Hin raunverulega bílaöld á Íslandi og 20 merkustu bílarnir.

Í dag er þess minnst að 127 eru liðin frá "fæðingu bílsins" og árið 2004 var þess minnst hér á landi að öld var síðan fyrsti bíllinn kom til landsins, Thomsens-bíllinn svonefndi. Var þá sagt að bílaöldin hefði hafist hér á landi með komu þess bíls, en því er ég ósammála, því að Thomsensbíllinn entist örstutt og landið var án bifreiða að mestu næstu níu árin.

Hin raunverulega samfellda bílaöld á Íslandi hófst ekki fyrr en 1913, því að síðan þá hefur alltaf verið til einhver gangfær bíll í umferð á Íslandi. Á þessu ári lýkur því fyrstu bílaöldinni á Íslandi.

Bílasérfræðingar erlendis hafa dundað við það að setja upp lista með merkilegustu bílum síðustu aldar, en ég hygg að sá listi yrði töluvert öðruvísi hér á landi en úti í heimi.

Til dæmis myndi vanta á þann lista Mini, sem þó má kalla forföður 90% fólksbíla, sem nú eru framleiddir í heiminum og er í 1-3ja sæti á flestum listunum, en Mini náði aldrei þeim vinsældum eða markaði þau spor hér á landi eins hann gerði til dæmis í Evrópu. Svipað er að segja um Citroen DS sem er ofarlega á flestum listum.

Listi minn (birtur með fyrirvara um endurskoðun) felur í sér þær 20 markverðustu gerðir fólksbíla, sem mér sýnast vera merkastar í 100 ára sögu bíla á Íslandi, og tekur þessi listi mið af notagildi, aksturshæfni og vinsældum við íslenskar aðstæður á þeim tíma sem viðkomandi bílar komu fram, en einnig mið af tæknilegri gerð þeirra. Einnig er miðað við hve mikil hlutfallsleg áhrif þeir höfðu, hver á sínum tíma. Bílarnir skiptast svona eftir þjóðerni:

Bandaríkin 6, Japan 4, Þýskaland 3, Bretland 3, Sovétríkin 2, Frakkland 1 og Ítalía 1.

Það er til marks um sérstæðar íslenskar aðstæður og lélegt vegakerfi lengst af 100 ára bílaöld, að 10 af 20 bílum eru aldrifsbílar og af efstu 10 eru 6 aldrifsbílar. En hér er sem sagt þessi listi minn:   Late_model_Ford_Model_T[1] 

1. FORD T. Frá 1913- 27. Bíllinn sem startaði bílaöldinni á landi okkar, kom Íslendingum á hjólin frá 1913 og tryggði samfellda umferð bíla í landinu upp frá því, ódýrastur allra, fáránlega einfaldur og auðveldur í viðhaldi, léttur og meðfærilegur, hár frá vegi og duglegur á vegleysum og vondum vegum.  Willyjeep01[1]

2. WILLYS JEPPINN. Frá 1945 - 67. Þessi litli sterkbyggði bíll, einn af fimm mikilvægustu hernaðartækjum Bandamanna í stríðinu, olli byltingu í samgöngum eftir stríðið og opnaði þúsundir kílómetra af leiðum, sem áður voru ekki bílfærar. Kom dreifbýlisfólkinu endanlega á hjólin og opnaði hálendi og óbyggðir Íslands.

3. CHEVROLET SEX STROKKA. Frá 1926-54  Bíllinn sem skaut Chevrolet upp í sess mest seldu bílgerðar í heiminum næstu áratugina. Fyrsti stóri fólksbíllinn sem bauð upp á stærri vél en fjögurra strokka fyrir viðráðanlegt verð, rými og vandaða smíð og sterka, aflmikla og endingargóða vél.

20100317173159!VolkswagenBeetle-001[1]

4. VOLKSWAGEN BJALLA. Frá 1955-74. Fyrsti smábíllinn sem hlaut almennar metvinsældir fyrir lágt innkaupsverð, áður óþekkt gæði og endingu, einfalda og endingargóða loftkælda vél og drifbúnað og furðu mikinn dugnað í erfiðri færð á vondum vegum vegna þyngdarinnar, sem rassvélin setti á drifhjólin .  

5. LANDROVER. Frá 1948-67. Hlaut miklar vinsældir fyrir mun meira rými og burð en Willysjeppinn, sparneytna og endingargóða dísilvél og góða endingu.   IMG_3204

6. GAZ 69 "Rússajeppinn". Frá 1955. Vegna sérstakra viðskiptakjara við austantjaldslöndin hlaut þessi best hannaði jeppi síns tíma miklar og verðskuldaðar vinssældir þrátt fyrir lélega vél, sem oft var skipt út fyrir betri vestrænar vélar. Var breiðari og lengri en Landrover, bauð upp á áður óþekkta mýkt fjaðra, rými, meiri veghæð og getu í torfærum en aðrir jeppar á þeim tíma og mikil þægindi fyrir farþega þegar byggð voru rúmgóð hús yfir þá.

7. FORD BRONCO. Frá 1966. "Bronco-æðið, sem rann á landsmenn 1966 var engin tilviljun, þótt það skipti sköpum að lengd á milli öxla var fyrir tilviljun svipuð og á Rússajeppanum, en það tryggði stórfelldan bænda-jeppa-afslátt af verðinu. Þetta var fyrsti jeppinn með gormafjöðrun að framan, vélbúnað, driflínu og kram af bestu bandarísku gæðum og setti ný viðmið varðandi afl og hraða aldrifsbíla með V-8 vélinni. IMG_2258

8. SUBARU LEONE 4x4. 1976 -84. Fyrsti fjöldaframleiddi "cross-over" bíll í heimi, þ.e. venjulegur lítill fólksbíll með heilsoðna byggingu en aukna veghæð og fjórhjóladrif með háu og lágu drifi, þó ekki jafn lágu og á jeppum, japönsk gæði, léttleika og sparneytni og viðráðanlegt verð. Hugsanlega sterkasti bíll íslenskrar bílaaldar miðað við þá notkun sem honum voru ætluð. Alger nagli sem opnaði erfiðar leiðir og slóðir fyrir lágmarks kostnað en þó stöðugleika og þægindi fólskbíla.  IMG_0908

9. LADA NIVA. (LADA SPORT á Íslandi). 1977-89. Tímamótahönnun í smíði aldrifsbíla, fyrsti "crossover" bíllinn sem var í senn, fólksbíll  og jeppi með hátt og lágt drif, með fullkomna jeppaeiginleika, mörgum árum á undan samtíð sinni, með sídrif, sjálfstæða gormafjöðrun að framan og líka gormafjöðrun á afturás auk þess að vera ódýrasti jeppinn/jepplingurinn á markaðnum. Er enn í framleiðslu, ódýrastur allra, ódrepandi þótt samsetnigargæðin og ending á ýmsum hlutum mættu vera talsvert meiri. Mercedes_180_2_v_sst[1]  

10. MERCEDES BENS PONTON, 180/190 . 1955 - 63 . Enn í dag hafa ekki verið framleiddir fólksbílar með betri stærðarhlutföllum eða betri blöndu af óaðfinnanlegri rýmisnýtingu, þægindum og einkum mýkt og aksturseiginleikum, sem gáfu stórum amerískum drekum langt nef. Sjálfstæð gormafjöðrun á öllum hjólum færðu áður óþekkt gæði af þessum toga til landsins og Benzarnir áunnu sér strax sess sem hinir dæmigerðu leigubílar, ekki síst fyrir það að vera í fararbroddi varðandi sparneytnar og endingargóðar dísilvélar.  

11. TOYOTA COROLLA.  Mest seldi japanski fólksbíllinn um áraraðir á Íslandi með helstu vinsældaaeiginleika japanskra bíla, forystu í gæðum, endingu og rekstraröryggi, sniðinn fyrir meðaljóninn.   

12. RANGE ROVER. Frá 1970 - 94. Bylting á jeppamarkaði heimsins, sem setti algerlega ný viðmið varðandi þægindi, lúxusbílaeiginleika en jafnframt undraverða torfærueiginleika vegna hinnar löngu og mjúku fjöðrunar. Vw_bus_t1_v_sst[1]

13. VOKSWAGEN "RÚGBRAUÐ". Frá 1956-80. Algerlega ný hönnun, sem markaði tímamót hvað snerti gríðarlegt rými og sætafjölda (alls 9) miðað við stærð, þyngd, verð, eyðslu og einfaldleika. Hratt af stað byltingu í gerð svipaðara bíla svo sem Renault Estafette (Franskbrauð) og Fiat Multipla.   

14. WILLYS STATION. Frá 1947 - 55 . Mörgum sést yfir það að þetta var fyrsti aldrifsbíllinn, sem bauð upp á rými og þægindi rúmgóðs fólksbíls þótt stíf blaðfjöðrun drægi úr þægindum. Citroen_Tractions_at_Anet_deux_fois[1]

15. CITROEN TRACTION AVANT. Frá 1934-55. Fyrsti framhjóladrifsbíllinn á Íslandi og tímamóta- og brautryðjendabíll á því sviði í heiminum. Það komu ekki margir bílar af þessari gerð til landsins vegna gjaldeyrishafta, en þessir bílar með heilsoðna, lága byggingu, hjólin úti í hornum bílsins og sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum  voru áratugum á undan öðrum bílum hvað snerti aksturshæfni, mýkt og stöðugleika á vondum vegum.

16. FORD V-8. Frá 1932-54. Fyrsti ódýri bíllinn sem bauð upp á mýkt og kraft V-8 vélar og var einn um hituna að þessu leyti í 22 ár. IMG_4271

17. TOYOTA HILUX / 4RUNNER. Frá 1984. Varla hægt að hugsa sér bíl sem hefur verið eins vel sniðinn fyrir notkun við erfiðar Íslenskar aðstæður, með næstum fullkomna blöndu af styrk og léttleika auk ódrepandi gæða og notagildis. Hefur haldið sessi sínum í bráðum 20 ár.     

18. SUZUKI FOX / SAMURAI. 1982- 89. Langminnsti, léttasti og sparneytP1013580nasti alvörujeppinn á markaðnum  en þó með japönsk hágæði og sæti fyrir fjóra. Ásamt Benz G-wagen með bestu undirvagnshönnun allra jeppa á þeim tíma, hver einasti hlutur þannig staðsettur að sem það hindraði sem minnst torfærueiginleika en héldi þyngdarpunkti bílskins þó sem neðst. Einfaldur, sterkur og endingargóður.   

19. FORD CORTINA. Frá 1964-68. Fyrsti hundódýri og einfaldi fólksbíllinn, sem bauð upp á þokkalegt rými og viðunandi endingu.

20. FIAT 127. 1971-1980. Í fyrsta sinn var einn allra léttasti, ódýrasti og minnsti bíllinn á markaðnum með viðunandi rými fyrir fjóra fullorðna og farangur þeirra en auk þess einn hinna fyrstu með þverstæða vél og framhjóladrif, enda valinn bíll ársins í Evrópu þegar hann kom fram.

   Citroen_Tractions_at_Anet_deux_fois[1]Willyjeep01[1]


mbl.is 127 ár frá fæðingu bílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það ekki dálítið vel í lagt að kalla Zuzuki Fox "alvöru jeppa"? Jepplingur eða slyddujeppi væri nær lagi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.1.2013 kl. 04:04

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lystilega Ómar ekur,
í annan gír fer Fordinn T,
aðdáun hann einnig vekur,
er upp í fer hann Benzinn G.

Þorsteinn Briem, 30.1.2013 kl. 05:04

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ford T var afturdrifinn með þrjá gíra: tvo áfram og einn afturábak. Gírkassanum var stýrt með þremur fetlum (pedölum) og stöng til vinstri við ökumann."

"Ford T hafði enga kúplingu eins og þekkist nútildags. Þess í stað var skipt um gír með fetlunum þremur; frá vinstri talið var hár og lágur gír, afturábak og bremsa."

"Bremsan virkaði ekki á hjólin heldur á gírkassann."

Ford T

Þorsteinn Briem, 30.1.2013 kl. 05:17

4 identicon

Frábær samantekt hjá þér Ómar,takk fyrir.

Númi (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 08:10

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ómar: Ford Corolla?

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.1.2013 kl. 08:29

6 Smámynd: Einar Steinsson

Nei Gunnar Suzuki Fox/Samuri (Fox er íslenskt sölunafn sem var hvergi annarstaðar notað) er alvöru jeppi, hann hefur allt sem einkennir fullburða jeppa hvernig sem litið er á málið. Það að hann er lítill og léttur hefur ekkert með það að gera, þá er alveg eins hagt að segja að upprunalegi Willis jeppinn sé ekki "alvöru jeppi", utanmálin á þeim eru ekkert ósvipuð og hönnunin mjög sambærileg.

Einar Steinsson, 30.1.2013 kl. 10:00

7 identicon

Hefði mælt með að þú skiptir út myndinni af jeppanum (hinum eina sanna), settir mynd af  military jeppanum, sem varð í raun fyrsti jeppinn sem landinn eignaðist. CJ2A kom svo síðar og enn síðar (líklega 1953) kom svo þessi útgáfa með Hurricane - vélinni sem myndin er af og sem hér á landi hefur oftast verið kallaður Ísraels-jeppi, vegna þess að við fengum þá eftir krókaleiðum í gegn um Ísrael vegna vöruskiptasamninga. 

E (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 11:21

8 identicon

Góðan daginn Ómar,

ja sitt sýnist hverjum, en mjög góð grein engu að síður.

Gunnar Th það er raunhæft og meira að segja rétt að kalla Suzuki Fox "alvöru jeppa" vegna þess að þetta er Jeppi sem byggður er á grind og með hátt og lágt drif. Þessir svo nefndu jepplingar eða slyddujeppar eru með sjálfberandi boddý og þar af leiðandi ekki á grind og oftast með svo kallað sítengt aldrif og geta aldrey flokkast sem jeppar.

Kveðja Hjörtur og JAKINN.is

Hjörtur Sæver Steinason (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 11:52

9 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Þetta er ágæt samantekt, ég get held ég verið sammála um flest, þó ekki allt.

Ég get ekki tekið undir að Citroen Avant hafi haft einhverja þýðingu fyrir bílasögu Íslands. Til þess komu of fáir hingað og höfðu lítil eða engin áhrif. DS hafði meiri áhrif þegar hann kom.

Gamli Moskvitsinn hefði kannski átt heima á listanum, tæknilega ekki neinn gæðavagn, en kom fátæku alþýðufólki á fjögur hjól. Sama um Löduna sem kom á áttunda áratugnum (ég kann ekki númerin á henni, gamli Fiatinn). Líklega hefur enginn bíll náð hlutfallslega meiri sölu á Íslandi, held það hafi verið 1986 að salan samsvaraði því að meira en 1% allrar þjóðarinnar hefðu keypt Lödu! Ég er ekki viss um að margar bíltegundir geti státað af slíku nokkurs staðar í heiminum.

Ég gef mér að 19 eigi að vera Ford Cortina.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 30.1.2013 kl. 11:59

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég kaupi þessi "jepparök"... ég verð seint kallaður sérfróður um bíla, þó ég sé atvinnubílstjóri og ökukennari 

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.1.2013 kl. 15:29

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Suzuki Fox er nákvæmlega eins uppbyggður og fyrsti Willysinn, meira að segja jafn langur á milli öxla upp á sentimetra og jafnbreiður á milli hjóla.

Japaninn gerði hins vegar þær breytingar sem þurfti til að gera frumhönnunina enn betri.

Willysinn var með þykkar fjaðrir undir öxlunum, sem sköguðu niður og tóku á sig krap og snjó. Foxinn hins vegar með svo þunnar fjaðrir, að það sem var undir fjöðrinni var jafnvel minna en venjuleg stuðdemparafesting.

Drifkúlurnar á Willys voru ekki í beinni línu og millikassinn skagaði niður fyrir öxlana.

Bíllinn ruddi því mun meiri snjó frá sér og rak sig niður en nauðsynlegt var.  

Kúlurnar á Fox og svinghjólið eru í þráðbeinni línu og allir lægstu punktar bílsins utan driflínunnar eru rétt fyrir ofan öxlana. Svona er þetta líka á Benz G.

Fet af lengd Willysins, sem nýta hefði þurft fyrir farþegarýmið, fór í súginn vegna þess að vélin var fyrir aftan framöxulinn og autt rými upp á fet myndaðist fyrir aftan hjólskálarnir.

Meira en tvöfalt léttari vél Súkkunar er yfir framöxlinum og því fer ekkert rými til spillis, enda er heildarlengd bílsins styttri en Willysins sem því nemur og bíllinn sjálfur 250 kílóum léttari.

Þyngdarpunktur Foxins er eins framarlega og unnt er, en það bætir mikið hæfni bílsins í brekkum.

Heilir öxlar á Fox gera það að verkum að það lækkar ekkert undir hann þótt hann sé hlaðinn.

Jepplingarnir, sem ekki eru með heila driföxla, síga hins vegar niður við hleðslu, þannig að slíkur bíll, sem auglýstur er með 20 sm veghæð fer niður í 14 sm.

Foxinn á myndinni er minnsti jöklajeppi landsins vegna þess að hann er næstum þrefalt léttari en meðal jöklajeppi, og því nægja 32ja tommu dekk til að gefa honum jafnmikið flot og 38 tommu dekk venjulegum jöklajeppa

Ómar Ragnarsson, 30.1.2013 kl. 18:11

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stundum eru það ekki mest seldu bílarnir sem eru merkilegastir heldur þeir sem eru lengst á undan samtíð sinni hvað varðar tækni og eiginleika.

Frá 1934 og fram að tilkomu Benz Ponton um 1953, var Citroen Traction Avant yfirburðabíll á íslenskum vegum hvað snerti stöðugleika, mýkt og aksturshæfni.

Vindustangafjöðrunin og það, að bíllinn var miklu lægri miðað við hæð og breidd en nokkur annar bíll gerði hann að þessum afburðabíl á íslenskum vegum.

Á þessum tíma voru dýrustu amerísku drekarnir 20 sentimetrum hærri en Citroen T A og hölluðust út með veltuhreyfingum í beygjum með heila öxla á blaðfjöðrum að aftan svo að þeir dönsuðu að aftan í holum og á þvottabrettum.

Auk alls þessa sá framhjóladrifið á Citroen um að fullkomna yfirburði hans og hagstæða staðsetningu þyngdarpunktsins.

Range Rover var lúxusjeppi sem seldist hlutfallslega ekki í fleiri eintökum en Citroen T A.

En ég hef hann á listanum af því að tilkoma hans gaf möguleika á áður óþekktum þægindum í akstri á vegleysum rétt eins og tilkoma Citroen T A lyfti aksturseiginleikum á vondum vegum upp á hærra plan.

Ómar Ragnarsson, 30.1.2013 kl. 18:22

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Manni langar næstum því í Zuzuki Fox eftir þennan fróðleik

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.1.2013 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband