30.1.2013 | 12:57
Hálfri öld á eftir öðrum landshlutum.
Fyrir 40 til 50 árum bjuggu margir landshutar við öryggisleysi í orku- og samgöngumálum. Kveikjan að Láxárdeilunni var það öryggisleysi á Akureyri að vetrarlagi að bærinn byggi við mikinn rafmagnsskort svo dögum skipti vegna krapastíflna í Laxá sem stöðvuðu rafmagnsframleiðslu þar.
Fyrir hálfri öld var Mjólkárvírkjun ekki risin og svipað var að segja víða um land.
Ófært gat verið til flugs til helstu flugvalla og vegurinn milli Norðurlands og Austurlands lokaður svo vikum skipti.
Sem betur fer hefur þetta batnað í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum eins og nýlegt dæmi sannar, þegar nærri lá að Vestfirðir yrðu algerlega án fjarskipta, samgangna og raforku.
Vestfirðir eru líka eini landshlutinn þar sem er enginn alþjóðaflugvöllur og eini landshlutinn þar sem ekki er hægt að fljúga nema um hádeginn í skammdeginu eða í örfáar klukkustundir ef veður leyfir.
Göng undir Breiðadalsheiði og samtenging flugvallanna á Ísafirði og við Þingeyri eru það lítil framför, að varla tekur því að nefna það.
Þjóðleiðin milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða er lokuð vetrarmánuðina og þarf að aka á þriðja hundrauð kílómetra til að komast leið, sem annars væri fjórfalt styttri.
Þar að auki myndi afhendingaröryggi frá Mjólkárvirkjun norður til Ísafjarðar og Bolungarvíkur stórbatna með tilkomu raflínu í gegnum jarðgöng milli Dýrafjarðar og Ísafjarðar.
Árið 1960 er enn í meginatriðum á Vestfjörðum varðandi forsendur fyrir nútíma mannlífi og byggð.
Ádrepa lögreglustjórans á Vestfjörðum varðandi samfellt hálfrar aldar ófremdarástand fyrir vestan er því þörf og löngu tímabær.
Bregðast verður við strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gallinn er sá að Dýrafjarðargöng breyta engu um samgöngur milli norðan og sunnanverðra Vestfjarða nema því að Mjólkárvirkjun kæmist í vegasamband. Alvöru tenging til Bíldudals kostar marga peninga í viðbót.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 15:50
Hvernig er hægt að setja óraunhæfar kröfur á fólkið í landinu. Við verðum að vera raunhæf. Eigum við að hafa alla vegi neðanjarðar. Eigum við að hafa allar raflínur neðanjarðar. Hvernig er hægt að hafa svona hugmyndafræði í byggðarjöfnun. Göng frá Vestmannaeyjum. Verður fólk ekki að fara að hugsa sinn gagn. Haldið þin að Grænlendingar myndu heimta svona. Hvað með Kanada og Alaska. Síberíu menn vita að þeir búa í heimshlutum þar sem allt getur gengið á báða vegu. Eigum við þá ekki að biðja um meiri grænhúsaráhrif.
Valdimar Samúelsson, 30.1.2013 kl. 16:56
Mjólkárvirkjun er í vegasambandi til norðurs meðan Hrafnseyrarheiði er fær og til suðurs meðan Dynjandisheiði er fær.
Með jarðgöngum frá botni Arnarfjarðar (Borgarfjarðar) yfir í Dýrafjörð er komin heilsársleið til megin orkusölusvæðis Mjólkárvirkjunar.
Ekkert hefur verið gert fyrir Dynjandisheiði í hálfa öld, en veginn um hana má bæði laga mikið og byggja yfir veginn með sérstökum yfirbyggingum á erfiðustu köflunum, sem eru ekki nema hluti heiðarinnar.
Ómar Ragnarsson, 30.1.2013 kl. 17:31
Gallinn var sá að forgangsröðunin var röng að mínum dómi, - Dýrafjarðargöng áttu að vera á undan Héðinsfjarðargöngum.
Ómar Ragnarsson, 30.1.2013 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.