2.2.2013 | 21:29
Meira en milljón mönnum fórnað fyrir okkur.
Í nóvemberbyrjum 1942 tilkynnti Hitler sigurreifur að Stalíngrad væri fallin, borgin sem bar nafn höfuðandstæðings hans, mannsins sem hafði undanfarin misseri staðið í vegi fyrir því að draumurinn um Þriðja ríkið sem mesta heimsveldis veraldarsögunnar gæti ræst.
Þetta var því gríðarlega táknrænn og mikilvægur sigur. Von Paulus, einn helstu herforingja hans, baðaður ljóma sigra í Frakklandi, og hinn glæsilegi rúmlega 300 þúsund manna 6. her, voru að vinna enn eitt afrekið í óstöðvandi sigurför hins mikla yfirburðakynstofnss, Aríanna sem malaði mélinu smærra heri nútíma Mongóla Gengis Khans og "untermensh", óæðri kynþátta Austur-Evrópu og Asíu.
Aldrei hafði ríki Hitlers verið eins stórt, var í þann veginn að gleypa í sig dýrmætar olíulindir Sovétmanna við sunnanvert Kaspíahaf og þar að auki að rjúfa flutningaleiðina til norðurs og draga hakakrossfánann að hún í hinni mikilvægu iðnaðarborgar, sem að vísu var að mestu orðin að rústum einum eftir harða bardaga um hvert hús, hverja hæð og hvern kjallara.
En sama dag réðust Vesturveldin inn í Norður-Afríku og rúmri viku áður höfðu þeir unnið orrustuna um El Alamain og byrjaðir að reka her Rommels til baka.
En það skipti engu í augum Hitlers, því að sá her var aðeins 5% af herjum Þjóðverja í Rússlandi þar sem hin raunverulegu úrslit heimssstyrjaldarinnar hlutu að ráðast.
En varla hafði Hitler lýst yfir sigri í Stalingrad, "að undanteknum örfáum innilokuðum hópum,"þegar stór her undir stjórn Zhukovs hershöfðingja hófu mikla sókn úr norðri fyrir vestan Stalingrad, valtaði yfir veikar rúmenskar og ítalskar hersveitir sem þar voru og lokuðu her Von Paulusar inni á undraskömmum tíma.
Von Manstein, sem var snjallasti hershöfðingi Þjóðverja, reyndi að brjótast í gegnum herkvína og forsendan fyrir því að tækist að bjarga 6. hernum var að Von Paulus kæmi með her sinn til baka á móti bjargvættunum.
En að sjálfsögðu voru Von Paulus og Hitler of stoltir til að gera það og nú átti að leika frábæran leik Luftvaffe þegar flugvélar héldu uppi loftbrú við Demyansk fyrir tæpu ári og fæddu og klæddu 100 þúsund manna her í þrjá mánuði þangað til að hann braust út úr sams konar herkví.
En þetta var þrisvar sinnum stærri her í þetta sinn, flugher Rússa mun öflugri nú og loftbrúin brást.
Aðeins 5 þúsund hermenn Þjóðverja komust úr hildarleiknum í Stalingrad og meira en milljón Rússar fórust.
En fórn þeirra réði mestu um það að brjóta á bak aftur sókn Þjóðverja og mestu villimennsku sem sagan kann frá að greina. Fyrir það skulum við vera þakklát í nú, þegar 70 ár eru liðin frá þessum hildarleik.
En það eru oftast fleiri en ein hlið á öllum málum. Hinir óbreyttu þýsku hermenn voru líka látnir færa ósegjanlegar fórnir. Samkvæmt lýsingu gamallrar rússneskrar konu sem ég hitti í Demyansk árið 2006, voru þetta flestir ungir menn, komnir langt inn í ókunnugt land, án þess að átta sig á því til hvers, börðust þarna bara upp á líf og dauða til þess eins að láta brytja sig niður.
Sagt er að þegar De Gaulle forseti Frakklands og fyrrum foringi franskra skriðdrekasveita, var í opinberri heimsókn í Sovétríkjunum, hafi honum verið boðið að koma til Stalíngrad.
Hann stóð þar á bakka Volgu þangað sem þýskir hermönn höfðu komist og Rússarnir lýstu orrustuvellinum fyrir honum.
Þá á De Gaulle að hafa sagt: "Þeir hafa unnið ótrúlegt afreki" og hinn rússneski gestgjafi að hafa sagt á móti: "Já, okkar menn."
"Nei," svaraði De Gaulle. "Þjóðverjarnir, að hafa komist alla leið hingað."
Fögnuðu sigrinum við Stalingrad | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi herferð var meira undirbúin af ósk en skynsemi. Sagt er að Adolf hafi talið stjörnuspár fremur en veðurspár hafi verið mikilvægari.
Í 30 ár heimsótti eg sama heimilið í Þýskalandi. Á vegg var mynd af ungum manni í hermannafötum, bróður húsfreyjunnar og tengdamóður minnar. Þessi ungi maður féll einhvers staðar á austurvígstöðvunum og kom aldrei til baka.
Tengdafaðir minn var einnig stríðsmaður hjá þessum skelfilega leiðtoga. Framan af var hann í lúðrasveit þýska flughersins en svo var sú sveit leyst upp og send með handvopn á þessar sömu vígstöðvar. Tengdafaðir minn hafði heppnina með sér, hann slasaðist nógu snemma, varð fyrir sprengjubroti og var fluttur á hersjúkrahús þar sem hann var lengi illa særður.
Svoa var nú það. Örlög þeirrar þjóðar sem átti svo marga góða drauma eftir marga erfiðleika gegnum tíðina varð fyrir mestu smán sem hægt er að hugsa sér. En núna er hún í forystu Evrópubandalagsins af öðrum verðleikum.
Eg hefi ætíð fundist mikið til um Þjóðverja, þeir eru hluti minnar fjölskyldu, þeir koma hingað þúsundum saman á ári hverju til að sjá fagurt land þar sem germanskt mál er talað. Eg hefi mikla ánægju af að umgangast þessa gömlu og merku menningarþjóð sem leiðsögumaður. Betra og vinsamlegra fólk þekki eg ekki. Þjóðverjar eru yndislegt og umfram allt skilningsríkt fólk. Og hvað hafa menn á móti Evrópusambandinu ef við skyldum komast upp með að setja okkar eigin skilyrði fyrir inngöngu? Eg er viss um að við eigum meiri og betri samleið með þessu fólki en Kínverjum en svo virðist að ýmsir vilja opna allt úpp á gátt gagnvart þeim. Við þekkjum þá þjóð ekki en Þjóðverja þekkjum við betur sem og Englendinga, Frakka, Norðmenn, Dani, Svía, Færeyinga, Finna og Grænlendinga sem vilja líta á okkur sem jafningja. En hvað með braskara frá Kína? Eg fæ gæsahúð þegar eg heyri um braskara, vil helst ekki eiga nein samskipti við þá enda hafa þeir hirt upp allan sparnað okkar og jafnvel meira.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 2.2.2013 kl. 22:03
Þeir voru einfaldlega að bjarga eigin skinni, ekki að „fórna sér fyrir okkur“.
Vilhjálmur Eyþórsson, 2.2.2013 kl. 22:21
Þú segir að Hitler hafi fagnað sigri en gleymdu ekki að hann sigraði aldrei Stalingrad. Þessi ótrúlega orusta sem stóð um einstaka húsarústir svo sem dráttarvélaverksmiðjur og því um líkt. Af því að varnirnar héldu við Stalíngrad með óskaplegum fórnum þá gafst tími til að gera gagnárás þ.e. króa herinn af.
Paulus hefur líklega átt erfitt með að hugsa út fyrir boxið hann var talinn einum of mikill embættismaður til að óhlíðnast Hitler og ákveða að brjótast út herkvínni þegar dauðinn blasti við að öðrum kosti. (Minnir fyrir sitt leiti á Icesave "herkvína" þar sem kratarnir vildu borga)
100.000 þjóðverjar lifðu orustuna af og voru teknir til fanga en fangavistina lifðu örfá þúsund, líklega að hluta vegna skelfilegrar meðferðar Þjóðverja sjálfra á sínum stríðsföngum.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.2.2013 kl. 22:34
Stríð er villimennska og umsátrið við Stalingrad var engu líkt. Óbreyttum hermönnum att út í bardaga sem engu skiluðu. Sprengjum var látið rigna yfir óbreytta borgara í stórborgum Þýskalands. Fremur til að valda skelfingu og ótta heldur en að ná hernaðarlegum árangri.
Gleymi aldrei fréttamyndunum af skelfdu fólki, konum og börnum á flótta úr hálfsprengdum háhýsum. Margar konur sem komu til Íslands frá Þýskalandi eftir stríð áttu feður og bræður sem tóku þátt í bardögunum í Rússlandi.
Margir vísindamenn vildu fara aðrar hernaðarlegar leiðir en fengu litlu ráðið. Englendingar völdu Churchill til að akta fljótt og djarfmannlega við ógnarstjórn Hitlers. Churchill valdi sér ráðgjafa Lindemann, sem var nær einráður í ákvarðanatöku um sprengjuárásir á borgir Þýskalands. Sama sagan endur tók sig við Hiróshima og Nagasaki 1945, skotmarkið voru óbreyttir borgara.
Allar örlágaríkustu ákvarðanir í stríði eru teknar af örfáum mönnum.
Þótt við þekkjum ekki mikið til stríðshremminga þekkjum við sama munstrið í ákvarðanatökum hér á landi.
Sigurður Antonsson, 2.2.2013 kl. 22:44
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 00:12
Guðjón (#1) þurfti að koma ESB inn í athugasemd sína. Ætli hún sé ólæknandi þessi ESB veiki?
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2013 kl. 01:11
Í seinni heimsstyrjöldinni voru Bretar, Bandaríkjamenn og Rússar bandamenn í stríði gegn Öxulveldunum.
Í mínum huga gengur það ekki upp að segja annars vegar að hermenn Breta og Bandaríkjamanna hafi fórnað sér fyrir okkur en að Rússarnir hafi ekki fórnað sér fyrir, heldur bara verið að bjarga eigin skinni.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2013 kl. 01:15
Fyrirætlun Hitlers með sumarsókninni 1942 var ekki bara óskhyggja heldur strategísk, einkum sú ætlan að taka olíulindir Rússa, því að án þeirra var stríðið tapað fyrir þá og yfrráðin yfir þeim eina von Þjóðverja til að snúa stríðinu sér í hag.
Einnig var freistandi að taka Stalíngrad og ná valdi yfir flutningaleiðinni á Volgu.
En flestir hernaðararsérfræðingar eru sammála um að mistökin hafi verið hin sömu og árinu á undan þegar átti að taka bæði Leningrad og Moskvum, að láta ekki annað markmiðið hafa forgang fram yfir hitt, þ. e. að ná olíulindunum.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2013 kl. 01:25
Orrustan um Stalingrad lagði að sjálfsögðu grunninn að Evrópusambandinu, Evrópska efnahagssvæðinu og Icesave-deilunni.
Þorsteinn Briem, 3.2.2013 kl. 02:28
Ég held reyndar að Bandaríkjamenn og Bretar, með ómetanlegri hjálp Íslands sem bækistöð fyrir skipalestir til Murmansk, hafi bjargað Rússum eins og lesa má um í ágætri bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, "Dauðinn í Dumbshafi".
Gríðarlegt magn af orustuflugvélum, skriðdrekum, fallbyssum og öðrum hergögnum ásamt ýmsum öðrum vistum var flutt sjóleiðina til N-Rússlands og eins og flestirir vita var ein helsta bækistöð þessara flutninga í Hvalfirði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.2.2013 kl. 04:35
Allt betra til umræðu en núið.
K.H.S., 3.2.2013 kl. 06:27
Það er svolítið blekkjandi hver herstyrkur öxulveldanna var í N-Afríku. Að bera saman N-Adríku og Stalingrad er eitt, að bera saman N-Afríku og allar austurvígstöðvarnar er annað. En það má þó nefna það að Þjóðverjar misstu tökin algerlega í N-Afríku um leið og Stalingrad, og við fall Túnis 1943 voru ca 300.000 menn öxulveldanna teknir höndum.
Þar var búin að vera í gangi gífurleg loftbrú til Ítalíu til að forða mannskap, og svo mikið var lagt undir að flugvélar sem hefðu gagnast við Stalingrad voru sendar af svæðinu til miðjarðarhafs.
Þeim var svo slátrað í mjög miklu magni af bandamönnum, og svo rammlega, að flugvélamissirinn var meiri en í Rússlandi á sama tíma.
Ég fór einu sinni yfir tjónskýrslur Þjóðverja frá þessum tíma, og varð alveg steinhissa.
Ef ekkert hefði verið í gangi á miðjarðarhafi hallast ég að því að Þjóðverjar hefðu náð Stalingrad. Þetta var svo tæpt að það voru alveg niður í 300 metra sem þeir voru frá fljótsbakkanum.
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 08:01
Það kemur líka fram í bók Magnúsar Þórs, hversu ofboðsleg seigla bjó í Rússunum, ekki síst konunum. Þar er mögnuð frásögn af einni slíkri sem vann við uppskipun á góssinu frá bandamönnum.
Fróðlegt væri að vita af hverju Þjóðverjar fóru ekki bara í kring um Stalingrad eftir að hafa sprengt hana í rústir. Það voru þessir síðustu nokkurhundruð metrar sem fóru með þá, þegar Rússum tókst að breyta þessu í návígisbardaga þar sem öll fínu vopnin hjá Þjóðverjum urðu gagnslítil og jöfnuðu þannig stöðuna.
Mig minnir að svipuð staða hafi komið upp í borgarastríðinu í Líbýu, þar vörðust menn í borg (man ekki nafnið) með opna vatnaleið að baki.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 08:20
Svo má ekki gleyma því að tíminn var sérlega óheppilegur fyrir þjóðverja. Vatnaleiðirnar lagði stundum, og gátu þá rússar komið mannafla yfir á ís.
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 11:18
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3762822
Pétur Þorleifsson , 3.2.2013 kl. 12:14
Ein staðreynd: Bretar fengu þrefalt meiri aðstoð frá Bandaríkjamönnum en Rússar.
Ómar Ragnarsson, 3.2.2013 kl. 21:46
Enda auðveldara við að verða. Rússar fengu þó aðstoð frá Bretum á undan. Strax fyrir jól 1941.
Þjóðverjar höfðu svo fengið gnægtir frá Rússum á undan. Enda "bandamenn" Þjóðverja til 1941......
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 22:17
Ég man að ég fór einhverntíma inn á tímarit.is og las blöðin frá 1939-1945. Allavega forsíðurnar. Það er svo auðvelt að taka hlutunum sem einhverjum náttúrulögmálum, gömlum sögum sem eru ristar í stein og ekkert getur breytt. En að lesa blöðin frá degi til dags var virkilega merkilegt. Þar var því lýst hvernig ástandið í Evrópu varð eldfimara með hverjum deginum sem leið í ágúst 1939. Hvernig fólk óttaðist að stríð væri að brjótast út, en vonaði hið besta. Ég man eftir fyrirsögn í Mogganum sumarið 1941. Mannskæðustu Orrustur Mannkynssögunnar Um Það Bil Að Hefjast. Gat ekki annað en velt því fyrir mér hvernig var að lesa það á þeim tíma.
Það er gömul saga og ný að sigurvegarinn skrifi sögubækurnar. Þess vegna er gaman af tilvitnuninni í De Gaulle. Ég er að rembast við að skrifa sögu sem gerist að hluta til í stríðinu. Samræðurnar hér að neðan eiga að gerast 1943, á meðan stríðið er í fullum gangi og ekki útséð um hver muni fara með sigur af hólmi. Þessir menn eru að vinna með herliðinu, en Pétur vann með þjóðverjum fyrir stríð.
Tómas horfði djúpt í augu Péturs. ‘Ég er ekki viss um að þú skiljir við hvað þú ert að eiga.’
‘Ég skil það fullkomlega. Ég er að eiga við brjálað fólk sem er að fara á bak við geðveikissjúklinga.’
‘Við erum að vinna með góða liðinu. Þarf ég virkilega að minna þig á það? Ég verð að geta treyst því að viðhorfin og kjafturinn á þér komi okkur ekki í vandræði.’
‘Mín viðhorf koma málinu ekkert við, og bara svo það sé á hreinu. Góða liðið? Góðir kallar? Stríð? Ég sé ekki samhengið.’
Villi Asgeirsson, 3.2.2013 kl. 23:00
Er ekki ein hlið á þessu sem þið veltið ekki upp. Hvað ef Þjóðverjar
hefðu unnið, hefðu þá ekki fleirri komist af í stríðinu og eftirmálum þess. Sérstaklega þessir sem Stalín drap heima fyrir. Og hvernig væri
Evrópa í dag.
Kveðja
Jóhann
Jóhann (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 23:13
Operation Barbarossa
Þorsteinn Briem, 3.2.2013 kl. 23:28
Orrustan um Stalingrad
Þorsteinn Briem, 3.2.2013 kl. 23:29
Þjóðernishreinsanir? Allir drepnir nema bláeygðir germanir?
Villi Asgeirsson, 3.2.2013 kl. 23:33
Jóhann, - Villi svarar þessu vel.
Stalín var búinn með sínar hreinsanir fyrir stríð, en þjóðverjar voru engan veginn búnir með sínar. Og eitt lóð á þá vogarskál sem stóð á bak við tap þeirra á austurvígstöðvunum var þetta hreinsunaræði þeirra. Aðferðin við að kljást við rauða herin var að þurrka hann út, - ekki að komast sem hraðast að markmiðinu.
Þýska orðið er "kesselschlacht".
Svo er það helförin sem gerði ráð fyrir 11 milljónum fórnarlamba. (Wansee skjalið)
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 07:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.