Jón Sigurðsson "sóaði tímanum í gælumál" 1851.

Málflutningur andstæðinga umbóta í stjórnskipunarmálum Íslands hefði notið sín vel þegar Íslendingar hófu baráttu sína fyrir eigin stjórnarskrá eftir "Hrunið" 1849 í Danmörku og Íslandi, þar sem konungurinn hafði afsalað sér einveldinu og samin hafði verið ný sameiginleg stjórnarskrá fyrir Dani og Íslendinga með friðþægingu fyrir kónginn, sem fólst í því að meira en 20 fyrstu greinarnar fóru í það að tilgreina völd hans, en síðar í stjórnarskránni var sagt að hann léti ráðherra framkvæma vald sitt. 

Íslendingar voru fátækasta þjóð Evrópu og bjuggu við frumstæðustu og erfiðustu aðstæður allra Evrópuþjóða, fjarri meginlandinu úti í reginhafi "á mörkum hins byggilega heims". 

Þjóðin bjó nær öll í torfbæjum í vegalausu landi og fólk tórði víða við hungurmörk þegar hallæri, drepsóttir, eldgos og hafís sóttu að. 

Aðeins örfáar byggingar, sem hægt var að kalla því nafni, voru í landinu, þéttbýli var nær ekkert og engar hafnir, sem stóðu undir nafni. 

En nokkrir Íslendingar með Baldvin Einarsson fyrstan um 1830 en síðan Jón Sigurðsson og Fjölnismenn áttu sér það "gæluverkefni" að þjóðin semdi sér nýja stjórnarskrá sem kvæði á um samband hennar við sameiginlegan þjóðhöfðingja Dana og Íslendinga eftir að Danakonunugur var búinn að afsalað sér einveldinu. 

Danir féllust á að endurreisa Alþingi en í stað þess að fela Alþingi að semja nýja stjórnarskrá, var ákveðið að halda sérstakar stjórnlagaþingkosningar þar sem fulltrúar væru helst ekki alþingismenn.

Ekki er að efa að Ragnheiði Elínu Árnadóttur hefði þótt nær að eyða því fé, sem þessar stjórnlagaþingkosningar kostuðu, í það að reyna að seðja hungur stórs hluta landsmanna og "taka á vanda heimilanna" í torfkofunum." 

Stjórnlagaþingið, sem hlaut nafnið Þjóðfundur, kom saman í eina stóra húsinu, sem þá var til á Íslandi með samkomusal, Menntaskólanum í Reykjavík, og byrjaði "að sóa tímanum í gælumál".

Þá, eins og nú, steig fram fulltrúi ríkjandi valdastéttar, Trampe greifi, sagði nóg komið af því að verið væri að "sóa tímanum í gæluverkefni" og sleit Þjóðfundinum.

Jón Sigurðsson reis þá upp og hrópaði með undirtektum allra Þjóðfundarfulltrúa: "Vér mótmælum allir!"

Lifir sú stund sem og Þjóðfundurinn 1851 í ljóma í minningu þjóðarinnar og væri Ragnheiði Elínu Árnadóttur hollt að leiða hugann að því. 

Fyrir bragðið liðu 23 ár þangað til Íslendingar fengu stjórnarskrá, sem samin var í danska kansellíinu og var að mestu samhljóða dönsku stjórnarskránni frá 1849.

Í meginatriðum er þessi danska kansellístjórnarskrá með allri sinni friðþægingu við Danakonung 1849, sem nú hefur verið skipt út fyrir forseta, enn í gildi á Íslandi 139 árum síðar. 

Víst var vandi íslenskra heimila brýnn árið 1851, svo brýnn, að vandi íslenskra heimila í dag eru smámunir miðað við það, en um það gilti þá og einnig nú það, sem séra Emil Björnsson sagði stundum:  etta ber að gera en hitt eigi ógert að láta."

 


mbl.is „Tímanum sóað í gælumál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessu er nú ekki saman að jafna, stjórnarskrármál um miðja 19. öld og í dag. Við höfum ágæta stjórnarskrá í dag sem vissulega má breyta og bæta, en það liggur ekki lífið á. Skynsamlegra væri að taka verkefnið í smáskömmtum og ná sátt en svona æðibunugangur er landi og þjóð til háðungar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2013 kl. 09:43

2 identicon

Valgerður segist í morgun sitja sveitt yfir 50 breytingatillögum, en vonar að Andi Stjórnlagaráðsins muni svífa yfir nýju Stjórnarskránni.........

GB (IP-tala skráð) 28.1.2013 kl. 10:36

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Örfáar leiðréttingar:

Þegar minnst er á einhvern Ármann Einarsson sem var uppi um 1830 þá áttu sennilega við Baldvin Einarsson sem gaf út Ármann á Alþingi, tímarit í samtalsformi.

Þjóðfundurinn 1851 hafði aðeins eitt verkefni: að fjalla um frumvarp til stjórnarskrár sem danska stjórnin lagði fram. Eftir nokkrar vikur kom loksins nefndarálitið þar sem meirihlutinn með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar ákvað að hafna framlögðu frumvarpi en lagði fram nýtt frumvarp sem allir nefndarmenn nema einn stóðu að. Síðar voru þessar hugmyndir lagðar til grundvallar þegar stjórnarskráin 1874 var samin.

Þjóðfundartíðindin 1851 er bráðskemmtileg lesning og var lengi til í fornbókaverslunum.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 28.1.2013 kl. 12:08

4 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þegar Jón Sigurðsson og félagar hans börðust fyrir nýrri stjórnarskrá, var ekki til Íslensk stjórnarskrá, núna er til stjórnarskrá og hún bara ljómandi góð, það í það minnsta ekki á færi leikmanna að finna þann staf í henni sem varð þess valdandi að Íslenska fjármálakerfið hrundi.

Kjartan Sigurgeirsson, 28.1.2013 kl. 13:43

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geir H. Haarde var dæmdur af Landsdómi, til að mynda hæstaréttardómurum, fyrir brot á stjórnarskránni.

Það er því eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ánægður með stjórnarskrána.

Sem hann skilur samt ekki.

Þorsteinn Briem, 28.1.2013 kl. 13:51

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

DÆMI:

"15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim."

Stjórnarskrá Íslands


Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands:


"15. gr. stjórnarskrárinnar um að forseti [Íslands] skipi ráðherra verður að skoða í ljósi þingræðisreglunnar.

Því er það Alþingi sem ræður því í raun hverjir verði skipaðir ráðherra, þótt formlegt skipunarvald sé hjá forsetanum.

Skipun eins ráðherra í ríkisstjórn fer eftir tillögu forsætisráðherra.

Við myndun nýrrar ríkisstjórnar ber forseta að kanna vilja Alþingis áður en ákvörðun er tekin um skipun ráðherra."

Þorsteinn Briem, 28.1.2013 kl. 13:53

7 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Steini ef Geir H Haarde var sekur um að koma Íslandi á hausinn með því að fara ekki eftir Stjórnarskránni, er þá rétt að umbylta stjórnarskránni þess vegna? Var ekki nóg að gert með því að ranglega dæma Geir?

Þessi dæmi sem þú telur upp í seinni hluta svars koma mér ekki á nokkur hátt til að sjá að rétt sé að henda Stjórnarskránni á haugana.

Það er líka rétt að taka það fram í tilefni dagsins að það er sama liðið sem nú berst fyrir því að taka frumvarp Stjórnlagaráðs upp hrátt og barðis fyrir því að þjóðin kyngdi kröfum ofríkismanna ESB og borgaði skuldir óreiðumanna.  Það segir í mínum huga talsvert um skynsemi og þjóðhollustu þessa liðs. 

Kjartan Sigurgeirsson, 28.1.2013 kl. 14:41

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kjartan Sigurgeirsson,

Ég veit ekki betur en að því hafi verið haldið því fram að Geir H. Haarde og fleiri hafi komið tugþúsundum Íslendinga á vonarvöl með því hvernig íslensku bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma.

Og fjölmargir Íslendingar hefðu væntanlega gjarnan viljað hafa hér stjórnarskrá sem gerði þeim kleift að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál á sínum tíma.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hefur nú þegar verið breytt nokkrum sinnum og henni verður að öllum líkindum einnig breytt nú í vor, enda var það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn.

Íslenska stjórnarskráin á að vera eins skiljanleg öllu venjulegu fólki og hægt er, þannig ekki þurfi prófessora í lögum til að útskýra hana fyrir sauðsvörtum almúganum eða hæstaréttardómara fyrir fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.

Og ég hef haldið því fram í nokkur ár, meðal annars á þessu bloggi, að langlíklegast sé að eignir þrotabús Landsbankans dugi fyrir innistæðutryggingunni vegna Icesave-reikninganna.

Þorsteinn Briem, 28.1.2013 kl. 16:24

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað mig snerti þá stendur nafn mitt á undirskriftarlista þeirra sem fóru fram á það við forsetann að setja Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er í samræmi við bloggskrif mín þá.

Ekki veit ég um afstöðu annarra stjórnlagaráðsfulltrúa í Icesave málinu og sé ekki hvað þetta kemur stjórnarskrármálinu við.  

Sveinn Björnsson myndaði utanþingssstjórn 1942 án þess að bera það undir Alþingi og að því leyti laut hún ekki þingræðisreglunni þegar hún var mynduð.

Aldrei var borin upp vantrauststillaga á hana á þingi og reyndi því aldrei á það hvort hún væri þingræðisstjórn, fyrr en Ólafur Thors fann stjórnarmyndunarflöt haustið 1944 og þá veitti Sveinn Björnsson utanþingsstjórninni lausn og skipaði stjórnina sem Ólafur hafði myndað. 

Andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar leita nú lúsa við að finna út hvernig forsetinn gæti beitt valdi sínu og aukið völd sín samkvæmt henni. 

Það eru smámunir miðað við það sem hann getur gert löglega samkvæmt núverandi stjórnarskrá, - svona ef menn vilja endilega fara út í svona röksemdafærslur: 

Hann boðar ríkisráðsfund á Bessastöðum en hefur í hliðarherbergi útvalinn vin sinn tilbúinn.

Forsetinn setur ríkisráðsfundinn, veitir öllum ráðherrunum lausn og slítur fundi.

Ráðherrarnir fara og inn kemur útvalinn ráðherra forsetans, sem hann skipar forsætisráðherra og ákveður líka að aðeins þurfi einn ráðherra. 

Hinn nýi ráðherra les upp forsetabréf þar sem Alþingi er rofið.

Tveir menn hafa tekið sér öll völd á Íslandi.

Og þetta er stjórnarskráin sem menn vilja endilega halda í á þeim forsendum að forsetinn hafi minni völd samkvæmt henni en þeirri nýju. 

Samkvæmt nýju stjórnarskránni verður ekki gerlegt að mynda utanþingsstjórn nema með atbeina þingsins og þvi er "valdarán" af því tagi, sem nú er tæknilega mögulegt, útilokað samkvæmt henni. 

Ómar Ragnarsson, 28.1.2013 kl. 16:26

10 Smámynd: Snorri Hansson

Stóri feillinn í núverandi stjórnarskrár ferli var stofnun hins svokallaða“ Stjórnlagaráðs“. Aðalmál Stjórnlagaráðs hefur verið sjálfsupphafning. "Þeir" voru að gera hinn heilaga texta sem þingið átti ekkert með að setja út á.

Sem síðan hefur komið í ljós að full þörf er á.

Betra hefði verið að hafa venjulega nefnd hinna vísustu manna sem störfuðu fyrir þingið og með því í breiðri samstöðu.

Snorri Hansson, 28.1.2013 kl. 17:49

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála Snorra. Þannig hefur breytingaferlið verið fram að þessu rugli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2013 kl. 19:40

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

ónei!

Meginkórvillan var að þarna slysuðust inn menn sem aldrei áttu neinarhugmyndir um breytingar og þar með engar forsendur að taka kosningu til Stjórnlagaráðs. Þessir mennbnöfðu það eitt að markmiði að kæra til Hæstaréttar og gera allt starfið sem erfiðast.

Ríkisstjórnin fór aðra leið en Sjálfstæðisflokkurinn sem alltaf hefur litið á endurskoðun stjórnarskrárinnar sem sitt einkamál.

Sjónarmið þeirra Snorra og Gunnars hér að ofan tel eg því vera lítils ef nokkurs virði!

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband