1.2.2013 | 21:41
Öflun grunnorkunnar óendurnýjanleg. Hvað um Þóríum-kjarnorkuver ?
Fyrst þetta: Það er stórt framfaraskref í meðferð á íslenskri orku að minnka þá tölu, sem stingur í augu varðandi íslensk háhitaorkuver, að 85% orkunnar fari ónýtt út í loftið. Að þessu leyti er framleiðsla hins nýja fyrirtækis CRI á góðu eldsneyti fagnaðarefni.
Hitt stenst ekki að þessi framleiðsla byggist á endurnýjanlegri orku. Ef Eldvarpavirkjun verður að veruleika mun orkan í sameiginlegu orkuhólfi Svartsengis og Eldvarpa aðeins endast í 40 ár.
40 ára ending á orkuhólfi er hvað endurnýjanleika snertir ekki hótinu skárri en 40 ára ending olíulindar.
Þetta er rányrkja, ósjálfbær þróun og óþarfa græðgi sem felur í sér misrétti kynslóðanna, ekki aðeins með því að hrifsa allt frá komandi kynslóðum, heldur valda stórfelldum óafturkræfum spjöllum í leiðinni. .
Það leiðir hugann að öðru sem ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu og er ekki einn um það því um daginn bloggaði frændi minn, Einar Björn Bjarnason, um stórfelldar rannsóknir Kínverja, Indverja og fleiri á þeim möguleika að nýta frumefnið Þóríum í kjarnorkuverum. Nafn frumefnisins rita ég með stórum staf, af því að það er nefnt eftir Þór.
Kostir þess gætu verið margir: Margfalt meira magn er til af því en af úraníum, og því gæti Þóríum enst öldum saman þótt öll orkuöflun heimsins yrði fært yfir á það, en úraníum endist aðeins innan við öld ef öll orkuframleiðsla heimsins yrði færð yfir í það.
Í öðru lagi myndi rekstur Þóríumvera verða miklu hættuminni en á núverandi verum, af því að ekki fylgja þau vandamál varðandi kælingu og hættu á slysum, sem nú plaga kjarnorkuverin.
Í þriðja lagi eru ekki sömu vandamál varðandi úrgang og nú valda mönnum miklum vandræðum.
Það grátlega er, að rannsóknir og þróun á notkun Þóríums til kjarnorkuframleiðslu hafa verið stöðvaðar eða þeim ekki sinnt. Ástæðan virðist eingöngu hernaðarlegs eðlis, því að Þóríumnotkun fæðir ekki af sér efni til að nota í kjarnorkusprengjur, þ. e. plútóníum.
Í gær bloggaði Haraldur Sigurðsson um þetta og bæði hann og Einar Björn gáfu upp tengla í frekari fróðleik.
Ef Þóríum er á næsta leyti sem helsta samkeppnishæfa og umhverfismildasta lausnin á orkuvanda heimsins og loftslagsvandanum getur það haft mikil áhrif á orkumál hér á landi og um allan heim.
Vitað er að olíuvinnsla verður æ dýrari og er auk þess óæskileg vegna áhrifanna á lofthjúp jarðar.
Röð af Þóríumorkuverum frá Skotlandi og suður úr gætu sett strik í það að leggja sæstreng til Íslands og sömuleiðis gert það að óaðlaðandi kosti að koma upp skammlífum og umhverfisspillandi orkuverum á Íslandi, sérstaklega þegar það er haft í huga, að jarðvísindamenn hafa lagt fram hugmyndir um hvernig hægt væri að gera nýtingu háhitaorku sjálfbæra og endurnýjanlega með því að fara margfalt hægar í sakirnar, af gætni og yfirvegun.
Ef sagt er að langur tími kunni að líða þar til fyrsta Þóríumknúna kjarnorkuverið rísi er það hugsanlega ekki sjálfgefið. Aðeins liðu ellefu ár frá spreningu fyrstu kjarnorkusprengjunnar þar til fyrsta kjarnorkuverið, sem framleiddi rafmagn til almenningsnota, Calder Hall verið í Bretlandi, tók til starfa.
Mér finnst merkilegt að enginn fjölmiðill skuli hafa skoðað þetta mál eða fjallað um það, svo stórt sem það gæti orðið í framtíðinni.
Íslenskt eldsneyti selt til Hollands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það eina sem við getum ekki verið án er náttúran. Á Sólheimum er unnið merkilegt starf sem þarf að auglýsa .
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.2.2013 kl. 21:59
Þótt þú skrifir Þóríum með stórum staf má geta þess að öll tegundaheiti skal rita með litlum staf, jafnvel þótt dregin séu af manna eða guðanöfnum sbr. auglýsingu um íslenska stafsetningu.
Hitt er svo vitaskuld rétt að hver sá sem skrifar texta á íslensku er frjáls að því að nota hvaða stafsetningu sem hann kýs; að undanteknu skólakerfinu og texta frá stjórnarvöldunum.
Þess vegna skrifar þú Þóríum og þá væntanlega Þórshani en ég þórín og þórshani.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 23:46
Þóríumorka (sem er ekki kukl heldur raunveruleg og hagnýt vísindi) er ein af þessum uppfinningum, sem því miður hefur lent úti á kantinum vegna sögulegra tilviljana eins og notkunar úraníumkljúfandi gufuhverfla í kafbátum. Þessi tækni er í útrýmingarhættu af völdum fjárhagslegra hagsmuna bundninna í öðrum orkugjöfum sem eru af skornum skammti og því hægt að skortselja til skammtímagróða. Úraníum er t.d. mjög dýrt í notkun og mikill kostnaður sem fer í meðferð þess og förgun sem margir hafa beinlínis atvinnu af og eru því á vissan hátt háðir úraníumi eins furðulegt og það kann að hljóma. Sama gildir um olíu, en allt er þetta í raun skattur, bæði á efnahagslífið og jörðina.
Fylgist jafnframt vel með á næstunni fréttum af þróun sem er að eiga sér stað í kjarneðlishvörfum með rafgreiningu nikkel yfir í kopar með vetni, eða palladium sem stundum er notað og jafnvel tungsten. Ég kann ekki að skýra nákvæmlega eðlisfræðina, enda er hún ný og vísindamenn klóra sér enn yfir henni. Þó virðist sem kjarnahvörf af einhverju tagi eigi sér stað sem ekki er þó hægt að skýra með klofnun atómkjarna eins og í úranverum eða samruna eins og í vetnisatómbombum, heldur einhverskonar stökkbreytingu atómkjarna í ferli sem gefur frá sér orku hægar en svo að um sé að ræða spreningu eða hitnun í mörgþúsund gráður eins og í úranveri, en samt í margföldu því magni orku sem hleypt er á rafskautin. Þessi orka kemur alls úr tóminu heldur virðist losna úr hráefnunum við þær kjarneðlisfræðilegu stökkbreytingar sem verða á þeim, en ekki þó svo hratt að nein hætta sé á ferðum af sprengingu eða bráðnun ef ferlinu er þokkalega vel stýrt, og það besta er að það verður engin geislavirkni !
Nú kann einhver að hugsa "kaldur samruni?" eða ráma í nöfnin "Fleischman-Pons" sem eins og frægt varð neyddust til að draga kenningar sínar í hlé vegna harðrar gagnrýni á sínum tíma. Nei ég var þegar búinn að taka fram að það er alls enginn kjarnasamruni sem á sér stað, heldur eitthvað annað ferli sem var einfaldlega óútskýrt á þeim tíma, en hafa ber í huga að þetta var árið 1989 og margir urðu vantrúaðir á þetta og kölluðu það villuvísindi að framleiða "orku úr engu" eins og þeir virtust gera. Síðan þá hafa verið byggðir stærri kjarnahraðlar og nýjar öreindir uppgötvaðar sem hafa svarað ýmsum spurningum um eðli alheimsins. Ein þeirra gat af sér eðlisfræðilíkan af hegðun tiltekinna kjarneinda sem vill svo til að passar við þessi ferli og stangast ekki á við nein önnur þekkt kjarnvísindi heldur byggir beinlínis á þeim, svo það verða ekki kölluð villuvísindi.
Ástæða þess að menn voru vantrúaðir á þetta fyrir 24 árum síðan var sú sama og alltaf þegar viðtekin heimsmynd stangast á við raunveruleikann. Rótgróna heimsmyndin snýst til sjálfsvarnar og segir: "galdrar eru hættulegir fyrir þig". Þess vegna hafa mörg galdrafárin eftir allt reynst vera uppreisn gegn einhverju sem fólk annað hvort skildi ekki nógu vel til að sætta sig við eða hafði aðra og lögmæta ástæðu til að óttast og vera andsnúið. Núna eru hinsvegar aðrir tímar og menn eru opnari fyrir þeim möguleika að Fleischman og Pons hafi í raun verið komnir á sporið um eitthvað merkilegt sem væri þess vert að kanna betur. Það trúðu hinsvegar allir að kjarnaklofnun væri raunveruleg þegar þeir sáu myndirnar frá Hiroshima og Nagasaki. Kannski við getum lært eitthvað á þessu.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.2.2013 kl. 00:17
Það er martröð margra að hagstæður finnist orkugjafi. Mjög flottur pistill!
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.