Gat látið járnbrautalestirnar ganga á áætlun.

"Engum er alls varnað" segir máltækið en fyrr má nú vera en að segja að Mussolini hafi unnið mörg afrek ef rétt er eftir Berlusconi haft.

Eftir að Mussolini fékk einræðisvald á Ítalíu beitti hann valdi sínu miskunnarlaust. Það eitt að Ítalía gæti orðið Romaveldi líkt að útbreiðslu og mætti og að að því skyldi unnið með hervaldi, kúgun og ofbeldi var glæpsamleg geggjun. 

Í einstaka atriðum náðist svo smávægilegur árangur að frekar varð það að athlægi en að það vekti snefil að aðdáun.Óstundvísi ítölsku járnbrautanna hafði verið alræmd en með valdbeitingu tókst Mussolini að fá þær til að ganga á áætlun. 

Fé var eytt í herinn og Balbo fór í frægan flugleiðangur og kom meðal annars til Íslands. 

Primo Carnera varð heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum og er talinn lélegasti hnefaleikarinn sem þá nafnbót hefur hlotið. Sigur hans yfir Jack Sharkey þótti lykta af mútum enda átti mafían nóga peninga til þess. Ítölsk snilld eins og Fiat Topolino og Scala Óperan með Benjamino Gigli voru ekki afrek Mussolinis, - hefðu orðið til án hans. 

Mussolini lét her sinn ráðast á Abbesíníu (Eþíópíu) og steypa Haile Selassie af stóli og í kjölfarið fylgdi kúgun og ofbeldi á hendur fjarlægri þjóð. Hann vildi ekki vera minni en Hitler og lét leggja eins konar afrískan autobahn, þráðbeinan og upphækkaðan veg þvert frá vestri til austurs í sunnanverðu landinu. 

Ég hef farið þá leið á jeppa og verður að aka utan leifanna af veginum lengst af enda ríkir sárafátækt í þessu volaða landi og vegurinn löngu orðinn ónýtur að mestu.

Stórmennskubrjálæði Mussolinis fékk útrás í þáttöku ítalskra "sjálfboðaliða" í spænsku borgarastyrjöldinni 1936-39 en það var ekki nóg, heldur réðist hann á Albaníu vorið 1939 og lagði undir sig. 

Í júní 1940 sagði "hýenan" eins og Churchill kallaði Mussolini, Frökkum stríð á hendur til þess að geta gætt sér á bráðinni eftir Þjóðverjar voru búnir að gersigra Frakka. Roosevelt orðaði það þannig að með því hefði hann rekið rýting í bakið á nágrannaþjóð sinni sem ekkert hafði gert honum til miska. 

Þrátt fyrir að Frakkar væru á síðasta snúningi reyndist innrás Ítala sneypuför og varð að athlægi. 

Stríðsþátttaka Ítala var hreinn glæpur firrts harðstjóra, því Ítalir höfðu enga burði til að heyja stríð, sem átti eftir að leiða miklar hörmungar yfir þjóðina og fólk í fjölmörgum ríkjum. Ciano greifi, tengdasonur Mussolinis og utanríkisráðherra, reyndi að koma vitinu fyrir tengdaföður sinn en Mussolini valtaði yfir hann og alla sem fyrr. 

Haustið 1940 réðist Mussolini á Grikki en fór herfilegar hrakfarir, svo að Hitler varð að grípa í taumana og senda lið til að taka allan Balkanskagann og Krít til þess að hreinsa þar til áður en hann réðist á Sovétríkin. 

Óbeint gerði Mussolini gagn með þessu frumhlaupi sínu, því að herför Hitlers seinkaði innrásinni í Sovétríkin um fimm dýrmætar vikur. 

Mussolini sendi hermenn í innrásina en þegar Zhukov hóf gagnárás við Stalíngrad reyndist ítölsku og rúmensku herdeildirnar máttlitlar og voru gersigraðar. 

Í Afríku biðu Ítalir biðu þvílíkt afhroð fyrir mun fámennari her Breta og Samveldisþjóða þegar þeir réðust frá Líbíu inn í Egyptaland að Hitler varð að senda honum Rommel og Afrika Korps vélaherdeildina í febrúar 1941 til þess að forða Ítölum frá algerri hreisu. 

Í júlí 1942 ætlaði Mussolini að fara í sigurför inn í Alexandríu og Kairó og var búinn að skipuleggja hana, - hún átti að verða farin þegar Rommel væri búinn að taka þessar borgir fyrir Mussolini, sem hann hélt að yrði eftir nokkra daga!

Þarna náði stórmennskubrjálæði hans kannski hámarki. Ítalir höfðu þá hlotið einhverja mestu rassskellingu hernaðarsögunnar þegar fjölmennar hersveitir þeirra í Austur-Afríku voru gersigraðar af fámennum her Breta og Samveldisþjóða. 

Eftir ósigurinn við El Alamein tóku bandamenn Líbíu, Túnis og Sikiley í herför frá október 1942 til ágúst 1943.  

Þegar sprengjum rigndi á Róm bað öldungaráð fasistanna konunginn að svipta Mussolini völdum og setja hann í fjallafangelsið El Sasso. 

Hitler sendi honum Skorzeny á Stork skammbrautarflugvélum í "James Bond líkum" ævintýraleiðangri til þess að lenda á fjallinu og bjarga Mussolini, sem lét sig hafa það að verða eftir það auvirðilegur leppur Hitlers á þeim hluta Ítalíu sem Þjóðverjar réðu og þjóna valdafíkn þeirra fóstbræðra.

Skæruliðar drápu Mussolini þegar hann reyndi að flýja í stríðslok eins og hundur til Sviss og hengdu lík hans og Klöru Petacci ástkonu hans öfug upp á torgi í Milano þar sem múgurinn svívirti líkin, frávita af reiði og sorg yfir öllu því böli sem þessi valdaþyrsti og firrti harðstjóri hafði leitt yfir þjóð sína og aðrar þjóðir, í lokin orðinn að aumkunarverðu handbendi Hitlers og villmennsku nasistanna. .  

Milljónir manna misstu lífið vegna grimmdar Mussolinis og tugir milljóna hlutu örkuml eða voru beittar kúgun og ofbeldi.

Þótt engum sé alveg alls varnað sýnir það ótrúlega óskammfeilni og ósvífni Berlusconis að nota dag, sem helgaður er minningu þeirra sex milljóna Gyðinga sem voru drepnir í Helförinni, til þess að segja að Mussolini hafi unnið ýmis afrek, svo sem það að láta járnbrautarlestir ganga á áætlun og leggja hlálegan mont-herflutningaveg í fjarlægu Afríkuríki.   

 

 


mbl.is Berlusconi hyllir Mussolini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: el-Toro

Ómar,

Mussolini komst til valda og hélt völdum sökum helstu forkólfa atvinnulífsins á Ítalíu !

það getur stundum verið erfitt að lesa út úr seinni tíma áróðri frá fyrri hluta 20. aldar, sér í lagi þar sem nýtt samfélag tók sín fyrstu skref í framhaldinu af seinni heimstyrjöldinni.

en eflaust á þessi reiðilestur hér að ofan rétt á sér....við unnum jú stríðið...

el-Toro, 28.1.2013 kl. 00:55

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sú var tíðin að aðdáandi Mussolinis átti sér aðdáanda á Íslandi. Meira að segja heimsótti hann og naut gistivináttu hans fyrir rúmum áratug. Þá var svo komið að ekkert verktakafyrirtæki á evrópska efanhagssvæðinu treysti sér að senda tilboð til Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Um það bil mánuði eftir að Davíð Oddsson kom til baka frá þessum mikla aðdáanda Mussolinis, barst tilboð í Kárahnjúkana frá ítalska verktakafyrirtækinu Impregilo sem þá var mjög nálægt gjaldþroti. Unnið var nótt sem nýtan dag við að bjarga fyrirtækinu frá falli. Þeim tókst að fá stórt verkefni og þá fengui þeir fyrirgreiðslu frá bönkum sem björguðu fyrirtækinu.

Kannski að Berluskóni mætti þakka Davíð fyrir skilning hans á að leysa vandamál ítalska verktakabransans á kostnað náttúruverndar á Íslandi, ekki síður Mussolini fyrir umdeildar ákvarðanir á ögurtímum ítölsku þjóðarinnar.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 28.1.2013 kl. 12:00

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Engum er alls varnað" voru upphafsorðin. Hingað til lands kom Gunter Rall flugkappi fyrir áratug og lýsti því fyrir okkur hvílíkt sjarmatröll Hitler hefði verið í þeirri viðkynningu sem hann fékk fyrir foringjunum á fundum með honum sem samtals tók margar klukkustundir.

"Kurteis, skemmtilegur og viðkunnanlegur, gat verið fyndinn og hrífandi með einstaka útgeislun og aðdráttarafl". 

Á YouTube má sjá hann sýna glæsilega takta þegar hann fjallar um bréf Roosevelts og um stríðsyfirlýsingu á hendur Bandaríkjunum. 

En síðan er vitað um æðisköst hans og ofbeldisfrekju á öðrum fundum. 

Ýmis tækni og framkvæmdir Þjóðverja á þessum árum voru gætt snilld, ekki vantaði það. 

Enn vantar upp á að menn samþykki það að Þjóðverjar áttu engra kosta völ í apríl 1940 nema hertaka Noreg enda kom í ljós að litlu munaði að Bretar yrðu á undan til að framkvæma áætlun sína um að hertaka Narvik og járnnámurnar í Svíþjóð. 

En þegar villimennskan og brjálæðið í Hitler og nasistunum eru vegin á móti þessu verður útkoman svo skelfileg að því miður var seinni heimsstyrjöldin ein örfárra styrjalda sem réttmætt var að fara í gegn þessu æði. 

Ómar Ragnarsson, 28.1.2013 kl. 12:03

4 Smámynd: el-Toro

að sjálfsögðu er fasismi og nasismi ekkert til að grínast með....hvorki nú né þá !

fæstir hafa þá þekkingu á seinni heimstyrjöldinni, hvernig hún hófst og raunverulegum ástæðum þess að menn gripu til vopna.

ein af nokkrum ástæðum þess að seinna stríðið hófst, sem margur kýs að horfa framhjá, sökum öfgafylltra hugsjóna nasisma Hitlers.....er sú staðreynd að breska heimsveldið stóð höllum fæti á milli styrjaldanna á fyrri hluta 20. aldar.  og þjóðverjar vildu koma í þeirra stað sem heimsveldi með því að fá stærri bita af nýlendum breta og frakka í afríku og asíu.  bretar og frakkar voru augljóslega ekki á þeim buxunum....meðan bandaríkin gerðu hvað sem þeir gátu til að hindra uppgang japana....

...risinn í vestri var að ranka við sér...

el-Toro, 28.1.2013 kl. 12:35

5 identicon

Sögu skal ég segja fyrir þá sem hafa gaman að lesa.

Gunther Rall kom hérna árið 2000 eða 2001 muni ég rétt. Kynntist kalli og spjallaði oftlega við hann eftir það, og heimsótti hann 2009 rétt fyrir dauðdaga hans.
Hann var (a.m.k. við mig) mjög opinskármeð sitt uppgjör á seinna stríði. Hrein forréttindi fyrir svona dellukall eins og mig að geta spurt eins og mig lysti.
Um Hitler sagði hann einfaldlega að hann hefði heillað flesta í upphafi, - staðfastur og orðsnjall. Síðar meir varð hann svo reikull og með ofstækisfulla þráhyggju.
Um það sem við gekkst í þriðja ríkinu og hersetnu löndunum svaraði mér Gunther bæði fúslega, en með mikilli biturð. Ég þurfti reyndar ekki að spyrja hann, það kom af sjálfu sér. Hann sagði einfaldlega að sitt flugmannslíf hefði snúist um að lifa af dag frá degi. Það byrjaði vel með sigrum yfir Frakklandi, svo tók við orrustan um Bretland. Sveit hans fékk hins vegar þvílíka útreið hjá breska flughernum að hún var dregin úr slagnum eftir viku eða svo. Hann var svo sendur til Krítar, svo Rúmeníu, og þar var hann skotinn niður illilega og eyddi ca ári á spítala. Komst svo á lappir og eyddi miklum tíma á austurvígstöðunum sunnanverðum. Þar raðaði hann upp loftsigrum sem að sjálfsögðu litu vel út frá áróðurssjónarmiði, en lífsskilyrðin voru ömurleg,- jarðhýsi, sultur, kuldi. lýs, félagamissir, -  og viðvarandi var ákv. samhengisleysi við gang stríðsins, - áróðursmaskínan var svo öflug að Þjóðverjar voru gersamlega að vinna stríðið til stríðsloka.
Svo endaði Rall aftur á vesturvígstöðunum, og þurfti að kljást við Bandaríkjamenn og Breta. Var skotinn niður og leit á það sem lífgjöf, því hann var í læknismeðferð á meðan bandamenn gjörsamlega gengu milli bols og höfuðs á því sem eftir var af Luftwaffe.
Í stríðslok er það fyrst sem hann fær af frétta af þeim viðbjóði sem nasistar höfðu ástundað í hernumdu ríkjunum. Hann var ekkert að skafa af því þegar hann sagði mér af þessu, -nasista-liðið voru hræðilegar skepnur, -þeir lifðu í svalli og svínaríi, algerlega firrtir raunveruleikaskyni, og í þokkabót stunduðu skipulagða útrýmingarherferð.
Á meðan á því sukki stóð, hírðust hermenn við ömulegan aðbúnað, dóu í milljónavís, og í tilfelli flugmanna var bara barist áfram til dauða.
Bandamenn hins vegar notuðu "system" til þjálfunar flugmanna, - þar var flugmönnum kippt úr orrahríðinni eftir ca 200 tíma í bardögum (ef þeir voru þá á lífi), og þeir svo hvíldir og nýttir til að kenna hinum yngri öll hin mögulegustu fantabrögð í flugi. Niðurstaðan sú skilaði gríðarlegri þekkingu.
Rall karlinn var dapur við stríðslok, og nokkuð lengi eftir, - hann sagði mér að þessi nasista-hringur hefði svo gjörsamlega svikið "þá", og pasar það við það sem annar flugmaður skrifaði um, Johannes Steinhoff. Titillinn á bók hans er "IN LETZTER STUNDE, Verschwörung der jagdflieger". Svik. Blekking. Plat. Og mikið af blóði.
Þorsteinn Jónsson, - Íslendingurinn sem flaug fyrir Breta lýsti reyndar yfirstjórn nasista-þýskalands sem samsafni af glæpamönnum, og notaði grarnan orðasamhengið "helv. djö. skúrkar".
Enda áttu hann og Rall ekki í vandræðum með að spjalla saman þarna um haustið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband