geta ekki fundið Bandaríkin á korti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bandaríkjamenn eru varla fáfróðari um aðra en gerist í Evrópu. Á þeim árum, sem ég bjó í Svíþjóð var ég margsinnis spurður að því, hvort til væru bílar á Íslandi. Vel að merkja var þetta stundum menntafólk.
Vilhjálmur Eyþórsson, 25.1.2013 kl. 21:44
Þetta er samt ferlegt heimskuflopp, og þetta eiga þeir fjandann að kunna. Finndu BÚFRÆÐING sem ekki getur fundið BNA á korti!
Jón Logi (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 21:47
Víða sá hann vitleysing,
voðalegt að heyra,
og fáránlegan Flateyring,
flatt var hann með eyra.
Þorsteinn Briem, 25.1.2013 kl. 22:08
Kannski hafa þessir kennaranemar verið að jóka þegar þeir fengu svona auðveldar spurningar. Annars er merkilegt að maður þarf að taka erfitt stærðfræðipróf til þess að skrá athugasemdir hér 8)
Kristjan H Kristjansson (IP-tala skráð) 26.1.2013 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.