"Hver er hvurs og hvurs er hvað?"

Í mínu ungdæmi heyrði ég stundum Brynjólf Jóhannesson syngja lag með ofangreindri spurningu, sem kemur upp í hugann í hinni eilífu umræðu sem verið hefur síðan ég man eftir mér hver sé hvað á Alþingi Íslendinga.

Þá er aðallega um það rætt hvar þingmenn hafi skráð lögheimili sitt, þeir flokkaðir eftir því og í framhaldinu miklar útleggingar. En er það nú einhlítur mælikvarði?

Ég er að heyra það fyrst núna að Ásmundur Friðriksson sé ekki Vestmannaeyingur og kem af fjöllum.

Síðan Landeyjahöfn kom til sögunnar tekur álíka langan tíma meirihluta ársins að fara á milli lands og Eyja og það tekur að aka frá Selfossi austur á Hellu.  

Skoðum ýmis dæmi í sögunni. Ég hélt á sínum tíma að Árni Mathiesen væri borinn og barnfæddur og innmúraður og innvígður Hafnfirðingur en síðan var bent á að þegar hann varð þingmaður hafi hann látið skrá lögheimili sitt fyrir austan fjall og varð þá allt í einu ekki aðeins orðinn "landsbyggðarmaður" og innmúraður og innvígður Sunnlendingur heldur gat hirt drjúga upphæð árlega fyrir það óhagræði að vera landsbyggðarmaður og landsbyggðarþingmaður.

Skoðum nokkra af stjórnmálaforingjum sögunnar og öðrum sem hafa tekið þátt í þjóðmálum.   

Jón Sigurðsson forseti lifði og starfaði lengst af í Kaupmannahöfn þegar hann var þingmaður fæðingarhéraðs hér heima.

Jónas Hallgrímsson var mestöll fullorðinsár sín í Kaupmannahöfn.

Tryggvi Þórhallsson var biskupssonur í Reykjavík en "landsbyggðarþingmaður", þingmaður Strandamanna.

Hermann Jónasson var fæddur og uppalinn í Skagafirði en var þingmaður Strandamanna alla tíð og í lokin þingmaður Vestfirðinga, en bjó þó allan tímann í Reykjavík og átti sumarbústað í Borgafirði.

Ólafur Jóhannesson lifði og starfaði alla tíð í Reykjavík en var þingmaður Skagfirðinga og síðar Norðurlandskjördæmis vestra.

Steingrímur Hermannsson var fæddur, uppalinn og bjó alla sína tíð í Reykjavík en var samt þingmaður Vestfirðinga, skilgreindur sem "landsbyggðarþingmaður."

Gunnar Thoroddsen var sendur vestur á Mýrar rétt rúmlega tvítugur í því skyni að verða þingmaður Mýramanna og hafði víst aldrei komið áður á þær slóðir sem áttu að verða kjördæmi hans.

Síðan eru nýleg dæmi í hina áttina í stjórnlagaráði þegar mönnum hefur verið núið því um nasir að vera í "101 Reykjavík" gott ef ekki "Lattelepjandi kaffihúsalýður" en meira skammaryrði geta sumir ekki fundið um þá sem þeim er í nöp við.

Eftir þeirri þrætubók mátti skilgreina Lýð Árnason sem Hafnfirðing þótt hann hefði eytt fjórtán bestu æviárum sínum sem starfandi læknir á Flateyri og ég vissi varla þann mann í stjórnlagaráði sem skildi betur landsbyggðarfólkið eða túlkaði betur hagsmuni þess.

Örn Bárður Jónsson er fæddur og uppalinn á Ísafirði og mikill Ísfirðingur í sér og með afar sterkar taugar þangað, en Reykvíkingur skyldi hann þó talinn í húð og hár.

Ég hef eytt megninu af ævistarfi mínu í endalausum ferðalögum um landið og umfjöllun um það og hagi landsbyggðarfólks en brennimerktur skal ég þó vera sem "101 Reykjavík lattelepjandi kaffihúsalýður",- lægra er víst ekki hægt að komast.

Er þó líklegast minnsti kaffihúsamaður landsins en átti lögheimili í 101 Reykjavík til tveggja ár aldurs og mun bera það brennimerki til dauðadags.

Þessi umræða er oft á plani sem mér sýnist erfitt að líta á sem mjög hátt plan. En aðrir eru því ósammála og telja að þessi þrætubókarlist sé öllu æðri þegar lagður er dómur á menn og málefni hér á landi.  

  


mbl.is Enginn Eyjamaður á þingi í vor?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"4. gr. Enginn getur átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn.

Leiki vafi á því hvar telja skuli að föst búseta manns standi, t.d. vegna þess að hann hefur bækistöð í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs."

"Alþingismanni er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður. Sama gildir um ráðherra."

Lög um lögheimili nr. 21/1990

Þorsteinn Briem, 3.2.2013 kl. 09:56

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reykvíkingurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur því ekki heimild samkvæmt lögum til að flytja lögheimili sitt til Norðausturkjördæmis, enda þótt hann verði þingmaður fyrir það kjördæmi nú í vor, enda starfar Alþingi meirihlutann af árinu og heimilisfang þess er við Kirkjutorg í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 3.2.2013 kl. 10:35

3 identicon

Ómar, - þú ert nú 50-50 landsbyggðarmaður. Sem setur þig í "hvorkiflokk"

Jón Logi (IP-tala skráð) 3.2.2013 kl. 17:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hygg að þú sért nokkuð nálægt þessu enda mun ég aldrei afneita fæðingarborg minni.

En 50/50 er gott jafnvægishlutfall rétt eins og á þeim bílum, sem krafist er að hafi bestu aksturseiginleikana.

Ómar Ragnarsson, 3.2.2013 kl. 21:40

5 identicon

Öhhhhh, er reyndar fæddur í Reykjavík. Fer reyndar ógjarnan þangað, en í fæðingar-tilfellinu gat ég bara ekki rönd við reist ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband